Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1969, Blaðsíða 6
4
II. HÁSKÓLAHÁTÍÐ
Háskólahátíð var haldin fyrsta vetrardag, 26. október 1968, í
samkomuhúsi Háskólans, að viðstöddum menntamálaráðherra,
erlendum sendiherrum, borgarstjóra, biskupi Islands og ýmsum
öðrum gestum, kennurum og stúdentum.
Athöfnin hófst með þvi, að Strengjakvartett Björns Ólafs-
sonar lék kvartett opus 95 eftir Beethoven, 1. þátt. Síðan flutti
rektor, prófessor Ármann Snævarr, ræðu þá, sem hér fer á eftir:
Herra forseti íslands, virðulega forsetafrú, herra menntamála-
ráðherra, sendiherrar erlendra ríkja, kæru samkennarar, kæru
stúdentar og aðrir háttvirtir áheyrendur.
Ég býð yður öll velkomin til háskólahátíðar, sem að vanda er
haldin fyrsta vetrardag í því skyni að marka með formlegum
hætti upphaf nýs háskólaárs og til að fagna nýjum stúdentum.
Ég leyfi mér að bjóða sérstaklega velkomin forsetahjónin,
herra Kristján Eldjárn og forsetafrúna Halldóru Eldjárn, og
þakka þeim þá sæmd, er þau sýna Háskólanum með því að sækja
háskólahátíð. Við minnumst með þökk mikilsmetinna starfa
herra forsetans í þágu Háskólans um margra ára skeið, jafnframt
því sem ég tjái honum alúðarþakkir fyrir ánægjulegt og mikils-
vert samstarf við hann sem þjóðminjavörð þann tíma, sem við
höfum verið forstöðumenn nágrannastofnananna tveggja í há-
skólahverfinu.
Ég býð velkominn menntamálaráðherra og þakka honum þá
sæmd, er hann sýnir Háskólanum með nærveru sinni hér í dag.
1 upphafi þessarar athafnar vil ég minnast látins háskólakenn-
ara, prófessors Guðmundar Thoroddsens, fyrrv. háskólarektors,
er lézt hinn 6. júlí s.l., 81 árs að aldri. Prófessor Guðmundur
var kennari hér við Háskólann í full 30 ár, fyrst dósent, en síðar
prófessor í handlæknisfræði og yfirsetufræði. Hann var meðal
kunnustu lækna þjóðarinnar, mikill kennari og félagi stúdenta
sinna, er mótaði mjög íslenzka læknastétt um áratuga skeið.