Dvöl - 01.01.1946, Page 64
62
DVÖL
hver eftir annan. Fyrst var hún búin að vera gift í sex mánuði, svo í
eitt ár, svo í þrjú ár.
Áður fyrr hafði hún aldrei þurft að drekka. Þá gat hún setið alla
liðlanga nóttina við borð með fólki, sem drakk frá sér vitið, og verið
alltaf jafn glög og kvik, án þess að láta leiðast af því, sem fram fór
í kringum hana. Ef hún smakkaði vín, var það undantekning frá venj-
unni og orsakaði venjulega langar, gamansamar skýringar, en nú réð
óttinn gerðum hennar. Eftir sennur var Herbie oft úti alla nóttina, og
hún fékk aldrei að vita, hvar hann hélt sig. Þá fann hún til þyngsla
um hjartað og sárinda í brjóstinu, og hugur hennar hverfðist eins og
þeytispjald.
Henni fannst bragðið af áfenginu andstyggilegt. Af gininu — hvort
sem það var blandað eða óblandað — varð hún fárveik. Eftir nokkrar
tilraunir komst hún að raun um, að skozkt viský var henni hollast. Hún
drakk það óblandað, því að með því móti komu áhrifin fyrst í ljós.
Herbie hvatti hana til þess að drekka, honum þótti vænt um að sjá
hana kennda. Þau héldu bæði, að það mundi kannske færa henni hið
góða skap aftur, og þá mundi þeim fara að líða vel saman aftur.
„Svona hetjan,“ sagði hann uppörfandi. „Lofaðu okkur nú að sjá þig
ofurlítið hýra.“ En það færði þau ekki nær hvort öðru. Þegar hún
drakk með honum, var hún fyrst í stað dálítið glaðleg, en svo — eig-
inlega án þess að þau vissu hvernig það byrjaði — voru þau allt í einu
komin í háa rifrildi. Svo vöknuðu þau morguninn eftir og vissu þá
varla um hvað þrætan hafði snúizt, og mundu óljóst, hvað sagt hafði
verið eða gert, en voru þó bæði bitur og hatursfull í garð hins. Svo liðu
nokkrir dagar í hefnigirni og þögn.
En stundum sömdu þau þó í þessum þrætum — og þá venjulega í
rúminu. Þá var mikið um kossa og gælunöfn á báða bóga og fullviss-
anir um það, að nú væri þessu lokið og nú mundu þau byrja nýtt líf...
„Ó, nú skulum við láta okkur líða yndislega saman, Herbie. Ég
hef verið andstyggilega vond við þig. Ég hlýt að hafa verið þreytt.
En nú verður allt gott aftur. Bíddu nú hægur.“
En nú voru þessar blíðu og ástríðufullu sættir úr sögunni. Þau áttu
aðeins vinsamleg samskipti á því skammvinna blíðuskeiði, sem áhrif
vínsins sköpuðu áður en meira vín rak þau út í nýja misklíð. Sund-
urþykkjan varð enn hatrammari. Illyrði voru hrópuð og löðrungar
gefnir, og stundum kom til handalögmáls. Einu sinni fékk hún glóð-
arauga. Daginn eftir var Herbie óttasleginn og fór ekki til vinnu
sinnar. Hann elti hana á röndum og ráðlagði alls konar kvalastill-