Fréttablaðið - 30.09.2010, Blaðsíða 30
30 30. september 2010 FIMMTUDAGUR
Með húsvernd upp úr lægð
Menningararfur þjóðarinnar getur haft miklu hlutverki
að gegna í áætlunum um endur-
uppbyggingu samfélagsins. Minja-
varsla í víðum skilningi snýst ekki
aðeins um fortíðina heldur getur
átt stóran hlut í endurreisn sam-
félagsins til framtíðar. Auðvelt
er að sýna fram á að fjárfesting
í menningararfinum er umhverf-
isvæn, sjálfbær og mælanlega
árangursrík lausn á niðursveiflu.
Endurbætur á eldri byggingum
skapa hlutfallslega fleiri störf en
nýbyggingar, sé miðað við kostn-
að, auk þess sem sögulegar bygg-
ingar liggja hjörtum íbúa nær en
nýbyggingar og gefa góða staða-
rímynd. Fólki líður vel í sögulegu
umhverfi.
Því hefur verið haldið fram að
efnahagslegar lægðir séu góðar
fyrir húsvernd, því þá minnki
fjárráð til nýbygginga og meiri
áhersla sé lögð á viðhald og end-
urbætur á þeim húsakosti sem
fyrir er í landinu. Sé tekið mið af
fjölda umsókna í Húsafriðunar-
sjóð og fyrirspurna til skrifstofu
Húsafriðunarnefndar má leiða
líkur að því að í þessu felist sann-
leikskorn. Þeim sem ekki er tamt
að setja húsvernd á oddinn og sáu
eldri húsum allt til foráttu í und-
angengnu góðæri sökum þess að
þau stæðu í vegi fyrir „eðlilegri
þróun og nýbyggingum“, sjá nú
tækifæri í eldri byggð og snúa sér
í auknum mæli að viðhaldi og end-
urbótum á henni. Um mikilvægi
þess að viðhalda og varðveita til
næstu kynslóða þeim hluta bygg-
ingararfsins, sem talinn er hafa
varðveislugildi, er óþarfi að fjöl-
yrða hér. Þetta er öllum ljóst, en
hins vegar eru margir tilbúnir
að slaka á kröfum um varðveislu
þegar staðið er frammi fyrir
möguleikanum á skjótfengnum
gróða. Þannig hefur ótöldum lista-
verkum á sviði byggingarlistar
sem og óbætanlegum þjóðminjum
verið breytt eða þau hafa beinlínis
horfið af sjónarsviðinu undanfar-
in ár en við það hefur umhverfi
okkar, sérstaklega í þéttbýli, hlot-
ið skaða af.
Skipta má örvandi áhrifum
menningararfsins á efnahagsbata
í niðursveiflu, í þrjú meginatriði:
Í fyrsta lagi er um efnahagsleg-
an ávinning að ræða. Framkvæmd-
ir við endurnotkun, endurbætur
og varðveislu byggingararfsins
eru hlutfallslega mannfrekari en
nýframkvæmdir og stuðla því að
meiri atvinnu allt í kringum land-
ið en efniskostnaður er aftur á
móti mun minni. Reynslan sýnir
að opinberir styrkir og afslætt-
ir af opinberum gjöldum vegna
slíkra framkvæmda laða fram
margfaldað framlag frá einka-
aðilum. Fjárfesting í menningar-
arfi hefur bein áhrif á vöxt menn-
ingartengdrar ferðaþjónustu sem
leiðir til efnahagslegra hagsbóta
þegar horft er til framtíðar.
Í öðru lagi er um að ræða
umhverfislegan ávinning. Hefð-
bundin byggingarefni eru í öllum
aðalatriðum vistvæn. Viðhald eldri
húsakosts stuðlar ekki einungis að
varðveislu þeirrar orku og bygg-
ingarefna sem nýtt voru við bygg-
ingu hússins, heldur minnkar það
þörfina á óvistvænni förgun og
framleiðslu nýrra efna.
Í þriðja lagi kemur til félags-
legur og menningarlegur ávinn-
ingur. Skilningur og umhyggja
fyrir menningararfi þjóðarinnar
eykst stöðugt, jafnvel í efnahags-
legum óstöðugleika. Fólki er annt
um sína arfleifð. Sagan og menn-
ingararfurinn eru samofin hug-
myndum okkar og tilfinningum
fyrir umhverfinu, bæði nærum-
hverfi og landsins alls. Sameigin-
legur menningararfur skipar stór-
an sess í samheldni samfélaga og
er því mikilvægur áhrifavaldur á
lífsgæði.
Nýlegt úrræði að fella niður
virðisaukaskatt af viðhaldi fast-
eigna ásamt skattaívilnunum
er mikilvægt skref í þessu sam-
hengi en jafnframt er kallað eftir
því að sjóðir sem veita styrki til
endurbóta á eldri byggingum
verði efldir. Menningararfurinn
er árangursríkt verkfæri til örv-
unar efnahagslegrar endurreisnar
og atvinnusköpunar.
Húsvernd
Nikulás Úlfar
Másson
forstöðumaður
Húsafriðunarnefndar
Endurbætur á eldri byggingum skapa
hlutfallslega fleiri störf en nýbygging-
ar, sé miðað við kostnað.
Fjölmargt er í boði fyrir þá sem vilja stunda reglulega þjálfun
og það getur oft verið erfitt að velja
á milli margra góðra kosta. Flest
okkar höfum við prófað ýmislegt og
valið svo það sem hentar okkur best.
Stundum finnum við eitthvað sem
við höldum okkur við í lengri tíma og
stundum viljum við skipta eða bæta
við okkur og prófa eitthvað nýtt. Það
er auðvitað mismunandi hvaða hreyf-
ing okkur finnst skemmtileg og eins
er mismunandi hvað hentar okkur á
hverjum tíma. Stundum viljum við
fjör og hraða hreyfingu og stundum
viljum við rólegri æfingar samhliða
því að auka styrk og liðleika og í leið-
inni losa okkur við streitu. Við þurf-
um flest á því að halda að læra betur
að njóta augnabliksins, gefa okkur
tíma til að vera á stað og stund og
draga þannig úr álagi og streitu.
Helsti munur á jóga og annarri
líkamsrækt er áherslan á rétta
öndun í jóga og þeirri tímalengd
sem hverri jógastöðu er haldið. Það
að gefa okkur tíma til þess að halda
stöðu í meira en 5 sekúndur gefur
okkur betra færi á að einbeita okkur
að því sem við erum að gera og ná
þannig miklu betri árangri. Arnold
Schwarzenegger sagði einhvern tím-
ann að hann fengi miklu meira út úr
15 mínútna æfingum með fullri ein-
beitingu heldur en að æfa í klukku-
tíma þar sem hann væri að hugsa um
eitthvað annað. Jóga leggur áherslu
á það að vera í núinu og taka eftir
þeim æfingum sem við erum að gera
og hvaða áhrif þær hafa á líkamann.
Sú þjálfun gefur okkur líka betri ein-
beitingu í hinu daglega lífi og hjálpar
okkur þannig til að ná betri árangri
í öllu því sem við tökum okkur fyrir
hendur.
Í jóga er lögð rík áhersla á að
hlusta vel á hvernig okkur líður og
gera aldrei meira heldur en líkami
okkar leyfir. Ef við finnum fyrir
eymslum eða öðrum óþægindum þá
er mikilvægt að taka eftir því að gera
minna. Þeir sem stunda jóga finna
fyrir ótrúlegri breytingu á skömm-
um tíma á liðleika, auknum styrk og
mun betri meðvitund um eigin líðan.
Þær djúpu teygjur sem gerðar eru í
jóga auka blóðflæði um líkamann,
gera hann sveigjanlegri og lengja
og styrkja vöðvana sem gefur okkur
fallegt og tignarlegt vaxtarlag. Betri
líkamsstaða hefur gríðarlega mikil
áhrif á líðan okkar og sjálfstraust.
Með bættri líkamsstöðu fáum við
aukið sjálfstraust og við lærum að
horfa jákvæð fram á veginn.
Í jóga lærum við að tileinka okkur
dýpri öndun og náum þar af leið-
andi meiri orku úr hverjum andar-
drætti. Með meiri orku náum við að
áorka meiru auk þess að njóta lífsins
betur. Djúp og regluleg öndun hjálp-
ar okkur líka til að ná auknu innra
jafnvægi og slaka betur á. Hin dag-
lega streita nær síður tökum á okkur
og við lærum að nýta okkur öndun
og slökun til að losa okkur út úr víta-
hring streitunnar.
Jóga er heildræn þjálfun sem allir
geta stundað algjörlega óháð líkams-
ástandi. Með mismunandi útfærslum
á jógaæfingum getur hver og einn
æft sig í tak við núverandi líðan og
ástand og náð þannig að byggja sig
upp bæði andlega og líkamlega.
Veistu muninn á venju-
legri líkamsrækt og jóga?
Heilsa
Hrefna
Guðmundsdóttir
jógakennari
Þú ert þroskaheftur segir ung vinkona mín stundum þegar
hún gagnrýnir sjónarmið mín og
er endurgoldið með vandlætingar-
svip. Unglingar hafa undanfarin
ár sagt um eitthvað sem er rosa-
lega flott, töff og skemmtilegt að
það sé geðveikt. Jafnvel er sagt að
einhver sé geðveikur í merking-
unni að viðkomandi sé frábær. Nú
ber hátt umræðan um virkjanamál
og stóriðju undir þeim formerkjum
að virkjana- og stóriðjusinnar séu
geðveikir, klikkaðir og jafnvel van-
gefnir. Hið merkilega er að umræð-
unni stýra ekki unglingar með tak-
markaðan orðaforða og endalausa
þörf fyrir magnþrungnari lýsingar-
orð heldur fullorðnir og vel mennt-
aðir karlmenn.
Höfum eitt á hreinu. Umhverfis-
mál og náttúruverndarmál eru án
nokkurs vafa allra stærstu hags-
munamál mannkyns og fyrir þeim
verður að berjast á mörgum víg-
stöðvum til að koma í veg fyrir
áframhaldandi helför. Það þýðir
að við verðum að finna nýja mæli-
kvarða á lífsgæði í stað hagvaxtar
og neysluhyggju. Innan 40 ára telja
færustu vísindamenn heims að tilvi-
stargrunni 800 milljóna manna hafi
verið kippt undan þeim ef ekki tekst
að sporna við loftslagsbreytingum
af mannavöldum. Ísland hefur bæði
sögulegt tækifæri og skyldur til að
móta nýja stefnu sem verði til fyr-
irmyndar. Við megum ekki láta þá
sem eru skilningslausir á kall tím-
ans ráða förinni áfram.
Þetta er geðheilbrigðismál. Það
leikur lítill vafi á því að aukn-
ar geðraskanir á Vesturlöndum
tengjast tilvistarkreppu og innan-
tómri neysluhyggju. Geðsjúkdóm-
um hefur verið lýst sem plágu 21.
aldarinnar en því er hægt að snúa
við með lífsstílsbreytingum og með
því að líf fólks öðlist nýtt inntak og
merkingu. Í umræðum um þessi
mál er engin ástæða til að nota orð
eins og geðveiki og vangefni um þá
sem enn hafa ekki áttað sig á nauð-
syn róttækra breytinga. Ég er með
geðsjúkdóm og því hef ég stundum
verið geðveikur. Gerir það mig að
virkjana- og stóriðjusinna? Auð-
vitað ekki. Sennilega hef ég aldrei
verið jafn viðkvæmur fyrir með-
ferð okkar á náttúrunni en einmitt
þegar ég hef verið veikur. Þessi orð-
notkun er því móðgun við mig og
fjölmarga aðra. Það að vera veru-
leikafirrtur og með ranghugmyndir
þarf í sjálfu sér ekkert að hafa með
geðveiki, hvað þá vangefni, að gera.
Græðgi og skammsýni geta tengst
siðleysi en hún er ólæknandi. Merg-
urinn málsins er sá að hér er á ferð-
inni allt of stórt og mikilvægt mál
til að það fari að stranda á óvarlegri
orðnotkun þeirra sem helst hafa
sig í frammi. Ábyrgð þeirra er því
mikil.
Af geðveiki og vangefni
Geðveiki
Sigursteinn
Másson
formaður Geðhjálpar
Ég er með geðsjúkdóm og því hef ég
stundum verið geðveikur. Gerir það
mig að virkjana- og stóriðjusinna?
Betri líkamsstaða hefur gríðarlega
mikil áhrif á líðan okkar og sjálfs-
traust.
fylgir Fréttablaðinu á morgun