SunnudagsMogginn - 02.05.2010, Qupperneq 27
2. maí 2010 27
H
rikta tók í fjármálakerfi
heimsins sumarið og haustið
2007 þegar húsnæðislán fóru
að gjaldfalla í hrönnum í
Bandaríkjunum. Það kann að virðast
undarlegt að gjaldfallin húsnæðislán geti
leitt til fjármálahamfara um allan heim,
en í kringum þau höfðu verið búnir til
svo snúnir fjármálavafningar að ekki
einu sinni höfundar þeirra virtust skilja
þá og þegar bólan sprakk var tapið yf-
irgengilegt.
Þótt þorri manna hafi flotið sofandi að
feigðarósi voru þeir þó til, á milli tíu og
tuttugu manns, sem áttuðu sig á að hið
glórulausa kerfi myndi hrynja. Nokkrir
þeirra eru dregnir fram í The Big Short
(eða Stóra skortstaðan) eftir Michael
Lewis, sem er þekktur fyrir bókina Li-
ar’s Poker. Þessir menn voru eins og
hrópendur í eyðimörkinni. Þeir bentu á
brestina í kerfinu og veðjuðu gegn því,
en enginn tók mark á þeim.
Söguhetjur Lewis eru flestir utan-
garðsmenn á jaðri fjármálakerfisins.
Menn á borð við Steve Eisman lögfræð-
ing, sem sá sjálfan sig í köngulóarmann-
inum og var ófær um að tala tæpitungu,
og Michael Burry, eineygðan lækni með
Asperger-heilkennið og nánast óbrigðult
auga fyrir tækifærum til að hagnast í
fjármálaheiminum.
Hin hæpnu húsnæðislán
Hinir hæpnu húsnæðislánavafningar
snerust um svokölluð undirmálslán. Þar
er um að ræða lán til fólks, sem ekki
hefur mikið á milli handanna. Um miðj-
an tíunda áratug tuttugustu aldarinnar
voru veittir um þrjátíu milljarðar dollara
í slík lán. Árið 2000 var upphæðin kom-
in í 130 milljarða dollara og 2005 í 625
milljarða dollara og út frá þeirri upphæð
voru gefin út húsnæðislánaskuldabréf að
upphæð 500 milljarðar dollara það sama
ár. 1996 höfðu verið fastir vextir á 65%
lánanna, en árið 2005 var fyrirkomulag-
ið þannig á 75% lánanna að vextir voru
fastir fyrstu tvö árin eða svo og breyti-
legir eftir það, ekkert ólíkt húsnæð-
islánum, sem íslensku bankarnir veittu
áður en þeir fóru á hausinn. Upphafs-
vextirnir voru einnig kallaðir lokk-
unarvextir.
Undirmálsbólan hafði sprungið með
ósköpum í lok tuttugustu aldarinnar, en
hún fór engu að síður að bólgna út aftur
í upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu.
Þeir sem veittu lánin drógu sinn lærdóm
af fyrri óförum. Hann var ekki sá að
hætta að lána fólki, sem gæti ekki borg-
að lánin aftur. Þeir einfaldlega losuðu sig
við lánin um leið og þau höfðu verið
veitt með því að selja þau stóru fjárfest-
ingarbönkunum á Wall Street. Fjárfest-
ingarbankarnir bjuggu síðan til úr þeim
skuldabréf og seldu fjárfestum. Lánin
voru misgóð, en þeim var hrúgað saman
undir einn hatt, mörg hundruð eða þús-
und slæm lán og góð lán í einum vafn-
ingi, til þess að skapa öryggistilfinningu
hjá viðskiptavinunum.
Vafasamar einkunnir matsfyrirtækjanna
Síðan komu matsfyrirtækin Moody’s og
Standard & Poor’s og gáfu herlegheit-
unum einkunn, sem var ekki í neinu
samhengi við hin ótraustu lán, sem
skuldabréfin voru byggð á og úr varð
gjörningur, sem velti stjarnfræðilegum
upphæðum. Til marks um óskiljanlega
hegðun matsfyrirtækjanna er að Moo-
dy’s og Standard & Poor’s gáfu 80% af
skuldabréfum byggðum á vafasömum
lánum sömu einkunn og skuldum ríkis-
sjóðs Bandaríkjanna.
Sögupersónur Lewis veðjuðu á að
þessi skuldabréf myndu hrynja með því
að kaupa skuldatryggingar (Credit De-
fault Swaps). Þessi skuldatrygginga-
viðskipti voru svo undarleg að þau
tengdust í raun ekki lánunum sjálfum
beint, voru aðeins háð því að greitt væri
af þeim – eða ekki. Lewis líkir þessu við
tölvuleik, Fantasy Football. Þegar leik-
maður kaupir Peyton Manning í liðið
sitt verður ekki til nýr Peyton Manning.
Þegar keypt var skuldatrygging með
vísan til tiltekinna skuldabréfa með
undirmálslán að bakhjarli gat bankinn
búið til nýtt skuldabréf, sem var eins og
hið fyrra að öllu leyti nema einu: hvorki
var um að ræða raunveruleg húsnæð-
islán né raunverulega húnæðiskaup-
endur. Þessi skuldabréf fengu sömu ein-
kunn hjá hinum valdamiklu
matsfyrirtækjum, sem fá háðulega útreið
hjá Lewis.
Þar sem skuldabréfamarkaðurinn í
Bandaríkjunum er vettvangur fjármála-
fyrirtækja og atvinnumanna, en ekki
ætlaður litlum fjárfestum og óbreyttum
borgurum eins og hlutabréfamarkaður-
inn, er hann ekki háður sama reglu-
verki, til dæmis hvað varðar upplýs-
ingaskyldu og gagnsæi. Það er nánast
hrollvekjandi að lesa kaflann í bók Lewis
þar sem hann lýsir því hvernig nafn-
giftir og óskiljanlegur orðavaðall er not-
aður til að breiða yfir það, sem er raun-
verulega á ferðinni, en þegar lesandinn
áttar sig á því að bankamennirnir sjálfir
skildu ekki hvað var á ferðinni kastar
fyrst tólfunum. Undirmálslánin voru á
svo veikum grunni byggð að húsnæð-
isverð þurfti ekki að lækka til þess að
allt hryndi, það þurfti aðeins að hætta
að hækka jafn hratt og það hafði gert.
Í The Big Short lýsir Michael Lewis því
hvernig skapað var stjórnlaust skrímsli,
sem framleiddi gull úr brotajárni þar til
það hratt af stað mesta fjármálaglund-
roða frá kreppunni miklu fyrir áttatíu
árum. Þátttakendur í leiknum voru
stærstu fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna,
Lehman, Goldman Sachs og Morgan
Stanley svo einhver séu nefnd og bankar
um allan heim voru með án þess að gera
sér nokkra grein fyrir áhættunni. Hin
einkareknu matsfyrirtæki stimpluðu allt
saman og nú blasa við þeim málaferli.
Eftirlit með herlegheitunum var ekkert.
Söguhetjur höfundar högnuðust á
ósköpunum, en það kaldhæðnislega er
að sökudólgarnir gerðu það líka. Þeir
ollu tjóni, sem nam trilljónum dollara,
og gengu í burtu með milljónir. Frásögn
Lewis er reyfarakennd og aðgengilegri
lýsing á hinum flóknu fjármálagjörn-
ingum er vandfundin.
The Big Short er eftir Michael Lewis,
útgefandi W.W. Norton & Company.
Glópagull úr brotajárni
Hús til sölu í Broomfield í Colorado. Afleiðinga undirmálslánanna gætir um öll Bandaríkin og sér ekki fyrir endann á þeim enn.
Reuters
Lánin voru veitt fólki, sem átti fullt í fangi með að greiða af þeim til að byrja með og
var jafnvel þegar komið í þrot, og því mátti búast við miklum vanskilum um leið og
vextirnir hækkuðu. Í bók Michaels Lewis, The Big Short, er tekið dæmi um mexí-
kóskan innflytjanda, sem vann við að tína jarðarber og var með 14 þúsund dollara í
tekjur á ári. Hann fékk 100% lán til að kaupa hús í Bakersfield í Kaliforníu fyrir 724
þúsund dollara.
Annað dæmi er um systur frá Jamaíku, sem eignuðust sex hús í Queens. Önnur
þeirra hafði verið barnfóstra hjá einni af sögupersónum Lewis. Þegar hún var spurð
hvernig hún hefði farið að því sagðist hún fyrst hafa keypt sér eitt hús. Þegar það
hækkaði í verði bauð bankinn endurfjármögnun með veði í húsinu og það gerði
henni kleift að kaupa annað hús. Enn hækkaði húsnæðisverð og þá endurtók hún
gjörninginn – alls fimm sinnum. Svo fór húsnæðisverðið að lækka og afborganirnar
urðu systrunum um megn.
Sögur af þessum toga eru legíó um öll Bandaríkin. Þegar lánin féllu blöstu við
gjaldþrot og nauðungarsölur hjá fjölda manns í neðri hluta bandarískrar millistétt-
ar. Bandarísk stjórnvöld skárust ekki í leikinn til að bjarga þessum einstaklingum,
en eins og Lewis orðar það gripu þau til sinna ráða til að „koma í veg fyrir hrun
stórra fyrirtækja á Wall Street, sem höfðu reynt að gera sig sjálf gjaldþrota með
veðja þráfaldlega á þá, sem tóku undirmálslán, án þess að nokkur glóra væri í því“.
Jarðarber og lánstraust
Bandarísku undir-
málslánin, sem hrundu
af stað heimskreppu,
eru umfjöllunarefni
reyfarakenndrar bókar
eftir Michael Lewis.
Karl Blöndal
kbl@mbl.is
’
Svimandi háum lán-
um var nánast
þröngvað upp á fólk,
sem þurfti á kraftaverki á
halda til að geta nokkurn
tímann borgað þau.