SunnudagsMogginn - 26.06.2011, Blaðsíða 24
24 26. júní 2011
S
aga þessa lands er óvíða áþreif-
anlegri en í gamla bænum í Borgar-
nesi. Það liggur við að maður heyri
andardrátt þeirra feðga, Skalla-
Gríms og Egils, þegar maður stendur við
Landnámssetur Íslands og horfir út á
Brákarsundið. Þangað út flúði ambáttin og
fóstra Egils, Þorgerður brák, í dauðans of-
boði undan Skalla-Grími. Andartaki áður
hafði hún bjargað lífi Egils litla með því að
snúa athygli hins hamramma Skalla-Gríms
yfir á sjálfa sig. Kappinn elti hana langa leið
niður að sjó þar sem hún lagðist til sunds en
hann henti á eftir henni steini miklum sem
kom milli herða fóstrunni. Kom hvorugt
upp síðan, segir sagan.
Gegnt Landnámssetrinu var í síðasta
mánuði opnað listhús, Gallerí Gersemi, og
ráða þar húsum hjónin Þorkell Þorkelsson
ljósmyndari og Heba Soffía Björnsdóttir
sem er menntuð í sálfræði en hefur jafn-
framt langa reynslu af markaðsstarfi.
Var að kafna í Madríd
Þorkell og Heba hafa verið á flandri und-
anfarin ár. Fyrst dvöldust þau um tíma á
Spáni, síðan í Danmörku, næst á Írlandi,
þar sem Heba lauk meistaraprófi í vinnu-
sálfræði og loks í Bretlandi, þar sem Þorkell
lagði stund á meistaranám í ljósmyndun.
Heba er fædd og uppalin í Borgarnesi en
gerði ekki ráð fyrir að setjast þar að aftur –
þar til fyrir fáeinum árum. „Það var þegar
við bjuggum í Madríd að ég fór að velta
þessum möguleika fyrir mér. Ég var að
kafna í stórborginni miðri, sá bara þökin á
næstu húsum. Ég saknaði víðáttutilfinning-
arinnar og hafsins og þegar við Þorkell
fluttum heim fyrir hálfu öðru ári ákváðum
við að láta á það reyna að búa hér í Borg-
arnesi.“
Svo skemmtilega vill til að bóndi hennar
á líka rætur í Borgarnesi en afi hans, Eggert
Ólafur Einarsson, var þar héraðslæknir um
árabil. Kona hans var Magnea Jónsdóttir.
„Ég gisti stundum hérna sem strákur og er
eiginlega alveg viss um að ég hafi séð Hebu
niðri á höfn að veiða kola. Það var allavega
kotroskin stelpa,“ rifjar hann upp og hlær.
Heba hefur á hinn bóginn sínar efasemd-
ir. „Þetta getur varla verið, alla vega tók ég
ekki eftir þér. Það er skrýtið fyrst þú varst
strákur úr Reykjavík.“
Dátt er hlegið.
Hvort sem sagan er sönn eður ei búa þau
nú steinsnar frá staðnum þar sem Heba á að
hafa verið að veiða í svonefndu Hervalds-
húsi. „Sumir kalla húsið nú bara skókass-
ann, vegna smæðar þess,“ bendir Þorkell á,
„en húsið er ekki allt þar sem það er séð.“
Heba réð sig fyrst í vinnu á Markaðsstofu
Vesturlands, þar sem hún starfaði í rúmt ár,
en þar sem lengi hefur blundað í þeim Þor-
keli að fara út í eigin rekstur fóru þau fljót-
lega að velta fyrir sér möguleikum í Borg-
arnesi. „Ég hef listatenginguna og Heba
vann lengi að markaðsmálum, meðal ann-
ars hjá SPRON og Íslandsbanka, þannig að í
galleríinu sameinum við krafta okkar,“
segir Þorkell.
Í framhaldinu festu þau kaup á húsnæði á
Brákarbraut 10 ásamt foreldrum Hebu sem
þeim þykir kjörin staðsetning. „Gamli bær-
inn hérna í Borgarnesi er allur að lifna við
með Landnámssetrinu, Brúðuheimum,
Safnahúsi Borgarfjarðar, Gamla mjólk-
ursamlaginu og úrvali gististaða, auk þess
sem nokkrir listamenn eru með vinnustofur
í Brákarey,“ segir Heba og Þorkell bætir við
að þetta minni hann á Álafoss-svæðið fyrir
tíu til fimmtán árum. „Samlegðaráhrifin
eiga vonandi eftir að verða góð, þetta vinn-
ur allt saman.“
Ljósmyndir eru eðli málsins samkvæmt
fyrirferðarmiklar í Galleríi Gersemi. Hægt
er að kaupa myndir eftir Þorkel og marga
fleiri ljósmyndara, auk þess sem einn vegg-
ur í galleríinu verður jafnan lagður undir
sýningu. Fyrstur til að sýna verk sín þar er
breski ljósmyndarinn Peter Doubleday en
þeir Þorkell kynntust í námi ytra. Á sýn-
ingunni eru svokallaðar „still life-myndir“
og segir Þorkell myndir Doubledays við
fyrstu sýn ekki láta mikið yfir sér en þegar
betur er að gáð sé vandað reglulega vel til
verks. „Peter er upprunalega málari en hef-
ur nú snúið sér alfarið að ljósmyndun. Hon-
um þótti málverkið of seinvirkt.“
Sýning Doubledays stendur til 17. júlí.
Leggja upp úr gæðunum
Eitt af markmiðum gallerísins er að kynna
ljósmyndina sem listform og Þorkell er
boðinn og búinn að segja gestum söguna
bak við myndina. „Það breytir öllu að út-
skýra hlutina fyrir fóki,“ segir Heba og Þor-
kell bætir við að þau vilji gjarnan heyra í
sem flestum ljósmyndurum. „Við erum að
leita að öllum mögulegum gerðum ljós-
mynda, ekki bara landslagi.“
Óðurinn til
gleðinnar
Gallerí Gersemi nefnist nýtt metnaðarfullt listhús í
gamla bænum í Borgarnesi sem hjónin Þorkell Þor-
kelsson og Heba Soffía Björnsdóttir eiga og reka.
Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Myndir: Árni Sæberg og Þorkell Þorkelsson
Verk eftir breska ljósmyndarann Peter Doubleday sem sýnir fyrstur manna í Galleríi Gersemi.
Heba Soffía Björnsdóttir og Þorkell Þorkelsson í hinu nýopnaða Galleríi Gersemi í Borgarnesi.
Gallerí Gersemi er að finna gegnt Landnámssetri Íslands í Borgarnesi.
Margra grasa kennir í galleríinu.