Morgunblaðið - 27.08.2011, Blaðsíða 34
34 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. ÁGÚST 2011
✝ Jónína BjörgGuðmunds-
dóttir, bóndi og hús-
móðir, fæddist á
Dvergasteini við
Seyðisfjörð 31. jan-
úar 1937. Hún lést á
Kirkjuhvoli 17.
ágúst 2011.
Foreldrar Jónínu
voru Guðmundur
Sigfússon bóndi og
síðar verkamaður,
f. 1913, d. 1996, og Þorbjörg Páls-
dóttir húsmóðir, f. 1915, d. 2002.
Systkini Jónínu eru Guðmundur,
f. 1939, búsettur á Hvolsvelli,
Garðar, f. 1941, búsettur í
Reykjavík, Sveinveig, f. 1942, bú-
sett í Garðabæ, Árni, f. 1946, bú-
settur í Þorlákshöfn, Þórdís
Gróa, f. 1949, búsett í Hafnar-
firði, Svanhildur, f. 1950, búsett í
Hafnarfirði, Heimir, f. 1957, bú-
1. mars 1960, búsettur í Reykja-
vík, kvæntur Hlín Hólm, f. 10.
október 1966, börn þeirra eru
Anna Þrúður, f. 3. september
1988 (móðir hennar er Ragnhild-
ur Anna Gunnarsdóttir), Helga, f.
3. maí 1992, og Hugi, f. 12. sept-
ember 1995.
Jónína ólst upp í Fljótsdal í
Fljótshlíð frá 9 ára aldri. Hún
lauk prófi frá Húsmæðraskól-
anum á Laugarvatni árið 1956.
Jónína byggði upp hið myndar-
lega bú í Teigi ásamt Árna manni
sínum og átti þar heimili til
dauðadags. Búnaðarfélag Fljóts-
hlíðar veitti Jónínu og Árna af-
reksbikar fyrir árangur í búfjár-
rækt og snyrtimennsku árið 1991.
Jónína sat um árabil í stjórn
Kvenfélags Fljótshlíðar og átti
m.a. þátt í byggingu sumarhúss-
ins Birkihlíðar. Eftir að Árni lést í
desember 2009 bjó Jónína ein í
Teigi en dvaldi þó síðasta árið að
mestu á dvalarheimilinu Kirkju-
hvoli.
Útför Jónínu fer fram frá
Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð
í dag, 27. ágúst 2011, og hefst at-
höfnin kl. 14.
settur í Þorlákshöfn,
og óskírður dreng-
ur, f. 1959, d. 1959.
Jónína var gift
Árna Jóhannssyni
bónda, f. í Teigi í
Fljótshlíð 2. apríl
1932, d. 6. desember
2009. Árni var sonur
hjónanna Jóhanns
Jenssonar bónda í
Teigi og Margrétar
Albertsdóttur hús-
móður. Börn þeirra eru: 1) Hrafn-
hildur, f. 30. september 1958, bú-
sett í Reykjavík, gift Páli P.
Theódórs, f. 25. september 1958,
synir þeirra eru Árni Björn, f. 11.
nóv. 1982, unnusta Sylvía Sigur-
björnsdóttir, f. 21. ágúst 1984,
Fannar, f. 16. ágúst 1986, sam-
býliskona Dagný Lóa Sighvats-
dóttir, f. 18. júní 1989, og Hlynur,
f. 21. október 1993. 2) Guðbjörn, f.
Blessi þig blómjörð
blessi þig útsær
blessi þig heiður himinn
Með þessum fögru orðum
Dalaskáldsins (Jóhannesar) vil ég
kveðja móður mína.
Hún fékk að fara eftir stutt en
erfitt dauðastríð í þeirri heima-
byggð sem hún hafði lengst dval-
ið, átt sín bestu ár, alið sín börn,
búið stóru búi á fallegu jörðinni í
Fljótshlíðinni.
Hún var ekkja í tæp tvö ár. En
ekki þarf langan tíma til að fella
stóra byggingu.
Það hrundi margt þegar faðir
minn dó. Heilsa hennar var ekki
sterk og allar þær breytingar sem
voru samfara því reyndu mjög á
taugar hennar.
Allt þetta varð þess valdandi að
hún undi lífinu illa.
Mér er ljúft að trúa því að nú
byggi þau aðra veröld foreldrar
mínir, aðra Fljótshlíð, annan Teig.
Ég bið guð að launa henni allt
sem hún gerði, svo margt gott,
mér, drengjunum mínum og okk-
ur öllum. Mikil húsmóðir og
myndarkona kveður nú.
Nú er hún horfin frá Teigi en
sporin hennar eru þar.
Starfsfólki á Kirkjuhvoli eru
sendar þakkir fyrir umönnun
hennar og eins þeim vistmönnum
sem tóku henni opnum örmum og
styttu henni stundirnar.
Þín dóttir,
Hrafnhildur.
Í dag verður kvödd hinstu
kveðju mín ástkæra móðir. Það er
ótrúlegt að hún skuli vera dáin.
Hún var hin hressasta aðeins
tveimur dögum áður en kallið kom
en þá vorum ég og Hugi sonur
minn heima í Teigi við ýmis bú-
störf.
Mamma var hjá okkur, eldaði
matinn og sinnti húsverkum rétt
eins og hún var vön að gera sl.
hálfa öld. Það hefur margt breyst
frá því mamma hóf búskap í Teigi
fyrir rúmlega fimmtíu árum.
Fyrstu tíu búskaparárin bjuggu
foreldrar mínir í gömlu húsi sem
hafði staðið autt um tíma og var
ekki búið nútímaþægindum. Mér
er minnisstætt að mamma þurfti
að fara með allan þvott í bæjar-
lækinn til skolunar og eins fór hún
með okkur systkinin einu sinni í
viku til nágranna okkar og vina á
bænum Deild þar sem við vorum
sett í bað því ekkert var baðher-
bergið í gamla húsinu. Á þessum
árum var staðið í stöðugum fram-
kvæmdum og búið stækkaði. Oft
var margt um manninn í gistingu
og fæði og því iðulega mikið álag á
mömmu, bæði við bakstur og elda-
mennsku og önnur venjubundin
heimilisstörf, auk þess sem hún
sinnti ýmsum útiverkum. Mamma
var harðdugleg og ósérhlífin og ef-
laust kom það síðar niður á heilsu
hennar. Með tíð og tíma hægðist
um og mamma naut þess að vera
laus við bakstur og bústörf og
langa vinnudaga. Hún hafði mjög
gaman af hannyrðum og sinnti því
áhugmáli hin síðari ár.
Ég átti ætíð skjól hjá mömmu á
mínum uppvaxtar- og námsárum
og það var afar gott að leita til
hennar um ýmis ráð. Mér er minn-
isstætt þegar mamma heimsótti
mig og síðar mig og fjölskyldu
mína, bæði til Þýskalands og Eng-
lands.
Þar naut hún þess að fara í búð-
ir, setjast niður með glas af hvít-
víni og fylgjast með mannfólkinu
og skoða sig um í framandi lönd-
um. Það gerði hún einnig í bænda-
ferðunum sem hún fór með pabba.
Með fráfalli mömmu fylgir mik-
il sorg og söknuður. Ég, sem stend
hérna megin móðunnar miklu,
hugga mig við að hvíldin sé henni
kær og trúi að foreldrar mínir séu
saman á ný.
Minning mín um Jónínu í Teigi
mun lifa með mér um alla framtíð.
Guðbjörn Árnason.
Í leit minni að hátíðlegum orð-
um til að hefja þennan greinarstúf
um tengdamóður mína þá er ekki
laust við að minningin um konu
sem ekki var vön öðru en að segja
sína meiningu, oftast án nokkurs
hátíðleika, yfirtaki huga minn. Það
er ekki ofsögum sagt að tveir ólíkir
heimar mættust þegar við Jónína
kynntumst. Ég minnist orðaskipta
okkar á milli sem einkenndust af
því að við einfaldlega skildum ekki
hvor aðra, ég skildi ekki af hverju
hún gerði ekki meiri kröfur til lífs-
ins, hún skildi ekki af hverju ég
setti ekki þarfir mannsins míns
alltaf framar mínum eigin. Ég var
hálfþrítug, nokkuð ákveðin og
þeirrar skoðunar að hver maður
bæri fulla ábyrgð á eigin lífi og eig-
in hamingju. Jónína var af annarri
kynslóð og úr öðru umhverfi þar
sem áherslur voru aðrar. Hún var
ekki alltaf sátt með sína stöðu en á
sama tíma mat hún það einhvern
veginn svo að hennar möguleikar á
að stýra eigin lífi og eigin ham-
ingju væru takmarkaðir. Það virt-
ist ekki hjálpa þó maður benti
henni á alla þá fjölmörgu kosti sem
henni stæðu til boða, hennar nið-
urstaða varð þá iðulega sú að hún
hefði í raun ekki yfir neinu að
kvarta. Ég minnist líka góðra
stunda, þegar maður sá glitta í
þær hliðar Jónínu sem hún átti svo
sannarlega til, en þá var hún stríð-
in, glettin, kát og uppátektarsöm.
Oftar en ekki voru þá einhver
systkina hennar nálægt, þá var
eins og lífið yrði bjartara og ég
fékk það einhvern veginn á tilfinn-
inguna eins og í þeim hópi væri
hún öruggust, þar átti hún sinn
sess. Þær stundir verða ekki fleiri,
öllum að óvörum er hún dáin og við
sem eftir sitjum erum einu sinni
sem oftar minnt á að lífið er hverf-
ult.
Það er okkar val hvers við kjós-
um að minnast þegar ástvinir
deyja. Ég vel að minnast konu sem
hafði áhuga á samferðarfólki sínu,
konu sem naut sín vel í góðra vina
hópi, konu sem studdi við bakið á
sínum nánustu þegar þess var
þörf, konu sem lét ekki sitt eftir
liggja við að byggja upp búrekst-
urinn í Teigi.
Ég þakka tengdamóður minni
samfylgdina og votta ástvinum
hennar öllum mína dýpstu samúð.
Hlín Hólm.
Mig langar að skrifa nokkur orð
um elsku systir mína, Jónínu
Björgu, sem við erum að kveðja í
dag.
Ekki átti ég von á að hún mundi
fara frá okkur svo snögglega, ég
talaði við hana í síma 13. ágúst, þá
var hún svo kát og við vorum að
tala um að fara saman til Kanarí og
stytta veturinn svolítið í sólinni.
Henni Jónínu þótti gaman þegar
ég kom til hennar og var hjá henni
í sveitinni, þá var mikið talað og
hlegið.
Við fórum í bændaferð í sept-
ember í fyrra og ætluðum aldeilis
að njóta ferðarinnar, en elsku Jón-
ína mín lærbrotnaði fyrstu nóttina
í Þýskalandi og lenti á spítala og
þar lágum við systurnar hlið við
hlið hvor í sínu rúminu og nutum
þess að vera á þessari tveggja
manna svítu næstu níu dagana.
Hún lærbrotin og ég að gróa sára
minna eftir lærbrot sem gerðist
mánuði áður. Og mikið var hlegið
að þessum hrakfallabálkum frá Ís-
landi sem kölluðu sig Tvær úr hlíð-
inni.
Og aldrei gleymi ég hvað gaman
var hjá okkur; þótt hún væri kvalin
reyndi hún að hlæja og gera að
gamni sínu, meira segja sungum
við fyrir starfsfólkið þar og lagið
var Ríðum, ríðum rekum yfir sand-
inn, það tókst bara vel. Mikið gat
hún hlegið af þessu öllu. Mikið á ég
eftir að sakna þín, elskan mín.
Guð geymir þig hjá sér þangað
til ég kem til þín.
Elsku Hrafnhildur, Bjössi og
fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk
og þrek til að komast í gegnum
þessa miklu sorg.
Svanhildur Guðmundsdóttir.
Elsku Jónína, með þessum orð-
um kveðjum við þig.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Við kveðjum þig með söknuði,
en ég er svo þakklát fyrir þann
tíma sem við áttum saman syst-
urnar.
Þær minningar verða varðveitt-
ar.
Aðstandendum vottum við okk-
ar dýpstu samúð.
Sveinveig (Lilla) og Ásgeir.
Elsku frænka, það var erfitt að
fá fréttir af því að þú værir farin
frá okkur.
Ég mun aldrei gleyma góðu
stundunum sem ég eyddi í sveit-
inni hjá ykkur hjónum sem barn.
Að koma til ykkar var svo mikið
frelsi. Að fá að hlaupa um og hjálpa
með dýrin. Mamma var svo dugleg
að koma til ykkar um helgar. Hjá
ykkur var eini staðurinn sem ég
komst í sveit og fékk að kynnast
því sem þar fer fram. Takk kær-
lega, elsku frænka, fyrir þá þekk-
ingu sem ég fékk hjá þér. Alltaf
voru allir velkomnir til ykkar.
Ég og strákarnir mínir vorum
svo heppin að geta komið í sveitina
til þín í fyrrasumar og svo aftur
þegar ættarmótið var núna í júní.
Allar gömlu góðu stundirnar komu
upp í hugann.
Ég mun aldrei gleyma þér og
stundanna sem ég eyddi með þér.
Elsku Hrafnhildur, Bjössi og
fjölskyldur, megi guð gefa ykkur
styrk á þessum sorgartímum.
Berglind Tómasdóttir.
Elsku Jónína mín. Ekki átti ég
von á því að skrifa minningargrein
um þig núna. Við sem vorum fyrir
stuttu búnar að tala saman og ráð-
gera árlega ferð inn í Fell með
saumaklúbbnum föstudaginn 26.
ágúst með tilheyrandi söng og
skemmtilegheitum. En þú lagðir
upp í aðra ferð sem ekki var á döf-
inni.
Saumaklúbburinn var nýlega
búin að fara skemmtilega dags-
ferð, suðurstrandarveginn til
Grindavíkur og enduðum í humar-
veislu í Fjöruborðinu á Stokkseyri.
Þetta var skemmtileg ferð og mik-
ið hlegið og þú lékst á als oddi.
Okkar kynni hófust fyrir u.þ.b.
35 árum þegar ég flutti á Heylæk,
næsta bæ við þig í Fljótshlíðinni,
ung að árum. Þú bankaðir upp á
hjá mér og bauðst mig velkomna í
nágrennið og spurðir hvort ég vildi
ekki koma í saumaklúbbinn svo ég
kynntist konunum í sveitinni.
Þessi saumaklúbbur er enn á lífi
þótt alltaf fækki eitthvað í stórum
hóp eins og gengur. Þið hjónin tók-
uð einstaklega vel á móti okkur,
krakkakjánunum, og við erum
ævarandi þakklát fyrir það. Alltaf
boðin og búin að hlaupa undir
bagga ef eitthvað þurfti með.
Ég minnist þín með miklum hlý-
hug, kæra vinkona, og sendi allri
fjölskyldunni samúðarkveðjur frá
okkur hjónum.
Hvíl í friði,
Helga Jörundsdóttir.
Óvænt berast þau tíðindi að Jón-
ína Björg Guðmundsdóttir í Teigi
sé látin. Ég hitti hana síðast þrem-
ur dögum áður í eldhúsinu í Teigi,
þar sem hún var með hluta af sínu
fólki. Var hún létt í lund og gerði að
gamni sínu við okkur Bjössa son
sinn, áður en við fórum í útreiðar-
túr.
Heimili Jónínu var í Teigi
lengstan hluta ævinnar og þar vildi
hún helst vera. Henni féll að vísu
ekki einveran upp á síðkastið, eftir
að Árni bóndi féll frá. Hún kaus því
frekar að dvelja á Kirkjuhvoli á
Hvolsvelli, en var ávallt komin að
Teigi þegar börnin komu austur. Á
seinni árum undi Jónína sér lang-
dvölum við störf í garðinum um-
hverfis íbúðarhúsið í Teigi, þar sem
hún hlúði að gróðri og hafði komið
fyrir nokkrum munum frá fyrri
tíma.
Jónína var fædd og uppalin í
Fljótsdal í Fljótshlíð og bjó því alla
sína ævi í sömu sveit. Þegar Jónína
var barn var skólaakstur ekki kom-
inn á sem síðar varð og þess vegna
voru börnin í Fljótsdal send í skóla
að Strönd, þar sem þá var heima-
vist. Sem ung stúlka stundaði Jón-
ína nám við Húsmæðraskólann að
Laugarvatni og átti góðar minn-
ingar frá þeim tíma. Jónína og Árni
voru ung þegar þau felldu hugi
saman og gengu í hjónaband. Þau
keyptu vesturbæinn í Teigi og hófu
þar búskap. Fyrstu árin vann Árni
fulla vinnu í kaupfélaginu á Hvols-
velli, samhliða búskapnum. Má því
nærri geta að það voru ýmis verkin
sem húsfreyjan sinnti á búinu, sem
byggt var upp af miklum metnaði
þeirra beggja. Jónína var forkur
dugleg til allra verka og gekk óhik-
að í þau störf sem sinna þurfti.
Þegar Jónína og Árni keyptu jörð-
ina var húsakostur þar barn síns
tíma. Þau byggðu upp öll útihús,
íbúðarhús og aðrar byggingar,
ræktuðu mikil tún og á fáum árum
byggðist þar upp myndarbýli með
blönduðum búskap. Var búið alla
tíð eitt hið afurðahæsta í sveitinni
og annálað fyrir myndarskap.
Ég kynntist þeim hjónum fyrir
40 árum og var náinn vinskapur
með okkur alla tíð. Þær eru ófáar
ferðirnar sem ég hef farið yfir læk-
inn á Heylæk og að Teigi, til þess
að hitta þau hjón til skrafs og ráða-
gerða. Dætur mínar minnast þess
einnig að hafa ungar farið í marga
slíka göngutúra að morgni dags, til
þess að heilsa upp á hjónin við fjós-
verkin. Á eftir var svo boðið í bæ-
inn upp á kaffi og kruðerí.
Það má velta því fyrir sér hvern-
ig það var fyrir ungt fólk um miðja
síðustu öld að hefja búskap í sveit,
þegar viðkomandi þurfti að kaupa
sér jarðnæði og hefja uppbyggingu
nánast frá grunni. Opinber fyrir-
greiðsla eða bankalán voru af
skornum skammti og því þurfti
fyrst og fremst að treysta á sjálfan
sig og framtíðartekjur búsins.
Þetta lánaðist þeim Jónínu og Árna
svo eftir var tekið. Því miður eru
þau nú bæði horfin af sjónarsviðinu
með stuttu millibili. Eftir stöndum
við samferðamenn þeirra og þökk-
um fyrir ánægjulega samfylgd.
Með Jónínu í Teigi er gengin
góð kona, sem helgaði líf sitt fjöl-
skyldu sinni og búskapnum sem
þau stunduðu saman. Fjölskyld-
unni sendi ég innilegar samúðar-
kveðjur. Blessuð sé minning Jón-
ínu Bjargar Guðmundsdóttur.
Jón Þorsteinn Gunnarsson.
Jónína Björg
Guðmundsdóttir
Fleiri minningargreinar
um Jónínu Björgu Guðmunds-
dóttur bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu
daga.
Guðríðarkirkja
auglýsir sal til leigu:
Fyrir erfidrykkjur, brúðkaup, fermingar, fundarsalur.
Uppl. S. 577 7770 og 663 7143 eða
kirkjuvördur@grafarholt.
www.gudridarkirkja.is
✝
Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu
okkur hlýhug og samúð vegna fráfalls og
útfarar bróður okkar, mágs og frænda,
JÓNS SÆMUNDSSONAR,
bónda í Fagrabæ,
sem andaðist laugardaginn 16. júlí.
Tómas Sæmundsson, Dagmar Lovísa Björgvinsdóttir,
Sigrún Sæmundsdóttir, Guðgeir Bjarnason,
Baldur Sæmundsson, Ulla Sæmundsson,
Sigtryggur Davíðsson,
Indriði Indriðason,
Elínborg Sveinbjarnardóttir,
Sigríður H. Jóhannsdóttir,
systkinabörn og fjölskyldur.
✝
Hugheilar þakkir til allra þeirra sem sýndu
okkur hlýhug og samúð við andlát og útför
eiginmanns míns, föður og fósturföður,
KRISTINS S. DANÍELSSONAR
vélvirkja,
Klettagötu 2,
Hafnarfirði,
sem andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði miðvikudaginn
3. ágúst.
Guð blessi ykkur öll.
Áslaug Hafsteinsdóttir,
Steingrímur Kristinsson,
Aðalsteinn Jörgensen.
✝
Þökkum auðsýnda samúð við andlát og
jarðarför
INGIBJARGAR DAÐADÓTTUR.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki á
Norðurbrún 1, Skjóli og 14-E á Landspítala
sem veitti ómetanlega aðstoð í veikindum
hennar.
Auður Jónsdóttir,
Ása Jónsdóttir,
Daði Örn Jónsson,
Anna Jónsdóttir
og fjölskyldur.