Teningur - 01.05.1987, Síða 6

Teningur - 01.05.1987, Síða 6
strengilega storisa. Á slitnu áklæði á baki sófans sem hann sat í voru dádýr á beit. í blaðakörfu við hliðina voru tímarit sem helguð voru Friðriki danakonungi og Ingiríði og ungum dætrum þeirra. Gólf- teppið var gráyrjótt. Á sófaborðinu voru taumar eftir tusku. Á sjónvarpinu var postulínsköttur sem á vantaði annað eyr- að og mynd af honum sjálfum í hvítum kyrtli. í gamla leðurstólnum var enginn moggi á snjáðum örmunum. í útvarpinu heyrðist honum maður vera að flytja ávarp til þjóðarinnar en þegar hann lagði við hlustir heyrði hann að þetta voru til- kynningar. Hann batt engar minningar við stofuna. Hún sat á móti honum og reykti kamel; hárið var á litinn eins og ryðgað jám, munnvikin voru gul, auga- brúnirnar voru skakkar, í augunum var ekkert ljós, hún var í eldhússlopp. Það var lykt af henni. Hann spurði hana hvers vegna hún fengi sér ekki plöntur í gluggann. Hún svaraði að hún myndi drepa þær. Ekki ef þú vökvar, sagði hann. Hún stóð upp og bandaði frá sér hendinni. Honum varheitt, hann klæjaði undan peysunni í vinstra herðablaðið. Hún bar honum harðar kleinur og marm- araköku sem hún geymdi í ísskápnum en hann snerti ekki við því þó hún segði að kakan væri ekki vond. Hann fékk sér kaffi og þegar hann hafði hellt mjólkinni útí það og tekið einn sopa fann hann bragðið sem var alltaf af öllu úr ísskápn- um. Hann var feginn minningunni. Hún spurði hvort hann ætlaði að búa hjá sér. Hann sagðist ekki vita það. Hann hafði ekki kysst hana þegar hann kom. Þau höfðu tekist í hendur en úr varð ekkert handtak heldur aðeins snerting. Hann fann í þvölum lófanum litla hönd sem viðkomu var eins og leðurpyngja. Þegar hann kvaddi hana sat hún enn í stofunni og var að skera sér sneið af kök- unni. Hún var umlukin reykslæðum. Hún leit ekki á hann. Hafðu það eins og þú vilt góði, sagði hún. Honum sámaði þetta tilsvar. Það vakti með honum endurminningu, en hann kærði sig ekki um hana. Hann hikaði ekki áður en hann hringdi á bjöllunni hjá skólastjóranum. Það kom honum á óvart og honum gramdist við sjálfan sig að hafa ekki gefið sér tíma á tröppunum til að undirbúa sig andlega og velja úr nokkrum tiltækum setningum þá sem hentugust væri til að koma vel fyrir. í útlöndum hafði hann þagað og horft og ekki hirt um útlit sitt eða framkomu. Hann hafði á hverjum degi horft á eymd og hætti því að taka eftir eigin útliti. Þá sjaldan hann leit í spegil var hann annars hugar og veitti því enga athygli hvemig kinnbein hans og augu stækkuðu sífellt. Aldrei hafði hvarflað að honum að hætta að reykja þótt sá hefði verið siður hans á nokkurra mánaða fresti áður en hann fór utan. Hann fylgdi venjum sínum. Hann taldi að sér liði vel. Þessar sekúndur sem liðu á tröppunum áður en dymar opnuð- ust taldi hann með æðaslögum sínum, þær liðu mjög hratt eins og hann væri að hrapa. Þegar hún opnaði dyrnarkveikti hún ekki ljósið í forstofunni. Hún stóð í ganginum og hann gat ekki fundið að henni brygði við að sjá hann aftur. Hún stóð kyrr. Hún var í rökkri. Hún var eins og vera. Hann sagði halló. Hún sagði honum að koma inn. Hann sagðist eiga að kenna í vetur. Hún sagðist vita það. Hann mjakaði sér inn í dimma forstofuna og strauk yfir hárið. Hún fylgdist með því þegar hann kraup til að taka af sér skóna og þegar hann kippti í vitlausan spotta hallaði hún sér upp að veggnum, hægt. Þegar hann fór að eiga við hnútinn fann hann ekki fyrir puttunum en sá að þeir voru hreinir. Naglaböndin voru hins vegar tætt. Hann vissi að hann yrði að segja eitthvað við hana, eitthvað hnyttið jafnvel og hann langaði líka til þess því þögn hennar var laus við tilætlun en honum datt ekkert annað í hug en jessör. Um leið og hnútur- inn raknaði áttaði hann sig og sagði jájá. Hann skipti um fót og þegar hann leysti hinn skóþvenginn hætti hann að titra og leit krjúpandi upp til hennar og brosti. Hún brosti á móti og þá vissi hann að hún var hún og hann var hann en þau voru ekki hann og hún. Hann fylgdi henni inn þröngan gang og reyndi að horfa á vínrautt veggfóðrið og gula vegglampana sem sköguðu út úr því. Hann var enn með ilm hennar í vit- unum þegar hann stóð frammi fyrir skólastjóranum og horfði á útrétta hönd hans. Hann tók í höndina en hugsaði á meðan um stúlkuna. Hann hafði fundið ilminn af henni en vissi að hann myndi aldrei framar snerta hana. Eftir matinn fór hann að tala. Þegar hún bar þeim kaffi og koníak leit hann ekki upp heldur flýtti sér að taka koníaksglas- ið. Hendur hans skulfu. Skólastjórinn þagði og horfði á hann. Hann fann það. Honum fannst það merkilegt. Hann sagði frá lífi sínu í útlöndum og allan tímann talaði hann til stúlkunnar sem sat í horn- inu og prjónaði og honum fannst sem hún hlyti líka að horfa á sig. Hann drakk þrjú koníaksglös án þess að veita því athygli en snerti ekki við kaffinu. Hendur hans skulfu. Hann talaði hratt og fannst eins og allar setningamar væru í samhengi innan seilingar, allar dæmisögurnar nauðsynlegur undanfari merkilegrar hugsunar sem hlyti að renna upp fyrir honum þegar orðin skipuðu sér skyndi- lega í stóra heild. Þegar langt var liðið á kvöldið spurði skólastjórinn mjúklega um áfengisvenjur hans í útlöndum og þá gleymdi hann þessari merkilegu hugsun sem hann hafði verið að nálgast, sú hugs- un var honum að eilífu glötuð og hann mundi aldrei vita hvort þetta hefði ein- ungis verið hversdagsleg áminning um eitthvað eða sýn eða sannleikur; og hann svaraði áhugasamur vegna þess að á þessari stundu var honum að vitrast hann sjálfur í fyrsta sinn, hann hafði aldrei leitt hugann að venjum sínum áður, honum þótti þetta athyglisvert og staldraði stundum við í ræðu sinni til að njóta þess 4

x

Teningur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Teningur
https://timarit.is/publication/820

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.