Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2009, Qupperneq 96
94
Veturlidi G. Óskarsson
‘meðan heimur er til’. I kvæðum Halls Ögmundarsonar (um 1470—um
1539) fundust fjögur dæmi: eitt í Krossdrápu, 61. erindi (s.r.:3i2), skorðað
af stuðlum: „studdu hana og blíðlega beiddu / að blífa í náð ‘vera í náð’
(handrit frá um 1549) og annað rímskorðað í sama kvæði, 99. erindi
(s.r.:32o), „cedrus blífur með olíva“, merkingin er sennilega fremur ‘vera’
en ‘verða’ (þ.e. ‘ávextir eru á trénu’). Enn er rímskorðað dæmi í kvæðinu
Náð (sama handrit), 110. erindi (s.r.:353), „í fagnaði blifum að eilífu!“, einnig
hér í dvalarmerkingu, og loks rímskorðað í lokaerindi Nikulásdrápu
(handrit frá 1546—1549), 86. erindi (s.r.:405), „andir séu til sælu sendar, /
svo blífi þær að eilífu! Amen“, þ.e. ‘dveljist, veri kyrrar’.
Loks er þess að geta að tvö dæmi orðabókar Árnanefndar í Kaup-
mannahöfn um sögnina eru úr Reykjahólabók, þýðingu miðlágþýskra texta
frá um 1530—1540. Var af því tilefni leitað nánar í einum texta, frásögn-
inni af Hendrek og Kunigund (Loth 1969:35—70), og kom þar ekkert
dæmi á daginn.
Önnur niðurstaða er af leit að sögninni blífa í fornbréfum 15. og 16.
aldar. I 3.—12. bindi Islenzks fornbréfasafns og í Islandske originaldiplomer
indtil 1450 (hér eftir skammstafað DI og IslDipl) koma í ljós 34 dæmi í
15. aldar bréfum og 44 í bréfum 16. aldar til og með 1540.9 Er sögnin
meðal algengari tökuorða í þessari textategund (sbr. Veturliða Óskarsson
2003:102 um tíðni orða af miðlágþýskum uppruna í 15. aldar bréfum).
Hér þarf þó að hafa þann fýrirvara að helmingur 15. aldar dæmanna (17
dæmi) er úr bréfum skrifuðum af Jóni Egilssyni biskupsskrifara á árun-
um 1418—1432, eins og sýnt er á mynd 1. Jón var nær örugglega norskur
maður þó að hann virðist hafa dvalist lengi á Islandi og má vel vera að
orðið tilheyri móðurmálsorðaforða hans.10 Það er a.m.k. eftirtektarvert
hversu algengt orðið er hjá Jóni miðað við hve sjaldgæft það annars er allt
fram á níunda tug 15. aldar en athugun á bréfum frá 15. öld leiddi í ljós
dæmi um orðið í bréfum frá 1413, 1440, 1442, 1443, 1480, 1481, 1482 (2
dæmi), 1484 (2 dæmi), 1490, 1493 (2 dæmi), 1497, 1500 (3 dæmi), auk
dæma Jóns.
frá um 1550, og er því ekki áreiðanleg heimild um að orðið hafi komið fyrir í frumgerð
hans. (Sbr. Jón Þorkelsson 1922-1927:16.)
9 Hér er einungis miðað við bréf skrifuð á íslensku og gefin út á íslandi.
10 Um mál og þjóðerni Jóns Egilssonar fjalla Stefán Karlsson l9Ó3:xlv-xlvii, Landró
1975:127 o.v. og Veturliði Óskarsson 2003:57—64.