Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2009, Page 120
Veturliði G. Óskarsson
118
íunni frá 1537. Nokkur dæmi eru um sögnina í bréfum Ögmundar bisk-
ups. Dæmi um sögnina á árunum fram undir 1540 eru mest úr bréfum
þessara tveggja biskupa.
Það er svo með Oddi Gottskálkssyni og þýðingu hans á Nýja testa-
mentinu sem sögnin er kynnt rækilega fyrir íslenskum almenningi en í
texta hans eru ein 140 dæmi um hana og samstofna samsetningar. Þau eru
um 0,075% af Heildarorðafjölda textans. Dæmum fækkar þó strax í næstu
útgáfum. Athugun á 1.—5. Mósebók Biblíunnar 1584 bendir til þess að
sögnin sé þar umtalsvert fátíðari en í Nýja testamentinu, eða einungis um
0,02% af heildarorðafjölda textans.
I útgáfu Nýja testamentisins 1609 fækkar dæmum um sögnina blífa
um tíu. Hún hefur verið fátíð í almennu máli og e.t.v. ekki talin túlka
nægilega vel þá merkingu sem sóst var eftir. Þorláksbiblía tekur að mestu
upp texta Nýja testamentisins eftir Guðbrandsbiblíu. Breytingar útgáf-
unnar 1609 skila sér að vísu ekki þangað en þó er ljóst að Þorlákur biskup
hefur verið tvístígandi yfir sögninni því að hann sker burt 13 dæmi um
hana. Sögnin lifir áfram allgóðu lífi næstu aldir í Nýja testamentinu, ein-
hverjum mest lesna texta þjóðarinnar, en dæmum fækkar þó jafnt og þétt
með hverri nýrri útgáfu. Fram eftir öldum er sögnin nokkuð notuð í
kveðskap, gjarnan i rímstöðu, en er þó ekki algeng í þeim textum sem
athugaðir voru og með öllu fjarverandi í sumum þeirra. I Vídalínspostillu
eru dæmi um sögnina rétt um 0,01% af heildarorðafjöldanum sem hlut-
fallslega er ekki nema rúmur tíundi hluti af notkun sagnarinnar í Nýja
testamentinu 1540.
Auðvelt er að finna dæmi um sögnina blífa í textum allt fram á 19. öld.
Ljóst er þó að hún hefur aldrei orðið almennt mál á sama hátt og í ná-
grannamálunum. Forvígismenn málhreinsunar á 19. öld virðast ekki hafa
barist gegn henni á sama hátt og sumum öðrum orðum af dönskum eða
miðlágþýskum uppruna. Það gæti bent til þess að hún hafi hvorki verið
sérlega algeng né áberandi og því ekki talin ástæða til að amast sérstaklega
við henni. I málfræðibók sinni frá 1922 segir Valtýr Guðmundsson að
sögnin sé horfin úr notkun en hafi verið algeng á 16.—18. öld. Dæmi Rit-
málsskrár Orðabókar Háskólans virðast styðja þetta álit Valtýs en dæmi
vantar þar að mestu um sögnina frá miðri 19. öld til miðrar 20. aldar. Hún
er hins vegar nokkuð algeng nú á dögum í þeirri sérstöku, þröngu merk-
ingu sem nefnd var að ofan. I þessari merkingu var sögnin notuð í nokkr-
um bókmenntaverkum um miðja 20. öld, þ. á m. í verkum eftir Halldór
Laxness, og kann það að hafa styrkt hana í sessi.