Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2009, Page 144
142
Höskuldur Þráinsson
myndina mongóli („maður af einum þriggja helstu kynstofna manna (gula
kynstofninum)“) og Mongóli („maður í/frá Mongólíu“). Stafsetningarorða-
bókin gefur hins vegar bara uppflettimyndina mongóli. Þetta er því greini-
lega ekki einfalt mál.
Miðað við meginregluna um sérnöfn og samnöfn ætti hins vegar að
vera ljóst að í engu þessara tilvika er í raun um sérnafn að ræða. Orð eins
og arabi, baski, búi, gyðingur o.s.frv. geta ekki verið nöfn „á tilteknum
einstaklingi (eða eintaki) e-ar tegundar" (sjá skilgreininguna á sérnafni í
(5) hér á undan) heldur er þar miklu fremur um að ræða „nafnorð sem
tekur til einstaklinga (eintaka) heillar tegundar“ (sjá skilgreininguna á
samnafni í (5)). Ef farið væri eftir meginreglunni um stóran staf í sér-
nöfnum og lítinn „að jafnaði“ í samnöfnum ætti því að skrifa öll orð af
þessu tagi með litlum staf, enda er það í samræmi við þumalfingursregl-
una um heita og vera í (6) hér á undan. Þessi ritháttur er sýndur með
dæmum í (16) :7
(16) a. Hvaða maður er þetta? Hann heitir Juan og er baski.
b. Arni er íslendingur og hann á bát sem heitir Islendingur.
c. Kan er mongóli og býr í landi sem heitir Mongólía.
d. Er Bob ameríkani?
Já, eða hann er bandaríkjamaður nánar tiltekið, fæddur í Banda-
ríkjunum.
e. Eg held að Höskuldur sé þingeyingur, gott ef hann er ekki meira
að segja mývetningur. Hann er a.m.k. uppalinn í sveit sem heitir
Mývatnssveit.
Nú vill svo til að nefndin sem vann að stafsetningarreglunum sem voru
settar með auglýsingu 132/1974 hefur greinilega áttað sig á þessum vand-
kvæðum og samkvæmt þeim reglum átti t.d. að skrifa þingeyingur með
7 Athugið að hér skiptir máli áðurnefnt ákvæði um „einstakling" eða „eintak" í skil-
greiningunni á sérnafni í (4) og (5). Þótt hægt sé að segja lbúar Þingeyjarsýslu eru kallaðir
Þingeyingar eða jafnvel... heita Þingeyingar gerir það orðið Þingeyingur (eba þingeyingur, sbr.
stafsetninguna í (16)) ekki að sérnafni, enda er ekki hægt að segja um einhvern tiltekinn
einstakling *Hann heitir Þingeyingur. Sama er að segja um orð eins og framsóknarmaður og
valtýingur. Það er ekki hægt að segja *Hann heitir framsóknarmaður né *Hann het valtýing-
ur, enda eru orðin framsóknarmaður og valtýingur ekki sérnöfn samkvæmt skilgrein-
ingunum í (4) og (5) hér á undan. í því sambandi breytir engu þó hægt sé að segja Þeirsent
fylgdu Valtý Guðmundssyni að málum voru kallaðir valtýingar (ég þakka yfirlesara fyrh
ágæta ábendingu um þetta). — Á hinn bóginn er líka ljóst að fleirtöluorðið Bandaríkin er
sérnafn, enda vísar það til ákveðinnar „einingar", þ.e. ríkjasambands sem heitir þessu nafni.