Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2009, Síða 239
Ritdómar
237
hver tilvísun eða innihald í boðskiptum, að í þessu felist skilaboð. Þannig hefur
texti alltaf eitthvert hlutverk (og, ef vel tekst til, virkni).
Raunar gefur þetta ástæðu til að huga býsna almennt að alþýðlegum íslensk-
um hugtökum um mál og málnotkun. Segja má að orðið mál, eins og það er notað
í íslensku, merki oftar en ekki ‘texti’. Þegar sagt er að einhver hafi haft langt mál
um eitthvert efni þá er átt við að hann hafi ‘framleitt langan texta’. Einnig þegar
sagt er að eitthvað hafi „komið fram í máli manns“ merkir orðið eitthvað sem
mætti kalla ‘(talaður) texti sem maðurinn lét frá sér fara’. Reyndar er orðið mál líka
oft notað í sömu merkingu og enska orðið language, latneska orðið lingua og þýska
orðið Sprache, þ.e. um formkerfið, miðilinn sem notaður er í boðskiptum, en þar
á orðið tunga ekki síður við, eins og þegar talað er um „íslenska tungu“ sem sögu-
legt og félagslegt fýrirbrigði. Einnig er orðið mál notað um hæfileikann til að tala
og tjá sig, eins og sést af því að talað er um málkunnáttufræði sem þá grein sem
lýsa á málhæfninni, en nóg um það.
Svo aftur sé vikið að umfjöllun Þórunnar um texta þá bendir hún (bls. 51 o.áfr.)
á ýmsar forsendur þess að texti geti talist marktækur og þau skilyrði sem hann býr
við og verður að laga sig að ef svo má segja. Texti verður að hafa markmið og hann
þarf að vera „samþykktur" af viðtakendunum og hann verður að hafa eitthvert
upplýsingagildi. Einnig er vikið að venslum textans við umhverfið og aðra texta.
Hér er að mörgu að hyggja og er útlistun höfundar á þessum þáttum oftast nær
glögg og til skýrleiksauka. Þannig útskýrir hún vel mismunandi þætti í samhengi
textanna. Gerður er greinarmunur á orðræðusamhengi, þ.e. öðrum textum, stór-
um eða smáum, sem tiltekinn texti tengist, aðstæðubundnu samhengi, sem ræðst
meðal annars af þátttakendum í boðskiptunum, og menningarbundnu samhengi
sem er einfaldlega hinar almennu menningarlegu aðstæður sem textarnir búa við.
Þessum þáttum tengjast tvö hugtök sem fjallað er um í nokkuð löngu máli, þ.e.
samloðun (e. cohesiori) og samfella (e. coherence). Þótt hér sé vissulega vikið að
mikilvægum þáttum, sem tengjast greiningu á eðli textanna, finnst mér að ekki
hafi tekist fullkomlega að skýra þau lögmál sem hér um ræðir né gera greinar-
muninn á þessum tveimur (skyldu) hugtökum nægilega skýran. Að segja eins og
segir á bls. 62 að þessi fyrirbrigði tengist „á þann hátt að samfellan [sé] að miklu
leyti undir samloðuninni komin þótt margt fleira komi þar við sögu“ virðist satt
að segja ekki mjög upplýsandi. Ekki er það heldur mjög ljóst hvað átt er við þegar
sagt er að samloðun sé alltaf „„áþreifanleg" í þeim skilningi að benda má á þau mál-
farslegu einkenni sem stuðla að því að texti hangi saman og myndi merkingarbæra
heild. Samfellan er aftur á móti algjörlega huglæg“. Hér hefði að mínu mati mátt
greina skýrar frá því hvað átt er við.
Raunar skýrist þetta nokkuð þegar fram í sækir. Þannig er frásögn af því sem
kallað er samloðunartengi (e. cohesive ties) til skýrleiksauka. Hér er átt við hluti
eins og vísunarkeðjur, þar sem t.d. fornöfn og samheiti eru notuð til að tengja
saman umræðuefni í textum. Og skilningur á slíkum þáttum er vissulega mikil-
vægur í kennslu og ritþjálfun og því afar gagnlegt fyrir kennaranema að komast í