Ritmennt - 01.01.2002, Page 137
Helga Kress
RITMENNT 7 (2002) 133-76
Ilmanskógar betri landa
Um Halldór Laxness í Nýja heiminum
og vesturfaraminnið í verlcum hans
Vesturferðir íslendinga á 19. öld voru Halldóri Laxness mjög hugleiknar allt frá
fyrstu tíð. Hann víkur hvað eftir annað að þeim í ritum sínum þar sem þær verða
honum að táknmynd þess vanda að vera íslendingur: að vera kyrr heima hjá sér eða
fara burt og leita fyrirheitna landsins. Vesturfaraminnið tengir hann skáldum og
skáldskap, tungumáli og þjóðerni, en einnig aðskilnaði við konuna, móðurina og
upprunann. Sjálfur dvaldist Halldór í Vesturheimi á árunum 1927 til 1929, fyrst um
nokkurra mánaða skeið í Manitoba, en síðar í Kaliforníu þar sem hann reyndi að
koma sér á framfæri í kvikmyndaheiminum.
Einn vormorgun snemma
Þegar Halldór Laxness var að alast upp í byrjun síðustu aldar
voru vesturferðir íslendinga að mestu um garð gengnar. Þær voru
þó enn í fersku minni manna sem margir höfðu séð á eftir vinum
og fjölskyldu til Vesturheims, og eflaust hefur mikið verið urn
þær talað. í bernskuminningum sínum í túninu heima (1975)
minnist Halldór oft á vesturferðirnar sem honum hafa verið hug-
leiknar strax sem barni og verða honum táknmynd þess vanda að
vera íslendingur, togstreitunnar milli þess að „fara burt [...] eða
vera kyr." (184) Vesturferðirnar tengir hann tungumálinu, skáld-
um og skáldskap, og einnig sárum aðskilnaði eða harmleik. í
upphafi kafla um bækur sem voru lesnar í Laxnesi þegar hann
var lítill segir hann frá fyrsta áratug tuttugustu aldar þegar enn
stóð „blómaskeið ættjarðarljóðs sem var þýsk-skandínavískt
fyrirbrigði, híngað komið frá Danmörku [...], og bar uppá sama
daginn og amrikuferðirnar, þegar allir fluttu úr landi sem áttu
fyrir fari, að því er Matthías Jochumsson slcrifaði þá af Akureyri"
en „eftir sátu aumíngjar og embættismenn og grenjuðu ættjarð-
arljóð Matthíasar sjálfs og annarra." (172) Síðan segir hann:
133