Nýjar kvöldvökur - 01.01.1929, Blaðsíða 44
38
NÝJAR KVÖLDVÖKUR
»Hvað er það, sem þu vilt mjer, Sig-
valdi? Jeg hefi annað þarfara að gera en
að hlusta á þetta þvaður í þjer, og ef þú
hagar þjer eins og strákur, þá verður þú
að sætta þig við að jeg fari með þig eins
og strák«.
»Gáðu að því, Einar, að jeg hefi elst
um tíu ár síðan seinast; þá gastu farið
með mig eins og strák, en jeg vil ráða
þjer frá því að reyna það nú«.
Þetta mælti Sigvaldi svo einarðlega, að
Einar hætti við að neyta kreptra hnef-
anna.
»Þú manst ef til vill eftir því«, hjelt
Sigvaldi áfram, »að skömmu áður en við
systkinin lögðum af stað suður um árið,
þá kom jeg til þín yfir að Nesi snemma
morguns, — það var í seinasta sinnið,
sem við sáumst; þá var jeg hnugginn og
var að fara þess á leit við þig að jeg
fengi eitthvað úr búinu til minningar um
ait það, sem jeg hafði mist. Þá glottir þu
og sagðir, að jeg skyldi fá hundsbætur og
bentir mjer á flekkótta hvolpinn. Jeg vildi
ekki þiggja hundsbæturnar,heldur fór jeg
svo búinn. Nú er jeg kominn til þess að
jafna reikningana«, — Sigvaldi hækkaði
róminn og hvesti augun á Einar, — »og
í þetta skifti kemst þú ekki undan; þjer
skulu hvorki duga undanbrögð, hrotta-
skapur nje hundsbætur«.
Þá var Einari nóg boðið; hann stökk
upp af stólnum og skálmaði nokkrum
sinnum fram og aftur um stofuna; svo
sneri hann sér að Sigvalda og sagði þrút-
inn af reiði, með steyttan hnefann:
»Ef þú hypjar þig ekki samstundis út,
þá skaltu fá þær bætur, sem þú átt skil-
ið«, og hann myndaði sig til að taka í axl-
irnar á Sigvalda, þar sem hann sat í
stólnum, en Sigvaldi sat grafkyr og
horfði altaf beint framan í hann.
»Vertu nú hægur svolitla stund og
hlustaðu á mig og gefðu þjer tíma til að
íhuga það, sem jeg er að segja við þig;
það liggur ekkert á að láta hendur skifta
fyr en útsjeð er um að okkur komi sam-
an, en ef þú endilega vilt, þá skal jeg með
ánægju fljúgast á við þig á eftir, — og þó
ræð jeg þjer eindregið frá því. Þó að þú
sjert sterkur og þjer sýnist jeg lítill fyr-
ir mann að sjá, þá get jeg bæði klórað og
klipið«. Hann stóð upp, tók þjett um báða
úlnliði Einars og ýtti honum hægt niður
á skrifborðsstólinn, og hvernig sem á því
stóð, þá Ijet Einar það sjer lynda mót-
stöðulítið.
»Jeg var að segja áðan, að jeg væri
kominn hingað til þess að jafna gamla
reikninga. Þig mun renna grun í, hvaða
reikningar það muni vera. í fyrsta lagi
gabbaðir þú móður mína; jeg vil ekki
segja að þú hafir svikið hana í trygðum,
því að jeg hefi ekki sannanir fyrir því að
þú hafir heitið henni eiginorði, en jeg
veit að þú notaðir þjer það, að hún var
veik fyrir gagnvart þjer. Nú er hún dá-
in, svo að þú getur ekki bætt henni þær
misgerðir. f öðru lagi flekaðir þú systur
mína og áttir með henni barn, sem þú
hefir ekki gengist við og ekki skeytt um
hið allra minsta. Við þurfum ekki að fara
lengra út í þá sálma að sinni, því að þú
þekkir þá eins vel og jeg, en þú ert skyld-
ugur að greiða þann kostnað, sem af upp-
eldi drengsins hefir leitt og það skaltu
líka gera. f þriðja lagi sölsaðir þú undir
þig föðurleifð okkar systkina með öllurn
þeim brögðum og klækjum, sem slungn-
um þjóf sæma, og nú verður þú að gera
svo vel að greiða mjer það fje, sem þú
hefir haft af okkur. Jeg veit að þú getur
það, og ef þú gerir það'ekki með góðu,
þá skaltu gera það með illu, því að jeg
geri mjer ekki fleiri ferðir heim til þín«.
Það var líkast því sem Einar væri að
verða magnþrota af vonsku og með herkj-
um gat hann hreytt úr sjer þessum orð-
um: