Læknablaðið - 15.05.1988, Blaðsíða 27
LÆKNABLAÐIÐ 1988; 74: 189-210
189
Tryggvi Ásmundsson, Hrafnkell Helgason
Ég vildi ekki láta menn fara þekkingarlausa út
Viðtal við prófessor Jón Steffensen
Inngangur
Á 75 ára afmælishátíð Læknafélags Reykjavíkur
barst í tal milli okkar Árna Kristinssonar, að
gaman væri að læknafélögin beittu sér fyrir því,
að tekin yrðu viðtöl við roskna kollega og raddir
þeirra geymdar á segulböndum til framtíðarinnar.
Við ræddum strax hugmyndina við Kristján
Baldvinsson formann L.R. og Þorvald Veigar
Guðmundsson formann L.í. Strax í næstu viku
fengum við bréf frá Þorvaldi Veigari þar sem vjð,
ásamt Þórarni Guðnasyni, vorum skipaðir í nefnd
til að hrinda málinu í framkvæmd. Langan tíma
tók að útvega heppileg upptökutæki. Þegar þau
loks fengust var prófessor Jón Steffensen efstur á
lista yfir þá kollega sem ræða skyldi við. Hann
varð prófessor við Læknadeild Háskóla íslands
árið 1937 og gegndi því embætti til 1972, og hafa
fáir kennt þar lengur. Fyrstu 20 árin kenndi hann
líffærafræði, lífeðlis- og lífefnafræði, en eftir það
eingöngu líffærafræði. Þess má geta að þau fræði
sem prófessor Jón Steffensen kenndi einn í 20 ár
kenna nú þrír prófessorar, sex dósentar, sex
lektorar og auk þeirra allmargir stundakennarar.
Auk kennslu rak hann umsvifamikla
rannsóknastofu í lífeðlis- og lífefnafræði í 32 ár
og stundaði um leið mikla vísindavinnu.
Starfsþrek prófessors Jóns hefur því verið með
ólíkindum, en ekki virðist hann hafa beðið tjón á
líkama eða sál af of miklu vinnuálagi. Hann ber
sín 82 ár með afbrigðum vel. Við Hrafnkell
Helgason, yfirlæknir á Vífilsstöðum, áttum viðtal
það sem hér fer á eftir við prófessor Jón á fallegu
heimili hans að Aragötu 3 í Reykjavík dagana 27.
desember 1986 og 28. febrúar 1987. Spumingar
okkar Hrafnkels eru skáletraðar, en svör Jóns
með venjulegu letri.
Tryggvi Ásmundsson
Þú sest í lœknadeild 1924?
Já. Ég kem þar um haustið, fetaði í fótspor föður
míns. Annars hafði ég frekar hugsað mér að fara
í náttúrufræði. Maður hafði drukkið í sig dálítið
af henni frá Stefáni Stefánssyni, skólameistara á
Akureyri, en hann hafði grasatúra. Sá síðasti var
seinni veturinn minn í gagnfræðaskólanum, en þá
fór hann í grasaferðir með okkur í nágrenni
Akureyrar. Eftir það safnaði ég grösum í mörg ár
og líka eftir að ég var orðinn læknir. Það sem
fældi mig frá því að fara í náttúrufræði var að ég
vildi ekki verða kennari, þó að þar hafnaði ég að
lokum án þess að hafa eiginlega ætlað mér það
hlutverk í lífinu. Allavega byrjaði ég þarna í
læknadeildinni. Kennslustofurnar í fyrsta
hlutanum voru í Alþingishúsinu og þar var okkar
bækistöð með munnlega kennslu. Krufningar •
höfðu verið í svokölluðu Fjósi Halldórs
Friðrikssonar sem þá var næsta hús við
Alþingishúsið. Þetta voru ekki sem heppilegastir
tímar að því leyti, að Stefán Jónsson dósent, sem
hafði kennt pathologiu og histologiu, var nýlega
hættur störfum hér á landi og fluttur til
Danmerkur. Guðmundur Hannesson kenndi
aldrei smásjárskoðun og Níels Dungal var þá í
undirbúningsnámi til að taka við sinni stöðu.
Pathologiuna kenndi þá Guðmundur
Þessa mynd af Jóni Steffensen teiknaði Guðmundur
Bjarnason.