Árbók skálda - 01.12.1956, Blaðsíða 46
44
Óþarfi að þéra mig, herra dómari, greip ég fram í fyrir honum og rétti úr
mér; óstyrkur minn var horfinn með öllu.
Hann setti dreyrrauðan undir silfurgrdrri hárkollunni. Um stund var algert
hljóð í salnum. Síðan leitaði hönd mannsins löturhægt þangað sem hamar
hans lá á borðinu. Hann greip um hann, öruggu og hægu taki. Rödd hans
var lág og svipur hans fyrirmannlegur, án minnstu glettni, er hann mælti:
Slík framkoma og orðalag móðgar dómstólinn. Auk annarra afbrota yðar
hafið þér nú unnið yður til eilífrar óhelgi. Ég dæmi yður til dauða!
Síðan sló hann hamrinum í borðið; og mér hefði fundizt eðlilegast, að ég hnigi
dauður niður samstundis; jafnvel réttlátt; svo virðulegt var þetta hamarshögg.
En því fór fjarri. Við hamarshöggið óx mér ásmeginn. Ég færðist allur í aukana
og fann fyrst á þeirri stundu, hve sterkur ég var, ungur og hraustur — og
átti mörgu ólokið. Ég fann vöðva mína eflast á samri stundu. Þeir tútnuðu
og hnykluðust; ég varð vaxinn sem hinn frægi Atlas; herðabreiður, sterkur,
viðbúinn öllu. Þeir sprengdu fatagarmana utan af mér; það munaði minnstu,
að ég stæði nakinn. En nú, þegar ég í fyrsta skipti á ævinni fann, að sérhver
hreyfing mín myndi verða áreynslulaus, aðeins ef ég hefði geð í mér til að
hreyfa mig, þá stóð ég öldungis grafkyrr. Fyrirmennirnir í salnum urðu samt
gripnir mikilli skelfingu við þessi undur og stórmerki, og létu sækja tíu fíl-
eflda berserki til að koma mér í bönd.
En þess þurfti semsagt ekki. Ég hlýddi skilyrðislaust, þegar mér var
varpað í fangelsið. Þar var ég næturlangt og svaf mjög vel. Eins og ekkert
hefði gerzt; ekkert stæði til.
Ég var vakinn árla morguns og spurður, hvort ég óskaði nokkurs sérstaks;
hvort ég vildi fá svínasteik eða annan þann matarrétt, sem ég hefði mætur
á. Ég sagði nei takk. Þá laumaðist svartklæddi öldungurinn inn fyrir klefa-
dyrnar með biblíu sína í hvítmjúkum höndunum og tautaði eitthvað, sem
ég lagði ekki eyru við. Hann vakti tæpast athygli mína fyrr en hann rétti
bókina að mér og mæltist til, að ég kyssti á hana. Ég kyssti á bókina, og
það var myglulykt af henni. Síðan var ég leiddur út.
Mér var stillt upp við vegg. Þar stóð ég einn míns liðs; aleinn. Ég minntist
þess, sem vinur minn brezkur hafði eitt sinn sagt og ég hafði þá hlegið að:
One is always alone. — Nú stóð ég hér einn uppi við vegginn, vaxinn sem
Atlas, reiðubúinn að taka við byssukúlunum. Svo tók ég við þeim. Fjórir
menn hleyptu á mig úr rifflum. Þau skot hæfðu öll í mark. Sterklegur líkami
minn gein við kúlunum. Brjóst mitt þandist. Ég reyndi að vera eins beinn í
baki og ég gat; og glotti. Aldrei fyrr hafði ég kunnað að meta til fulls mikil-
leika og styrk tækninnar; svo mikið barn hafði ég verið. Nú svelgdu vöðvar
mínir skotin. Þegar kúlurnar lentu- í brjósti mér splundruðust þær, hver og
ein. Þúsund örvaskeyti spruttu út úr einni og sömu kúlu. Það var út af fyrir
sig dásamlegt. Ég miklaði hugvit mannsandans; aldrei fyrri sem nú. Svo
kiknaði ég í hnjáliðum og féll niður með veggnum. Starfsmenn fangelsisins
drógu hræ mitt burt.
Skömmu síðar var ég jarðsunginn frá lútherskri kirkju. Það var, nánar til-
tekið, á degi heilags Tímóléons, tæpri viku fyrir jól.