SunnudagsMogginn - 19.08.2012, Blaðsíða 29
19. ágúst 2012 29
ir allt þetta hvort ég vildi verða óp-
erusöngvari,“ segir hann. „Einkanámið
í Berlín var síðan til að sjá hvort ég
hefði allt í það, fyrir mig að komast að
því. Annars hefði ég alltaf verið í músík
þó ég hefði ekki gerst óperusöngvari. Ég
gæti vel hugsað mér að gera eitthvað
annað innan músíkur en óperusöngur
var alltaf það sem ég þekkti. Þetta var
svona leiðin heim. Stundum hugsa ég:
Hvernig endaði ég hér? Óperusöngvari í
Stralsund!“
Bláeygur tenór frá Íslandi
Hann segir gott að hafa reynslubrunn
foreldranna til að leita í. „Ég er alltaf að
spyrja þau ráða: Hvernig var þetta hjá
ykkur? Þau þekkja þennan heim mjög
vel, sérstaklega í sambandi við umboðs-
menn og slíkt. Það eru alltaf allir að
reyna að græða á öllum. Það getur verið
auðvelt að nýta sér svona bláeygan ten-
ór frá Íslandi! Þó ég vilji nú ekki meina
að ég sé eitthvað einfaldur. Maður þarf
einfaldlega að læra trixin.“
Fyrir Braga er tónlist ekki aðeins starf
hans heldur líka lífsnauðsynleg andleg
næring. „Tónlist er andleg næring. Þú
þarft ekki síður að næra andlegu hliðina
en líkamlegu hliðina, sama hvernig þú
gerir það, hvort sem þú lest bók eða
starir á málverk. Ég er allavega þannig.“
Hlustarðu mikið á tónlist?
„Ég hlusta mikið á allskyns tónlist.
Þegar ég er eitthvað niðurdreginn er
ekkert betra en að setja góða ljóða-
tónlist á fóninn.“
Er gott eða slæmt að hlusta á aðra
syngja sömu hlutverk og þú?
„Það er misjafnt. Oft finnst mér gott
að hlusta hvernig aðrir eru að gera hluti
tæknilega en mér finnst pínu erfitt að
hlusta á túlkun, það er að vissu leyti
truflandi. Ég myndi ekki segja að það
eyðileggi fyrir en þá tekur það kannski
lengri tíma að finna sitt eigið, hvernig
maður sjálfur ætlar að gera þetta. Túlk-
unin skiptir miklu máli, þetta er tvennt
aðskilið, nóturnar og svo listin. Það er
ekki alltaf hægt að segja af hverju þessi
er frægur söngvari en hinn ekki, sem er
kannski með miklu betri rödd. En annar
nær til fólks en þú getur ekki sagt af
hverju,“ segir hann.
„Fólk heldur stundum að maður
standi bara upp og syngi, gerir sér ekki
grein fyrir þessari skiptingu á nótunum
og öllu hinu. Þú ert ekki bara að lesa
nótur, það getur verið tilfinningalegur
rússíbani að æfa eitthvað stykki. Það
getur falið sér andlega tiltekt og lætur
mann horfast í augu við eitthvað í sjálf-
um sér. Það er sagt að öll áföll í lífinu
og reynsla sem þú gengur í gegnum geri
þig að betri listamanni. Þá bætist bara í
sarpinn. Það er algjörlega eitthvað til í
því, þá skilurðu ef til vill eitthvað ljóð
betur og getur sýnt þína hlið,“ segir
Bragi sem greinilega á mikið inni.
Ljósmynd/Júlía Mogensen
Bragi á sviði í óperunni Der Wildschütz eftir Albert Lortzing.
Ljósmynd/Vincent Leifer
Sú ímynd er oft af óperusöngvurum að þeir séu miklir matgæðingar sem hafi
gaman af því að borða og er Bragi þar engin undantekning. Hjá honum er þó
ekki bumbunni fyrir að fara en hann tók mataræðið í gegn og breytti um lífsstíl
fyrir þremur árum og grenntist um þrjátíu kíló í kjölfarið. Líkaminn er hans
vinnutæki og hann finnur mikinn mun á heilsunni eftir lífsstílsbreytinguna.
Tók út dýraafurðir og missti 30 kíló
„Ég áttaði mig á því að mig vantaði meiri trefjar í mataræðið. Þá sagði einhver
við mig. Þú getur farið út í apótek og keypt svona trefjar sem þú setur út í
vatn og drekkur. Þá hringdu einhverjar bjöllur í hausnum á mér. Af hverju ætti
ég að fara út í apótek og kaupa eitthvað til að fá trefjar?“ segir Bragi sem fór í
kjölfarið að lesa sér til um þessi fræði. „Ég áttaði mig þá á því að í kjöti er
ekki snefill af trefjum en trefjar eru í grænmeti og ávöxtum. Eitt leiddi af öðru,
ég las margar bækur og sá svart á hvítu hvað mig langaði til að gera. Ég vildi
ekki breytingu til skamms tíma, ég vildi breyta hér og nú og til framtíðar. Ég
tók út allar dýraafurðir, gerði ekkert annað, og hef aldrei borðað jafn mikið á
ævinni. Það hurfu þrjátíu kíló og mér hafði aldrei liðið svona vel,“ segir Bragi
sem sagðist reyndar í upphafi ætla að gefa þessu þrjá mánuði, fram að jólum,
„svona til að venja fólk við“.
Gat sjaldnast sungið fyrir hádegi
Hann segir misskilning að þetta sé einhver meinlætalifnaður. „Fólk lítur á
þetta þannig að ég sé að fórna einhverju með því að borða öðruvísi en áður. En
ég skildi ekki hvað það var að breyta um lífsstíl fyrr en ég raunverulega gerði
það. Það þýðir að mig langar ekki að vera eins og ég var. Ég tapaði fullt af vigt
og svo hefur mér aldrei liðið svona vel. Ég var veikur kannski sjö, átta sinnum
á ári, alltaf með einhverja kvefdrullu. Núna vakna ég og er bara til í slaginn.
Það var ekki sjálfsagt fyrir mig að fara á æfingu klukkan tíu og byrja að
syngja. Það var stressvaldur þegar ég var í skóla. Röddin var bara ekki endi-
lega komin fyrir hádegi.“
Hann er enginn öfgamaður í þessu. „Reglan er að ég fæ mér bara það sem
mig langar í. En punkturinn er að mig langar ekkert í það sem ég var að borða.
Mig langar af og til í ost eða ís og þá læt ég það eftir mér. Mér finnst það heil-
brigðara en að neita mér um. Þetta er auðvitað einstaklingsbundið en þetta
virkaði fyrir mig,“ segir Bragi og bætir við að fólk hafi vorkennt honum í fyrstu
því hann væri svo mikill mataráhugamaður. „En ég hef aldrei á ævinni fundið
eins fjölbreytt bragð af mat,“ segir maðurinn sem fyrir lífsstílbreytinguna
fannst grænmeti aðeins vera meðlæti. „Ég veit ekki um neitt betra en græn-
meti og hlakka til að borða. Ég er jafnvel meiri mataráhugamaður en áður.“
Breytti um lífsstíl