SunnudagsMogginn - 19.08.2012, Blaðsíða 37
19. ágúst 2012 37
var þennan mánudaginn má heilshugar taka
undir þessi orð. Aldrei á lífsleiðinni hefur
undirritaður séð jafngæfan hafflöt; Djúpið
minnti á yfirborð sundlaugar í logni, þar sem
hvítir toppar sjást engir, svo langt sem augað
eygir. Það var varla gára á sjónum, hvað þá
meira. Enda sagði Siggi, sem var skipper okkar
og leiðsögumaður í veiðiferðinni, að hann
hefði aldrei verið á stuttermabolnum áður
heilan veiðitúr og þekkti vart Djúpið fyrir sjó-
inn sem hann reri á að atvinnu. Ekki stóð
heldur á veiðinni, margir myndarlegir þorskar
dregnir um borð, ásamt einum vænum makríl.
Nokkrir ufsar og ein lýsa tóku sömuleiðis en
fuglarnir fengu þá bita. Þorskarnir voru hins
vegar hafðir með heim í hús, þar sem þeir
voru ristir upp um kvöldið, fylltir af kúnst
með sítrónusneiðum og ferskum kryddjurtum,
vafðir vandlega í álpappír og svo heilgrillaðir í
holu. Dýrindis sjávarfang sem hafði auk-
inheldur ótvíræðan veiðisjarma á sér, og fyrir
bragðið voru bráðinni gerð góð skil um kvöld-
ið. Daginn eftir hafði mannskapurinn svo
ærnar harðsperrur í herðum og handleggjum.
Óðalið við Arngerðareyri
Þegar að því kom að halda heim eftir vel
heppnaða Vestfjarðaheimsókn blasti við að aka
suður eftir Djúpinu heim yfir heiðarnar og
loka þannig hringnum. Bæirnir á leiðinni eru
vafalaust heimsóknar virði en verða að bíða
næstu heimsóknar. Hins vegar var eitt stopp
gert á leiðinni, og það fyrir botni Djúpsins.
Þar stendur aldurhnigið óðal, þar sem heitir
að Arngerðareyri. Þar ólst móðurafi minn, Jón
Halldórsson, upp frá fjögurra ára aldri, á jörð
sem faðir hans, Halldór Jónsson búfræðingur
og bóndi, byggði. Húsið, sem oft er kallað
„kastalinn“ vegna ferningslagaðs kögurs á
þakbrún, ekki ósvipað gamaldags kastalavegg,
ber með sér að hafa verið stæðilegt setur þegar
Arngerðareyri var í blóma, miðstöð verslunar
og viðskipta, iðandi af athafnalífi og umgangi.
Til marks um það er steypt bryggja sem stend-
ur frá flæðarmálinu út í Ísafjörðinn. Sú tíð er
löngu liðin og hljótt hefur verið kringum
óðalið um áratugaskeið, meðan náttúruöflin
vinna á húsinu ár frá ári. Hinir drifhvítu vegg-
ir sem forðum endurvörpuðu hádegissólinni
svo mannfjöldinn fékk nánast ofbirtu af, eru
nú máðir að lit og lúnir að lögun; sprungur í
veggjum, ryðtaumar og málning sem má muna
sinn fífil fegurri eru til marks um að tíminn
lætur sér fátt um finnast þó forðum hafi hér
verið ys og þys. Hann heldur hjá án þess að
líta um öxl og þeir sem ekki halda í við hann,
sitja eftir og láta um leið á sjá.
En góðu heilli horfir betur við Arngerðareyri
ef að líkum lætur því ungt par af erlendu bergi
brotið hefur fest kaup á jörðinni með það fyrir
augum að gera húseignina upp. Hyggjast þau
endurreisa kastalann í upprunalegri mynd
með samskonar gluggum og hurðum og áður.
Þau eiga ærinn starfa fyrir höndum en gæfan
gefi að þeim lukkist ætlunarverið því til mikils
er að vinna og margir munu eflaust fagna því
að sjá skínandi kastala á ný við Arngerðareyri.
Ferðalok
Að loknu ferðalagi um Vestfirði togast á gleði
yfir öllu því sem undirritaður upplifði, og svo
ákveðin gremja að hafa ekki haskað sér fyrr af
stað í slíkan túr. En eftirsjá er tímasóun og
meira um vert að leggja tímanlega drög að
næstu ferð og ákveða hvar niður skuli borið í
það skiptið. Af nógu er að taka og næsta víst
að valkvíði verði allnokkur, slíkt er úrvalið.
Best er þó að maður er víst aldrei „búinn“
með Vestfirðina þó að maður taki svolítið með
sér eftir hverja heimsókn. Vestfirðir, sem með
rentu mættu nefnast Bestfirðir, eiga feikinóg
af áhugaverðum stöðum til að skoða næst,
sama hversu rækilega gesturinn bergir af bikar
þeirra. Ég hlakka þegar til næstu heimsóknar
og eru punktar komnir á blað í minnisbókinni
yfir mögulega viðkomustaði þá. Þangað til bið
ég að heilsa Vestfjörðum.
Djúpið skartaði sínu lygnasta þegar haldið var út á sjóstöng mánudaginn 16. júlí. Hvergi sást hvítur toppur á silkimjúkum hafflet-
inum svo langt sem augað eygði til allra átta. Skipstjórinn kvaðst heldur ekki muna annað eins og var þó reynslubolti í róðrinum.
Það er fallegt að horfa inn Súgandafjörðinn sem blasir við þegar komið er úr Breiðadals- og Botnsheiðargöngum, en samgöngur á
fyrir vestan hafa stórbatnað á undanförnum árum. Landslagið á Vestfjörðum er einkar tilkomumikið og eftir því myndrænt.