Morgunblaðið - 01.05.2013, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 1. MAÍ 2013
Elsku amma. Það er rosalega
skrítið að hugsa til þess og ég er
ekki búinn að ná því enn að þú sért
dáin, að ég geti ekki hringt í þig til
að heyra í þér og spyrja þig frétta
og segja þér frá því sem ég er að
gera, þetta skeði svo snöggt. Það
minnir mig á hvað lífið er stutt og
hlutir fljótir að gerast. Það er
rosalega margt sem ég get sagt
um þig, elsku amma mín. Þú varst
heppin að vera við það þokkalega
heilsu að geta verið húsmóðir á
þínu heimili allt þar til síðustu tvo
mánuðina er þú fluttir á Hjallatún
þar sem þú varst komin í fallegt
herbergi. Ég mun alltaf muna eft-
ir fyrstu og jafnframt síðustu
heimsókninni til þín þangað hinn
13. apríl sl., þá varst þú orðin mik-
ið veik en ég náði að vera hjá þér
smástund og var yndislegt að sjá
hvað þú varst glöð að sjá mig og
rakst svo mig og mömmu heim að
borða því ég væri kominn í sveit-
ina og væri mikill matmaður. Þar
sem ég var veikur komst ég ekki
til þín daginn eftir en ég mun aldr-
ei gleyma þessari heimsókn.
Ég á margar góðar minningar
um þig, amma mín, og er minn-
ingabankinn fullur af þeim. Ég
man vel eftir þér frá því ég var
smápatti þegar ég var úti í sand-
kassa og þú sast hjá mér og pass-
aðir mig meðan ég var að leika
mér. Ég man líka alltaf þegar þú
og afi áttuð Mözduna og þegar ég
leit út um austurgluggann heima
og sá Mözduna koma á dólinu
heim afleggjarann þá vissi ég að
þið voruð að koma í heimsókn, þú
komst inn á undan og afi á eftir því
hann klappaði alltaf hundinum. Þú
varst alltaf svo hjálpsöm, varst
með pabba og mömmu í rófunum
og þú eldaðir oftast súpu með
blómkáli eða brokkolí í hádegis-
mat þegar þú varst á Hvoli. Þú
varst svo áhugasöm og spurðir
mikið frétta og vildir vita hvað
ættingjar þínir og vinir væru að
gera og oft á tíðum finnst mér að
þú hafir litið á alla ættina eins og
börnin þín enda ekki hægt að
hugsa sér betri móður og ömmu.
Hildur
Andrésdóttir
✝ Hildur Andr-ésdóttir fædd-
ist í Kerlingardal í
Mýrdal 1. maí 1926.
Hún lést á Dval-
arheimilinu Hjal-
latúni 18. apríl
2013.
Hildur var jarð-
sungin frá Vík-
urkirkju 27. apríl
2013.
Ég man þegar ég
var í skóla í Vík hvað
ég stökk oft í gegn-
um garðinn hjá þér
og fór í heimsókn til
þín og afa og alltaf
var tekið svo vel á
móti manni. Þú
studdir mig í gegn-
um skólann og verð
ég þér ævinlega
þakklátur fyrir það.
Þú hafðir brennandi
áhuga á búskapnum hér á Hvoli
og verður skrítið að geta ekki
hringt í þig í sumar að spyrja þig
hvort ekki sé í lagi að fara að hefja
slátt því þú varst svo góð í að spá
um veðrið. Þú varst algert hörku-
tól í alla staði og ótrúlegt hvað þú
varst alltaf sterk og kvartaðir
aldrei þó að ástæða væri til.
Ef ég hugsa aftur í tímann
finnst mér heiður að hafa kynnst
þér og fengið að vera með þér
þessi rúmu 23 ár og ég hef lært
rosalega margt af þér í gegnum
tíðina og notið þess að vera í
kringum þig. Það er lengi hægt að
telja upp minningar sem fá mann
til að hugsa aftur í tímann svo sem
öll jólaboðin, afmælin, áramótin
og margt fleira. Það verður skrítið
að fara í næstu fjölskylduboð og
þig vantar, komir ekki með Andr-
ési á Rafinum, en ég vona að þú
sért nú komin til afa og Ástu ykk-
ar og að ykkur líði vel. Vona ég að
þú munir fylgja mér eins og afi
gerir og veita mér stuðning í fram-
tíðinni.
Þitt barnabarn,
Haukur.
Ég var nú bara 16 ára stelpu-
skott þegar í kom í fjölskylduna
hans Karels. Fljótlega kom upp
smávægilegt vandamál. Ef ég not-
aði nöfnin á öfum og ömmum
hans, Hildur, Viðar, Guðrún eða
Gulli, nú þá svöruðu barnabörnin
alltaf. En ef ég notaði amma eða
afi þá var ég ekki lengi að fá svar,
já var strax svarað. Þannig að ég
reddaði mér þannig að ég bað
bara ömmur og afa Karels um
leyfi til að kalla þau amma og afi
líka eins og barnabörnin. Það leyfi
var góðfúslega veitt á báðum stöð-
um. Það hefur verið mikil lukka
fyrir mig í lífinu og finnst mér ég
hafa verið ríkari fyrir vikið.
Það er bara ekki hægt að skrifa
einungis minningargrein um Hildi
ömmu án þess að Viðar afi fylgi
þar með. Samstiga voru þau svo
sannarlega í lífinu og áttu þau
langt og farsælt hjónaband að
baki. Lífið kvöddu þau líka með
rétt rúmlega árs millibili. Ég var
ekki búin að vera lengi í fjölskyld-
unni þegar sorgin bankaði heldur
betur upp á í fjölskyldunni. Hildur
og Viðar misstu Ástu dóttur sína í
blóma lífsins. Það var gríðarlegt
áfall fyrir alla og ekki var síður
erfitt að horfa upp á gömlu hjónin
missa barnið sitt. Þetta var harður
skóli en lífið hélt áfram. Barna-
barnabörnin komu eitt af öðru og
nú nýlega kom Kristófer Viðar í
heiminn og örstutt er í næsta
barn. Amma og afi lögðu allt sitt í
gott atlæti fyrir börnin sín alla tíð.
Umhyggja um þeirra velferð og
heilbrigði var í efsta sæti. Flottur
og samhentur hópur með ein-
dæmum. Gríðarlega stolt voru þau
af barnabörnunum og þeirra af-
komendum. Hvort sem var um af-
mælisdaga að ræða eða stóra við-
burði þá klikkaði aldrei að síminn
hringdi og sagt „já sæl“ svo fylgdu
spurningar um gengi í hinu og
þessu sem krakkarnir tóku sér
fyrir hendur. Hún vildi hafa allt á
hreinu og vita frá fyrstu hendi um
gengi þeirra. Ekki síður voru
skemmtileg símtölin sem voru
ekki um neitt sérstakt, bara svona
aðeins að heyra í ykkur. Þá var
spjallað um allt á milli himins og
jarðar og frúin fór oft á mikið flug.
Dásamlegar stundir. Afi Viðar
hafði fyrir mína tíð lagt harmón-
ikkunni sinni og fékk ég aldrei að
heyra hann spila. En sjálf ólst ég
upp við mikið harmónikkuspil og
hefði gefið mikið fyrir að heyra í
honum. Það urðu miklir fagnaðar-
fundir þegar pabbi minn og Viðar
hittust í veislu hjá mér. En pabbi
minn, á sínum yngri árum, lagði á
sig margar ferðir austur til þess
eins að horfa á Viðar spila. Hann
var snillingur á nikkuna og lærði
pabbi mikið af því að horfa á hann.
Ég þakka auðmjúk fyrir sam-
fylgdina við ykkur, kæru hjón. Þið
hafið verið mér flott fyrirmynd.
Börnum, tengdabörnum og öllu
ættingjum send ég mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Þín „ömmustelpa“
Vigdís Rós.
Ég kynntist Hildi Andrésdótt-
ur frænku minni þegar ég var 11
ára og hálfgerður flóttamaður úr
Vestmannaeyjagosinu 1973. Við
fjölskyldan fengum inni í lítilli
kjallaraíbúð í Hlíðunum í Reykja-
vík. Hermann faðir minn hringdi í
frænku sína í Suður-Hvammi í
Mýrdal og spurði hvort hún gæti
tekið drenginn í sveit um sumarið
til að létta örlítið á þrengslunum
og til að kynna mig fyrir sveitalíf-
inu. Svarið var jákvætt og þangað
fór ég eftir að skóla lauk um vorið.
Mér er minnisstætt að standa
kjökrandi við gluggann í Suður-
Hvammi og horfa á foreldra mína
aka á brott eftir að þau höfðu kom-
ið mér í hendurnar á Suður-
Hvammsfólkinu. Hildur klappaði
mér á kollinn og sagði að þetta
yrði ekki svo slæmt. Skemmst er
frá því að segja að dvölin var frá-
bær, enda einstök fjölskylda á
bænum sem vildi allt fyrir dreng-
inn gera.
Faðir minn þekkti fólkið á bæn-
um mætavel en þau Hildur voru
systkinabörn og ólust upp saman
á æskuheimili Hildar í Kerlingar-
dal. Foreldrar hennar, Andrés og
Ásta, tóku pabba að sér fjögurra
ár gamlan eftir að faðir hans lést í
sjóslysi við Vestmannaeyjar.
Pabbi átti gott líf í Kerlingardal og
börnin þar voru honum eins og
systkini.
Í Suður-Hvammi var ég í sveit
sumrin 1973-1975 og gat ekki beð-
ið eftir að skóla lyki í Vestmanna-
eyjum til þess að komast í sveitina
til Hildar og Viðars. Ég leit á
börnin þeirra sem eldri systkini
mín. Í Suður-Hvammi náðist ekki
sjónvarp á þessum árum og því
voru kvöldin notuð í spjall um
heima og geima og var ég metinn
fullgildur þátttakandi í þeim um-
ræðum þó að ungur væri. Það
kunni ég að meta og var þakklátur
fyrir.
Árin 1976-1980 eftir að ég var
kominn á vinnumarkað í Vest-
mannaeyjum varði ég öllum mín-
um sumarleyfum í Suður-
Hvammi. Þar aðstoðaði ég við
heyskap og önnur bústörf. Hildur
og Viðar voru samhent hjón og
ráku bú sitt af myndarskap. Húsa-
kostur var bættur og var ungling-
urinn brúklegur í uppslátt,
steypuvinnu og tilfallandi störf.
Viðari var margt til lista lagt og
gerðist hann listasmiður ef á
þurfti að halda. „Réttu mér vat-
urpassann (lóðbrettið), Óli minn“
sagði hann oftar en einu sinni þeg-
ar við slógum upp haughúsi og
vélageymslu eitt sumarið.
Miklir kærleikar voru með
Hildi og Hermanni föður mínum
alla tíð og voru ófá símtölin frá
Eyjum í sveitina til að spyrja tíð-
inda og láta heyra í sér. Á hverju
sumri var siglt upp á fastalandið
og ættmennin í Kerlingardal og
Suður-Hvammi heimsótt.
Hildur fylgdist vel með mér og
fjölskyldu minni alla tíð. Hún
hringdi alltaf á afmælisdaginn
minn og mér þótti mikið vænt um
að heyra í henni. Því miður átti ég
langt í land með að vera eins art-
arlegur og hún en ég held hún hafi
fyrirgefið mér það. Hún spurði
frétta af fjölskyldunni og ég sömu-
leiðis af hennar fjölskyldu. Eftir
nokkra stund endaði hún símtalið
yfirleitt á þennan hátt: „Jæja Óli
minn, ég hef ekkert meira að
segja, vertu blessaður.“
Ég á Hildi mikið að þakka. Hún
var einstök kona, blessuð sé minn-
ing hennar.
Ólafur Hermannsson.
Fyrsta minning mín um Iðunni
var stórt vingjarnlegt bros og af
henni geislaði hlýja, ró og um-
hyggja. Hún sagði oft sögur frá í
gamla daga, um systkini sín, þar á
meðal af móður minni, þannig að
mér fannst ég vera hluti af stærri
fjölskyldu.
Seinna naut ég þess að hlusta á
hugleiðingar hennar um börn, um
nám og kennslu, starfsgrein sem
virðist vera hluti af fjölskyldunni.
Þegar ég sá Iðunni í febrúar síð-
astliðnum í síðasta sinn, naut ég
þess einfaldlega að vera í návist
hennar og fylgjast með samskipt-
um hennar við barnabörnin.
Iðunn Gísladóttir
✝ Iðunn Gísla-dóttir fæddist
á Stóru-Reykjum í
Hraungerðishreppi
í Flóa 13. sept-
ember 1926. Hún
lést á Heilbrigð-
isstofnun Suður-
lands 1. apríl 2013.
Útför Iðunnar
fór fram frá Sel-
fosskirkju 9. apríl
2013.
Iðunn klæddist
þjóðbúningnum við
sérstök tilefni og við-
hélt hefðum sem og
sögum af fjölskyld-
unni. Ég man eftir
henni með prjónana
segjandi sögur og
eins og góðir sögu-
menn, meðvitaðir um
uppnumda áheyr-
endur, þá hægði hún
stundum á sögunni,
stoppaði augnablik til að byggja
upp spennu og lauk síðan frásögn-
inni fyrir dolfallna áheyrendur.
Iðunn var blíð að eðlisfari og
var annt um annað fólk, ekki bara
börn.
Það var mikill kærleikur í ná-
vist hennar. Ég sakna hennar.
Gísli Garðarsson Bergmann,
London.
Einu sinni, fyrir um 15 árum,
kom Iðunn til að vera hjá okkur í
London. Ekki til að sjá borgina
heldur til að eyða tíma með systur
sinni Sólveigu, sem var í heimsókn
hjá okkur í nokkrar vikur frá
Ástralíu. Sólveig var eina ástæðan
fyrir því að Iðunn kom og eyddu
þær hverri stund saman, flissandi
í gestaherberginu okkar eins og
tvær skólastelpur sem ég er viss
um að þær hafa einu sinni verið.
Ég var heilluð af Iðunni og
tengslum systranna, heilluð af sí-
felldum prjónaskap hennar og
áhuga hennar á hestum. Hlutum
sem ég þekkti ekki.
London er risastór borg með
miklum fjölda fólks sem treðst leið
sína daglega og skilur óæskileg
ummerki eftir sig alls staðar. Kex-
pakka, veggjakrot, notaða varaliti,
tyggjó, tómar bjórdósir, notaða
strætómiða og ótalmargt annað.
Hlutir sem Lundúnabúar eru
hættir að sjá. En Iðunn sá þá þeg-
ar við gengum saman niður göt-
una á leið í búðir. „Af hverju
hreinsar fólkið ekki upp eftir sig?“
sagði hún við mig. „Hvers vegna
er allt svona óhreint?“
Ég held að Iðunn hafi ekki ver-
ið að spyrja mig út í vandamálið.
Ekki í raun, en þegar hún tjáði sig
gat ég auðveldlega ímyndað mér
hana ráðast að vandamálinu að-
eins vopnaða prjónunum sínum,
svífandi á næsta ungling sem hafði
fleygt umbúðum af skyndibita á
götuna og segja honum til hvers
ruslatunnan væri. Það sem mig
grunar að Iðunni langaði virkilega
til að vita var, hvernig við brugð-
umst við lífinu í borginni án þess
að þekkja nágranna okkar al-
mennilega, búa fjarri fjölskyld-
unni, þjóta um allan daginn án
þess að hafa tíma til að eignast
börn, innan um óstöðvandi sírenur
og umferð.
Það var mér ný lífsreynsla, sem
kom sjálf frá lítilli fjölskyldu sem
hafði myndast eins og af slysni, að
upplifa eldri konu sem hafði áhuga
á lífi mínu af engri annarri ástæðu
en þeirri að ég var gift frænda
hennar. Það var skrítin en mjög
indæl tilfinning. Við gátum ekki
haldið uppi samræðum vegna
tungumálaörðugleika en á sér-
stakan hátt fannst mér við tala ná-
kvæmlega sama tungumálið.
Rosalind Grainger, London.
✝
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og
langamma,
GRETA BJÖRG ARELÍUSDÓTTIR,
Húnabraut 8,
Blönduósi,
lést á Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi
miðvikudaginn 24. apríl.
Útförin fer fram frá Blönduóskirkju laugar-
daginn 4. maí kl. 14.00.
Fanney Zophoníasdóttir, Matthías L. Sigursteinsson,
Sigrún Zophoníasdóttir, Lárus B. Jónsson,
Sólveig Zophoníasdóttir, Guðmundur Engilbertsson,
barnabörn og langömmubörn.
✝
Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og
langafi,
ÞORSTEINN SVEINSSON
rafvirkjameistari,
Básenda 12,
síðast til heimilis
Lindargötu 57,
lést á Landspítalanum fimmtudaginn 25. apríl.
Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju þriðjudaginn 7. maí
kl. 13.00.
Sveinn Óskar Þorsteinsson, Sigurjóna Bára Hauksdóttir,
Ásta Kristín Þorsteinsdóttir, Frank Sandvik,
Hadda Þorsteinsdóttir,
Barði Valdimarsson, Eva Valdimarsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
ÞORGRÍMUR KRISTMUNDSSON
rennismíðameistari,
lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli mánudaginn
29. apríl.
Gerður Gunnlaugsdóttir,
Jón Þorgrímsson, Margrét Ólafsdóttir,
Hrafnhildur Þorgrímsdóttir, Jón Marteinn Guðröðsson,
Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, Ragnar Guðjónsson,
Kristjana Katrín Þorgrímsdóttir, Þór Gunnarsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær móðir okkar,
KRISTJANA ELÍSABET
SIGURÐARDÓTTIR,
Hlíðarholti,
Staðarsveit,
lést á Sjúkrahúsinu í Stykkishólmi mánu-
daginn 29. apríl.
Bjarni Vigfússon,
Margrét Vigfúsdóttir,
Sigurður Vigfússon,
Vigfús Vigfússon
og fjölskyldur.
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir, amma og langamma,
SJÖFN ÓLAFSDÓTTIR,
Norðurbrú 4,
Garðabæ,
lést á heimili sínu mánudaginn 29. apríl.
Útförin verður auglýst síðar.
Eyjólfur Sigurðsson,
Guðrún Eyjólfsdóttir,
Erla Eyjólfsdóttir, Sigurður Svavarsson,
Katrín Björk Eyjólfsdóttir, Ingi Bæringsson,
barnabörn og barnabarnabörn.