Morgunblaðið - 31.12.2013, Side 39

Morgunblaðið - 31.12.2013, Side 39
STJÓRNMÁL 39 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2013 I. Þ essi setning er höfð eftir góðum manni, hljómar eins og klisja en í henni eru djúp hyggindi: Stjórnmál eiga að snúast um framtíðina. Þetta þýðir að stjórnmál eiga ekki að snúast um uppgjör við fortíðina, eins og þau gera alltof oft. Um það hver hafði rétt fyrir sér og hver rangt. Þau eiga heldur ekki að snúast um sífelld viðbrögð við því sem gerist í núinu. Í stjórnmálum eigum við að búa í haginn. Taka ákvarðanir sem skila ríkri uppskeru. Að hugsa ekki í árum, en öldum, eins og Klettafjallaskáldið orðaði það. Um það eiga stjórnmál að snú- ast. Koma í veg fyrir hrun. Ekki bara bregðast við því. Þess vegna heitir stjórnmálaaflið sem við stofnuðum Björt framtíð. Okkur er nokk sama um gamlar deilur, gamla flokka og gamlar átakahefðir á þingi. Viðfangsefni okkar er 21. öldin. Framtíðin. Hvaða ákvarðanir er best að taka í dag svo að fólki líði betur á morgun? Fyrir þá sem vilja helst bara hugsa um daginn í dag og finnst framtíðin vera of langt í burtu eru einkum þrjár ástæður til þess að vera þó sammála þessari nálgun:1) Ef ákvarðanir gær- dagsins hefðu alltaf verið teknar með þessu hugarfari kæmi það okkur til góða í dag. 2) Trú á framtíðina, bjartsýni og góðar horfur leysir kraft úr læðingi sem bætir samfélagið hér og nú. 3) Mörg eigum við börn. Ákvarðanir okkar núna skipta máli fyrir þau fullorðin. II. Björt framtíð starfar undir merkjum frjálslyndis. Græn gildi og mannréttindi eru okkur hjartans mál. Hér eru nokkur ár- íðandi verkefni af okkar sjónarhóli:  Það þarf að sá fleiri fræjum í atvinnulífinu sem síðar verða spennandi alþjóðleg störf. Þess vegna hefur Björt framtíð lagt mikla áherslu á fjárfestingar í menntun, nýsköpun, rann- sóknum, tækniþróun og alls konar skapandi greinum. Svoleiðis skilar sér, í frjórra mannlífi, betri horfum og meiri tekjum. Það er margsannað.  Við þurfum auknar tekjur, til þess að greiða niður sameig- inlegar skuldir, til þess að lækka álögur á fólk, til þess að fara í nauðsynleg viðhalds- og uppbyggingarverkefni. Kraftmikið at- vinnulíf í opnu markaðshagkerfi skiptir hér mestu máli en fleira þarf að koma til: Við eigum ekki að leigja auðlindir okkar á spottprís. Útgerðir þurfa að borga sanngjarnt verð fyrir veiði- réttinn, ferðamenn fyrir að njóta náttúrunnar og erlend stór- fyrirtæki þurfa að borga fyrir orkuna. Virkjum lítið fyrir mikið, segjum við, fremur en mikið fyrir lítið. Pössum upp á verðmæti okkar.  Við þurfum öryggi. Heilbrigðiskerfið, skólarnir, fjarskiptin, vegirnir, löggæslan. Allt þetta þarf að vera traust og varanlegt. Þess vegna hefur Björt framtíð sagt að það þurfi róttæka upp- stokkun í ríkisrekstrinum og betri nýtingu fjármuna, hæfileika og tíma í þágu þess sem skiptir mestu máli. Það mun skila sér.  Við þurfum að opna landið, ekki loka því. Í samvinnu sjálf- stæðra ríkja í Evrópu getur Ísland orðið fullburða þátttakandi með aðgangi að stórum markaði, stöðugum gjaldmiðli og fram- sæknu samstarfi um mannréttindi, umhverfismál og lýðræð- isleg gildi. Björt framtíð vill klára viðræðurnar við ESB og leyfa þjóðinni að kjósa um samninginn.  Við þurfum stöðugt efnahagslíf til framtíðar. Það lækkar vexti og gerir verðtryggð lán óþörf, eykur kaupmátt og lækkar verðlag. Sumir vilja leiðrétta forsendubresti. Við viljum leið- rétta forsendurnar. Það er langstærsta hagsmunamálið fyrir heimilin. Stöðugleikinn kemur með meiri ábyrgð og aga í bók- haldi ríkisins og heimilanna, meiri útflutningstekjum og síðast en ekki síst: Gjaldmiðli sem er stöðugur án hafta.  Við þurfum frelsi, frið og mannréttindi. Þetta er ekki inn- antómt hjal. Hópar fólks, eins og t.d. fatlað fólk, búa við stór- skert mannréttindi. Það er ekki björt framtíð. Jafnrétti kynjanna er líka lúmskt viðfangsefni, stórt og yfirgripsmikið sem má ekki gleymast. Í þessu þarf Ísland að standa sig og vera jafnframt boðberi friðar, frelsis og mannréttinda annars staðar. III. Já, og stjórnmálin þurfa að batna. Það er forsenda skyn- samlegra ákvarðana, sem er forsenda framfara. Þetta viðfangs- efni hefur Björt framtíð sett á oddinn. Við viljum tileinka okkur sanngirni og yfirvegun. Við viljum vera málefnaleg. Við viljum samráð, sem er ekki sprottið af málþófi á þingi heldur af því að samráð er gott og nauðsynlegt, til þess að ákvarðanir batni. Sumir segja að við viljum að öll dýrin í skóginum séu vinir. Það er ekki rétt. Við segjum hins vegar: Stjórnmál eru vettvangur fólks með ólíkar skoðanir. Reynum að nýta það sem kost, en ekki ókost. Ólík sýn er útgangspunkturinn, ekki sjúkdómur. Þetta þýðir t.d. að rökstudd gagnrýni á stjórnarmeirihlutann er eðlileg og nauðsynleg. Vík ég nú að henni. IV. Mér finnst eins og hlé hafi verið gert á flestu, undanfarið, er varðar skipulega viðleitni til þess að hugsa um morgundaginn. Við lifum á tímum þar sem eitt stærsta pólitíska málið kallast Leiðréttingin, sem er 150 milljarða viðbragð við því sem gerðist 2008. Semsagt: Stjórnmál fortíðarinnar. Og það sem verra er: Að mestu fjármagnað með auknum byrðum í framtíðinni. Pen- ingar sem annars gætu nýst til að greiða niður opinberar skuld- ir, til arðbærra fjárfestinga og til nauðsynlegrar uppbyggingar, t.d. í heilbrigðiskerfinu, sem verður ekki frestað mikið lengur, munu renna í þetta verkefni. Óumflýjanlegri fjárþörf til ann- arra hluta verður því að mæta öðruvísi, kannski með frekari niðurskurði til þróunarmála, heilbrigðismála, menntamála og nýsköpunar. Kannski hærri sköttum. Hver veit? Semsagt: Auknar byrðar í framtíðinni. Björt framtíð myndi ekki gera þetta svona. Við myndum ein- beita okkur að því að hjálpa þeim heimilum sem virkilega þurfa aðstoð, bæði þeim sem skulda og þeim sem eru á leigumarkaði. Þar fyrir utan myndum við einbeita okkur að því að laga grund- völl allra heimila, bæta kjör, lækka verðlag og lækka vexti til langs tíma. Ótal greiningar hafa verið gerðar á undanförnum árum á sóknarfærum Íslendinga, á því hvernig hægt er að bæta grundvöllinn. Á þeirri vinnu myndum við byggja. Ég veit að á þingi, innan allra flokka, er fólk sem hugsar svona líka. Við munum halda áfram að leita samstarfs við það fólk – um að taka margar litlar og stórar ákvarðanir sem skila sér í betra mannlífi og bjartari horfum. V. Einhvern tímann í aðventunni pakkaði kona í Reykjavík inn lítilli gjöf. Hún lét fyrsta fólkið sem kom í heimsókn til hennar með gjafir undir hennar tré fá þessa gjöf, með þeim orðum að það fólk skyldi láta næsta fólk sem kæmi til þess í heimsókn fá gjöfina, og þannig áfram, frá fjölskyldu til fjölskyldu. Sú fjöl- skylda sem stóð með gjöfina í höndum kl sex á aðfangadag mátti opna hana. Þetta var svokölluð flökkugjöf. Kannski er þetta gamall siður frá heimalandi konunnar, Taílandi. Ég veit það ekki. Hann er nýr fyrir mér. Um stundarsakir var gjöfin á mínu heimili. Svo komu gestir. Þá fór gjöfin í þeirra hendur. Allt var þetta okkur öllum til mikillar gleði og ánægju. Þessi kona sendi gjöf út í samfélagið. Óeigingjarna gleði inn á heimili alls konar fólks. Hún pakkaði inn fallegum hlut í dag sem einhver annar naut á morgun. Þannig eiga góð stjórnmál að vera. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar Morgunblaðið/Ómar Flökkugjöfin Í stjórnmálum eigum við að búa í haginn. Taka ákvarðanir sem skila ríkri uppskeru. Að hugsa ekki í árum, en öldum, eins og Klettafjallaskáldið orðaði það. Um það eiga stjórnmál að snúast. Koma í veg fyrir hrun. Ekki bara bregðast við því.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.