Morgunblaðið - 31.12.2013, Blaðsíða 40
40 STJÓRNMÁL
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2013
K
osningar í vor mörkuðu skörp skil við stjórn
landsins. Frá völdum fór ríkisstjórn Vinstri-
hreyfingarinnar – græns framboðs og Sam-
fylkingar og eftir langar stjórnarmynd-
unarviðræður tók við ríkisstjórn
Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Tíðindi kosning-
anna voru kosningasigur Framsóknarflokks sem byggðist á
stórum loforðum, síðar kölluð heimsmet af formanni flokks-
ins, um almenna niðurfærslu verðtryggðra lána. Á þeim lof-
orðum var ríkisstjórnin mynduð og í stjórnarsáttmálanum
voru þau gerð að höfuðatriði ásamt ýmsum þjóðlegum tón-
um og var ætlað að draga upp mynd af ungri ríkisstjórn í
ungu lýðveldi.
Hin unga ríkisstjórn hefur hins vegar ekki beinlínis verið
boðberi nýrra tíma. Átök þessa árs frá og með kosningum
hafa fyrst og fremst snúist um afturhvarf til gamalla
stjórnarhátta veltiáranna fyrir hrun. Þau hófust strax á
sumarþingi þegar ný ríkisstjórn lækkaði sérstök veiðigjöld
á útgerðarfyrirtæki sem lögð voru á umframhagnað þessara
fyrirtækja. Þar með afsöluðu stjórnvöld almenningi árleg-
um tekjum upp á tæplega sex og hálfan milljarð af sameig-
inlegri auðlind þjóðarinnar. Í kjölfarið greiddu eigendur
stórútgerðanna sér út arð upp á hundruð milljóna eða millj-
arða. Þar með höfðu verið færðir fjármunir úr sameig-
inlegum sjóðum yfir á einmitt þá sem aflögufærir eru í
samfélaginu.
Mörg önnur dæmi eru um stefnubreytingu með nýrri rík-
isstjórn þar sem fremur er farin sú leið að lækka álögur á
þá sem breiðust bökin hafa. Hún birtist skýrast í nýsam-
þykktum fjárlögum þar sem áherslan er á óþarfan og sárs-
aukafullan niðurskurð á öllum sviðum samfélagsins. Þessi
niðurskurður hefði ekki verið nauðsynlegur ef sanngirni
hefði verið gætt í dreifingu byrða. Þannig er niðurskurður á
framlögum til framhaldsskóla og háskóla mun þungbærari
fyrir þær stofnanir en lítillega minni arður sjávarútvegsfyr-
irtækja. Niðurskurður til ýmissa vaxtarsprota á borð við
rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar er líka vanhugs-
aður. Þessir sprotar geta skilað sér margfaldir til sam-
félagsins og gildir þar einu hvort átt er við heilbrigðisvís-
indi (sem skapað hafa stærstu fjárfestingar hér á landi frá
hruni) eða kvikmyndagerð. Of harkalegur samdráttur rík-
isins í stuðningi við fjölbreytilegt atvinnulíf við núverandi
aðstæður í þjóðarbúskapnum getur verið ávísun á enn meiri
vandræði í ríkisfjármálum síðar meir. Einnig er farið í nið-
urskurð á almannaþjónustu og um leið talað í niðrandi tón
um það sem kalla má almannaþjónustu og almannaeign.
Fákeppni meðal fjölmiðla er eðlilegt áhyggjuefni stjórn-
málamanna og ekki síður óeðlileg áhrif fámenns eigenda-
hóps þeirra á opinbera umræðu í landinu. Þar ættum við að
líta til reynslu þjóða víða um lönd, t.d. Ítalíu Berlusconis,
en einnig hinnar gagnrýnislausu umræðu sem ríkti á Ís-
landi fyrir hrunið 2008. Hinir íslensku stjórnarherrar kjósa
hins vegar að ráðast gegn eina fjölmiðlinum sem er í sam-
eign þjóðarinnar, sjálfu Ríkisútvarpinu.
Við núverandi árferði er niðurskurður á samneyslunni
rakalaus kredda sem sækir í smiðju hægrisinnaðra afla á
Vesturlöndum sem mun leiða til vaxandi ójafnaðar og minni
lífsgæða á komandi árum fyrir íbúa Evrópu og Bandaríkj-
anna. Stjórnarflokkarnir virðast ætla að elta þessar kredd-
ur uppi þrátt fyrir óteljandi dæmi þess hversu illa þær hafa
leikið samfélög.
Sú kreppa sem við Íslendingar höfum reynt á und-
anförnum árum er einmitt afleiðing þessarar hugmynda-
fræði, ekkert síður en hins, með hversu blindum og hroka-
fullum hætti merkisberar hennar á Íslandi hrintu
stefnumálum sínum í framkvæmd. Hvers vegna er hug-
myndafræði sem einungis þjónar hinum fésterku orðið slíkt
viðmið í samfélaginu að efnahagslegt hrun nær ekki að
hrinda henni af stalli? Hér verðum við sem kennum okkur
við vinstristefnu að líta í eigin barm. Höfum við vanrækt að
spyrja stóru spurninganna? Þegar hægristefnan fer út í
öfgar dugir ekki aðeins að andmæla á hugmyndafræðilegum
grunni heldur þarf líka að spyrja siðferðilegra spurninga
um réttlæti og ranglæti. Er það réttlátt að þeir sem hafa
einkarétt á að nýta auðlindina í sjónum sem skilgreint er í
lögum að sé eign þjóðarinnar greiði ekki af henni sann-
gjarna rentu? Er það réttlátt að ákveðinn hluti almanna-
þjónustunnar sé afhentur einkaaðilum sem geta tekið af
honum arð án þess að bera neina ábyrgð þegar illa gengur?
Réttlæti er lykilatriði ef við viljum tryggja stjórnfestu og
sátt um stjórnskipulagið. Almenningur í landinu hefur kall-
að eftir þessu réttlæti, t.d. þegar yfirgnæfandi meirihluti
greiddi því atkvæði að ákvæði um að auðlindir landsmanna
ættu að vera í sameign þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu um
nýja stjórnarskrá haustið 2012. Það er skylda stjórnmál-
anna að bregðast við slíkum kröfum. Og fyrir því eru ekki
aðeins réttlætisrök, heldur líka hrein nytjarök þar sem ljóst
má vera að aukinn jöfnuður – tryggður meðal annars með
þrepaskiptu skattkerfi og almannaþjónustu sem er fjár-
mögnuð úr sameiginlegum sjóðum en ekki með gjaldtöku af
sjúklingum eða öðrum sem standa höllum fæti – eykur líka
velsæld í samfélaginu.
Fleiri spurningar um réttlæti og ranglæti vakna þegar
síðustu fjárlög eru skoðuð; ekki síst sú ákvörðun núverandi
stjórnarmeirihluta að skerða framlög til þróunarsamvinnu,
þvert á nýsamþykkta ályktun Alþingis. Það er dæmi um
ákvörðun sem er í grunninn ranglát – þegar þjóð sem skip-
ar sér meðal 15 til 20 ríkustu þjóða heims ákveður að draga
úr framlögum til að aðstoða þjóðir sem skipa neðstu sætin á
sömu listum.
Það er mikilvægt að pólitísk umræða glatist ekki í tal um
vinnubrögð eingöngu. Komið hefur fram að almenningur
hefur litla trú á vinnubrögðum á Alþingi. Við því þarf að
bregðast og þar geta allir lagt sitt af mörkum. Auðvitað
mætti margt segja um flausturkennd vinnubrögð núverandi
meirihluta á Alþingi þar sem þingsetningu var frestað til að
ríkisstjórnin hefði tíma til að vinna fjárlög sem tóku síðan
stórfelldum breytingum á lokametrunum og reyndust að
mörgu leyti óígrunduð. Sama má segja um vondar tillögur
um sjúklingaskatta sem ríkisstjórnin féll svo frá á loka-
metrunum vegna andstöðu samhentrar stjórnarandstöðu og
mikils þrýstings frá almenningi. Og sama um fjáraukalög
sem komu seint fram, risavaxnar breytingatillögur upp á 20
milljarða sem rötuðu inn í fjárlög örfáum dögum fyrir jól og
snerust um skuldaleiðréttingar og skattheimtu og undarleg
samtöl þingmanna og ráðherra í stjórnarmeirihlutanum í
fjölmiðlum. Vissulega má bæta vinnubrögð en það breytir
því ekki að stjórnmálin snúast alltaf fyrst og fremst um
inntak. Um það hvernig við getum tryggt réttláta stjórn-
skipan og tryggt að almenningur í landinu eigi þátt í henni.
Þar á stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs
brýnt erindi. Til að tryggja réttlæti þarf réttláta nýtingu
auðlinda, ekki aðeins fyrir þau okkur sem erum núna á
jörðinni heldur líka komandi kynslóðir. Til að tryggja rétt-
læti þarf að stuðla að jöfnuði í samfélagi þar sem auður hef-
ur færst á fárra hendur og ósjálfbær efnahagsstefna hefur
leitt Vesturlönd í djúpa kreppu. Til að tryggja réttlæti þarf
að hafa félagsleg markmið og sjálfbærni að leiðarljósi við
mótun efnahagsstefnu komandi ára. Þannig stuðlum við að
bættum hag okkar allra.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs
Morgunblaðið/Ómar
Réttlæti og stjórnmál
Við núverandi árferði er niðurskurður á samneysl-
unni rakalaus kredda sem sækir í smiðju hægri-
sinnaðra afla á Vesturlöndum sem mun leiða til
vaxandi ójafnaðar og minni lífsgæða á komandi
árum fyrir íbúa Evrópu og Bandaríkjanna.