Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.04.2014, Blaðsíða 49
27.4. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 49
A
ldís Hilmarsdóttir er að taka upp úr köss-
unum þegar fundum okkar ber saman á
skrifstofu hennar. Hún er nýr aðstoðaryfirlög-
regluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborg-
arsvæðinu og yfirmaður R-2, deildar sem
rannsakar fíkniefnamál og skipulagða glæpastarfsemi. Leys-
ir af hólmi Karl Steinar Valsson sem ráðinn hefur verið
tengifulltrúi Íslands hjá Evrópulögreglunni, Europol.
„Ég er svona að koma mér fyrir,“ segir hún brosandi.
„Fyrsta verkefnið er að hitta fólkið sem hér vinnur og
kynna mér starfsemi deildarinnar. Eðli málsins samkvæmt
er margt hér sem ekki fer hátt utan deildarinnar. Nýjum
stjórnendum fylgja alltaf einhverjar áherslubreytingar en
ég er ekki hingað komin til að snúa öllu á hvolf. Þvert á
móti legg ég ríka áherslu á að hafa starfsmenn deild-
arinnar með í stefnumótun. Hér vinnur reynslumikið og
hæfileikaríkt fólk og í þann brunn mun ég hiklaust leita.“
Aldís hefur starfað í lögreglunni í meira en áratug, fyrst
sem lögreglumaður hjá lögreglunni í Reykjavík og Keflavík
á árunum 2002-2003 og síðan sem lögreglufulltrúi í efna-
hagsbrotadeild hjá embætti ríkislögreglustjóra frá síðla árs
2003 til snemma árs 2008. Þá réðst hún til starfa hjá Delo-
itte og vann þar megnið af árinu 2008.
Aldís kom aftur til starfa hjá lögreglunni í árslok 2008
og var lögreglufulltrúi í fjármunabrotadeild LRH til vors
2011. Þá var hún ráðin til embættis sérstaks saksóknara og
gegndi þar stöðu lögreglufulltrúa þar til nú.
Vildi starfa áfram hjá lögreglunni
Hún segir skamman aðdraganda hafa verið að vistaskipt-
unum. „Ég var mjög ánægð hjá sérstökum saksóknara, þar
sem verkefnin eru verðug. Það embætti er hins vegar byrj-
að að draga úr starfsemi sinni enda aðeins um tímabundna
ráðstöfun að ræða. Ég var búin að gera það upp við mig
að ég vildi starfa áfram innan lögreglunnar og þegar starf
yfirmanns R-2 var auglýst laust til umsóknar fannst mér
það spennandi kostur og sótti um. Og hér er ég.“
Aldís segir marga eiga erfitt með að hætta í lögreglunni
og hefur raunar reynt það á eigin skinni. „Ég hef prófað
að hætta, þegar ég fór til Deloitte. Þar var ég um margt
að sinna svipuðum verkefnum, það er innri endurskoðun og
eftirliti, sem átti ágætlega við mig. Samt saknaði ég lög-
reglunnar og greip fyrsta tækifærið til að snúa aftur.
Raunar flýtti hrunið fyrir, skyldan kallaði. Eftir hrun veitti
ekki af fólki með reynslu af rannsókn efnahagsbrota.
Ástæðan fyrir því að ég tók þessi störf hjá fjármunabrota-
deild LRH og hjá embætti sérstaks saksóknara að mér var
í grunninn sú sama og ástæðan fyrir því að ég sótti um
hjá lögreglunni til að byrja með – mig langar að gera gagn
og vinna fyrir þjóðfélagið.“
Aldís kveðst hafa lært gríðarlega margt í störfum sínum
við rannsóknir fjármuna- og efnahagsbrota sem komi án
efa til með að nýtast henni í nýja starfinu. „Þegar ég hóf
störf í efnahagsbrotadeildinni tiltölulega nýútskrifuð úr
Lögregluskólanum var mér hent út í djúpu laugina og mun
búa að þeirri reynslu alla tíð. Reynslan sem ég aflaði mér
hjá embætti sérstaks saksóknara er ekki síst stjórn-
unarleg.“
Fámennt en góðmennt
Það liggur í hlutarins eðli að fíkniefnabrot og skipulögð
glæpastarfsemi eru partur af hörðum heimi sem mörg okk-
ar vilja sem minnst vita af. Aldís gerir sér fulla grein fyrir
því. „Ég hef komið að rannsókn brota af þessu tagi, auk
þess sem efnahagsbrot eru í sumum tilvikum líka skipulögð
glæpastarfsemi. Það er mjög áhugavert að skoða fjár-
málahliðina á skipulagðri glæpastarfsemi.“
Aldís stendur klár á því hvar styrkur og veikleiki sinnar
nýju deildar liggja. „Styrkurinn er í því fólginn að deildin
er ótrúlega vel mönnuð. Veikleikinn er sá að í henni eru
færri en eiga að vera.“
Starfsmenn deildarinnar eru um tuttugu talsins.
Í fréttaskýringu í þessu blaði í september síðastliðnum
ræddi Karl Steinar Valsson, forveri Aldísar, um skort á
fjárveitingum til lögreglu. Vel sé gert en með meira fjár-
magni megi gera ennþá betur. Aldís tekur undir þetta.
„Eins lengi og ég hef verið í lögreglunni hefur verið nið-
urskurður. Líka í góðærinu. Hér er unnið frábært starf en
því er sniðinn býsna þröngur stakkur. Við höfum enga
tekjumöguleika og verðum því að stóla á fjárveitingar. Við
þessar aðstæður er mikilvægt að forgangsraða og þessum
málaflokki er betur sinnt en mörgum öðrum innan lögregl-
unnar.“
Spurð hvort það sé ásættanlegt að lögregla þurfi að for-
gangsraða vegna fjárskorts horfir Aldís í augun á mér.
„Nei, auðvitað er það ekki ásættanlegt. Það er sorglegt ef
Langar
að vinna fyrir
þjóðfélagið
„ÉG HEF ALDREI FUNDIÐ FYRIR ÞVÍ Í MÍNUM STÖRFUM AÐ ÞAÐ HÁI MÉR
AÐ VERA KONA. HEF ALLTAF VERIÐ DÆMD AF VERKUM MÍNUM,“ SEGIR ALDÍS
HILMARSDÓTTIR, NÝR AÐSTOÐARYFIRLÖGREGLUÞJÓNN HJÁ LÖGREGLUNNI
Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU OG YFIRMAÐUR R-2, DEILDAR SEM RANNSAKAR
FÍKNIEFNAMÁL OG SKIPULAGÐA GLÆPASTARFSEMI. STARFINU GEGNIR HÚN FYRST
KVENNA. UNG VAR ALDÍS GEFIN LÖGREGLUNNI. HÚN BYRJAÐI Á GÖTUNNI
EN UNDANFARINN ÁRATUG HEFUR HÚN AÐ MESTU FENGIST VIÐ AÐ RANNSAKA
EFNAHAGS- OG FJÁRMUNABROT, NÚ SÍÐAST HJÁ EMBÆTTI SÉRSTAKS SAKSÓKNARA.
Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Myndir: Árni Sæberg saeberg@mbl.is
„Ég var búin að gera það upp við mig að
ég vildi starfa áfram innan lögreglunnar
og þegar starf yfirmanns R-2 var auglýst
laust til umsóknar fannst mér það
spennandi kostur og sótti um.
Og hér er ég,“ segir Aldís Hilmarsdóttir.