Stígandi - 01.07.1943, Blaðsíða 23
STÍGANDI
Á KROSSGÖTUM —
13
að vísu, að þar falli íslenzk kveðskaparlist þröngt, og víða taki
bátur ljóðagyðjunnar niðri, en mundi það með öllu ofmælt, þótt
sagt væri, að þar fari Sindbaðssigling íslenzkrar tungu frá
feigsbjargi siðskiptaaldarinnar til sólskinslanda 19. aldar?
Þegar við lítum yfir gróið land, tökum við bezt eftir grósku-
mesta gróðrinum. Skógurinn nær athygli okkar fram yfir lyngið.
En hefði lyngið ekki bundið jarðveginn með seigum rótum sín-
um, er hætt við, að víða væri auðnarlegra um að litast. Eins fer
okkur oft, er við svipumst um svið íslenzkra bókmennta. Glæsi-
bragur þeirra frá landnámsöld til 1350—1400, þegar skáldin
leggja víð lönd undir veldissprota sinn: yrkja söguljóð, trúar-
ljóð, heimspekileg ljóð og ljóð um mannlegt eðli og viðhorf, og
sagnaritun þeirra nær ótrúlegri fullkomnun, slær slíkum
bjarma í augu okkar, að okkur finnst engin birta, aðeins glórulít-
ið myrkur allt fram á 19. öld. En við megum ekki gleyma því,
að varðveizla verðmæta er mikilsvert afrek. Það er ekki jafn-
mikill ljómi um slíkt starf og nýsköpun, en mér liggur við að
segja, að til slíks þurfi ekki síður þrek og trúmennsku. Þetta
gerðu kynslóðirnar frá 1400—1830, en þær gerðu meira: Ein-
staklingar og þjóðarsálin sjálf orti áfram, sumt að vísu lélegt, en
sumt eru ljómandi baugabrot. Til er t. d. fjöldi af vísum og stök-
um, sem vísa Þorst. Erl. lýsir bezt:
Þær eru margar lærðar lítt,
leita skammt til fanga,
en þær klappa yndisþýtt
eins og börn á vanga.
Við þennan leik vísna, ljóða og sagna, sem þó raunar var eng-
inn leikur heldur tafl um líf og dauða, barg íslenzka þjóðin
menningararfi sínum upp til 19. aldarinnar, þegar nýtt landnám
hefst í íslenzkum bókmenntum, ekki sízt kveðskap.
En við megum ekki gleyma því, að þau skáldin, sem þá ber
hæst, sem og raunar öll, „voru ofan á undirhleðslum fæddir“.
Þess mun lengi minnzt, hvílík geysigróska verður þá í ís-
lenzkri ljóðagerð, og hversu fjölbreytt hún er. Fjöldi nýrra við-
fangsefna freista skáldanna, fjöldi nýrra hátta er tekinn í þjón-
ustu kveðskaparins.
En slíkri hefð eru stuðlar og rím búin að ná — fyrir atbeina
rímnanna ef til vill — að þau þykja sjálfsögð einkenni kveð-
skaparins. Á 13. öld þurfti Snorri Sturluson að semja annað eins