Stígandi - 01.07.1943, Blaðsíða 45
STÍGANDI
ÞRÁINN:
SAMTÍÐ MÍN OG ÉG
Þú, samtíð, er við brjóst mig barst,
mér breytilega hlóst og varst
svo kenjafull og klækjamörg,
en kærleiksauðug lézt.
Með svikaalúð seiddir mig
og sýndarfegurð veiddir mig,
en er ég hafði agni kingt,
þú að mér hlóst — og grézt.
Til fulls ég aldrei þekkti þig,
ÞÚ laugst að mér og blekktir mig,
en oftast þó mér sagðir satt,
er svika vændi þig.
Við hlátri er bjóst ég, hryggðist þú,
er hróss ég vænti, styggðist þú,
er sjálfsögð refsing sýndist mér,
þú sæmdum hlóðst á mig.
Og sjálfsagt aldrei semur oss,
og síður ekkert kemur oss
en þurfa sífellt þannig tafl
að þreyta millum oss.
En vandheft raun sú reynist oss,
ríkari að baki leynist oss,
því lífsins herra hefir oss
á herðar lagt þann kross.