Fréttablaðið - 12.04.2014, Síða 44
4 – Margt smátt ...
„Dagurinn þegar vinur minn fékk mig með sér til að
biðja um hjálp er versti dagur sem ég hef upplifað en
um leið sá besti. Mér leið bölvanlega þar sem mér
fannst ég skríða eftir hjálp,“ segir Ester Ellen Nelson
sem hefur samþykkt að deila sögu sinni með okkur
þrátt fyrir að berjast við eigin fordóma. „Já ég vil
segja sögu mína vegna þess að við eigum að hætta að
skammast okkur fyrir að vera efnalítil. Það geta allir
lent í aðstæðum sem þeir ráða ekki við og þá er svo
svakalega mikilvægt að eiga einhvern að sem réttir
út hjálparhönd. Þessi einhver þarf ekki endilega að
vera skyldmenni eða vinur, það getur allt eins verið
einhver ókunnugur,“ segir hún.
Ekki aftur snúið
Ester Ellen, kölluð Ellen, er fædd árið 1973 og uppalin í
Montanafylki í Bandaríkjunum. Móðir hennar er íslensk
en faðir bandarískur. „Já mamma er frá Sandgerði.
Hún kynntist pabba þegar hann var hér í hernum og
flutti með honum út. Við komum samt alltaf til Íslands í
heimsókn til ömmu á sumrin og mér fannst allt
æðislegt hér. Náttúran svo falleg og tungumálið svo
flott,“ segir hún og afsakar um leið íslenskukunnáttu
sína [innskot blaðamanns: sem er annars bara prýðis-
góð]. „Mig dreymdi um að eiga heima hérna og ég
stefndi alltaf að því að flytja hingað aftur.“
Ellen lærði grafíska hönnun í háskóla í Bandaríkjunum
og vann með skólanum eins og týpískum Íslendingi
sæmir. Hún gifti sig og eignaðist tvo syni en þau hjónin
skildu. „Mér hefur alltaf gengið vel í skóla og þegar
mér bauðst styrkur til að læra íslensku var ég mjög
spennt fyrir því. Ég hélt að það yrði lítið mál að koma
hingað með strákana mína. Þegar kreppan skall á var
ég búin að taka ákvörðun um að upplifa þetta
ævintýri, nýbúin að selja allt mitt og var bara á leiðinni
hingað. Ég hugsaði með mér að ég myndi nú alveg ráða
við aðstæður en þetta varð erfiðara en ég átti von á.“
Ellen kom til Íslands árið 2OO9 og settist að í
Reykjanesbæ til að búa nálægt ömmu sinni sem þar
býr og er orðin sjóndöpur. Hún byrjaði í BA-námi í
íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands en talaði
lítið fyrsta árið. „Ég vildi ekki tala eins og smábarn,“
segir hún og hlær. „Svo kynntist ég íslenskum manni
sem ég fór að búa með og tók þá vinnu sem mér bauðst
því styrkurinn dugði skammt. En það er mikið atvinnu-
leysi í Reykjanesbæ svo það var ekki auðvelt að fá eitt -
hvað að gera þannig að það var nú svolítið basl á mér.“
Spírall niður á við
Sumarið 2O1O fór yngri sonur Ellenar í frí til pabba síns
í Bandaríkjunum. Þegar líða tók á sumarið fékk Ellen
skilaboð frá barnsföður sínum um að hann ætlaði ekki
að senda barnið aftur til Íslands. Þá hófst mjög erfitt
tímabil í lífi Ellenar sem þó var svo heppin að fá aðstoð
bandarísks lögfræðings sem tók mál hennar að sér án
endurgjalds. „Ef ég hefði þurft að borga fyrir starf
lögfræðingsins hefði það kostað mig um fimmtán
milljónir króna. Ég hefði aldrei haft efni á því og því
ekki fengið son minn til baka. Ég er óendanlega heppin
og þakklát þessum góða manni.“
Ellen hefur haft forræði yfir sonum sínum frá því þau
hjónin skildu. Á grundvelli Haag-samningsins sem
tekur meðal annars á ólögmætu brottnámi barns vann
lögfræðingur hennar mál gegn fyrrverandi eiginmanni
hennar fyrir alríkisdómstóli í Bandaríkjunum. „En
málaferlin voru löng og ströng og næsta ár var svo
erfitt að það er ólýsanlegt. Ég þurfti að hætta í
háskólanum og gat ekki sinnt fastri vinnu þar sem ég
þurfti að fara út reglulega til að vera við réttarhöldin.
Það tók tólf mánuði að fá son minn aftur til Íslands en
þá voru fjármálin í rúst. Í ofanálag komst ég að því að
ég gekk með barn en sambandið við sambýlismanninn
íslenska gekk ekki upp og við skildum.“
Tíminn sem í hönd fór var mjög erfiður. Ellen var hætt í
háskólanum, vann lítið og var kvíðin og döpur. „Ég reyndi
að halda í geðheilsuna en ég veit ekki hvort það tókst,“
segir hún og hlær. „Ég fór út að hlaupa á morgnana og
reyndi hvað ég gat að gera eitthvað af viti en það var
allt á niðurleið. Ég var í miklum peninga vandræðum og
að lokum gat ég ekki meira. Ég fór mjög langt niður
andlega og mig langaði helst að vera uppi í rúmi með
sængina upp fyrir haus þótt ég hafi nú ekki gert það.“
Það er augljóst að Ellen finnst erfitt að segja sögu
sína. Hún beitir húmornum óspart en hún er alvarleg
þegar hún heldur áfram: „Mér finnst mjög erfitt að tala
um þetta. Ég skammast mín þótt ég viti að ég eigi ekki
að gera það. Mann langar ekkert að vera í þessum
aðstæðum en þannig er lífið stundum bara.“
Ellen útskýrir að hún hafi starfað sem grafískur
hönnuður í Bandaríkjunum en líka sem ráðgjafi fyrir
bágstatt fólk. „Ég man eftir að hafa hugsað um
aðstæður þessa fólks og ég reyndi virkilega að setja
mig í spor þess. Núna get ég hins vegar sagt að ég viti
raunverulega hvernig það er að upplifa fátækt. Ég hef
svo sannarlega lært að vera auðmjúk.“
„Ekki gefast upp!“
Rétt fyrir jól árið 2O11 var svo komið að Ellen gat ekki
lengur rekið bíl, hún var á hrakhólum með húsnæði og
átti varla fyrir mat fyrir fjölskylduna. „Góður vinur
minn kom þá til mín og sagði að ég yrði að passa upp
á mig og hugsa um börnin mín. „Ekki gefast upp,
komdu með mér!“ sagði hann við mig og það var
akkúrat það sem ég þurfti. Hann vildi að ég færi með
honum að hitta aðra vinkonu hans sem vann í kirkjunni
í Reykjanesbæ. Ég vissi ekki að þar væri aðstoð að fá
og mig langaði heldur ekki að biðja um hjálp, ég vildi
ekki þiggja ölmusu. Dagurinn þegar ég ákvað að fara
með þessum vini mínum og leita mér aðstoðar er
erfiðast dagur lífs míns en um leið sá besti,“ segir Ellen
Ester Ellen Nelson
„Erfiðustu skref sem ég hef á ævinni stigið“
„Við þurfum öll að eiga einhvern að sem segir:
Heyrðu, ekki gefast upp! Við getum líka öll
stoppað þegar við sjáum bíl við vegkantinn til að
athuga hvort bílstjórann vanti aðstoð, hjálpin
þarf ekki að vera stór.“
Ester Ellen Nelson segir erfitt að sigrast á eigin fordómum en að það eigi enginn að þurfa að skammast sín fyrir
að vera efnalítill. Hún vill burt með ölmusuhugsun, það geti allir misst fótanna.