Læknablaðið - 15.10.2003, Blaðsíða 51
UMRÆÐA & FRÉTTIR / AF SJÓNARHÓLI STJÓRNAR
Læknamístök?
Á nýafstöðnum aðalfundi Læknafélags íslands flutti
Jesper Poulsen formaður dönsku læknasamtakanna
athyglisvert erindi um öryggismál sjúklinga. Það sem
helst hefur borið á í umfjöllun fjölmiðla um erindið er
hversu stór hópur sjúklinga líður fyrir það að
eitthvað fer úrskeiðis í meðferð þeirra innan
heilbrigðiskerfisins. Ekki skal hér dregið úr hversu
alvarlegt það mál er ef þær tölur sem lagt er upp með
eru réttar en þess ber þó að geta að þessar tölur eru
miðaðar við erlendar rannsóknir og ekki eru ennþá
til sambærilegar rannsóknir fyrir ísland.
Pað sem undirrituðum þótti hins vegar mun
athyglisverðara var sú afstaða sem fyrirlesarinn hafði
til svokallaðra læknamistaka. Þetta orð hefur
eiginlega orðið samnefnari fyrir þegar eitthvað fer
miður í meðferð sjúklinga, hvort sem það hefur
eitthvað að gera með lækna eða ekki.
Jesper taldi að sú meðhöndlun á málum sem upp
koma ef grunur leikur á að eitthvað hafi farið
úrskeiðis sem skaðað hafi sjúkling sé alröng. Kerfið
leggur ríka áherslu á að reyna að finna sökudólg og
refsa honum. Þetta er eflaust með það fyrir augum að
viðkomandi geri ekki sömu mistökin aftur. Þarna eru
gerð grundvallarmistök. Aðeins örlítið brot af því
sem miður fer er í raun orsök vinnubragða sem eru
refsiverð. Meginhlutinn er sambland af að
vinnuferlið býður upp á að mistökin geti gerst
samfara því að skeikular manneskjur starfa í þessu
ferli. Við verðum að viðurkenna og sætta okkur við
að við getum ekki gert manneskjur óskeikular. Hins
vegar er oftast hægt að breyta kerfinu þannig að ekki
er hægt að gera mistökin. Til að breyta kerfinu þá
þarf hins vegar að vita hvað fer úrskeiðis og þarna
stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Ástæðan fyrir því
að mönnum þykja þær tölur sem birtar hafa verið um
fjölda sjúklinga sem skaðast innan heilbrigðis-
þjónustunnar háar er að þessar tölur eru frá
stofnunum þar sem smásjá hefur verið sett á
starfsemina með það fyrir augum að bæta ástandið
en ekki að leita uppi sökudólga. Með því hefur verið
mun auðveldara að fá fram það sem miður fer þar
sem fólk er frekar tilbúið að tilkynna það ef það á
ekki sífellt yfir höfði sér refsivönd (mannlegt eðli).
Hvað með réttindi sjúklinga? Þótt lagður verði af
þessi hugsunarháttur að reyna alltaf að leita að
sökudólgi þá er það í raun ekki nein skerðing á
réttindum sjúklinga. Lagalega séð á þeirra réttur að
vera tryggður ef eitthvað fer úrskeiðis hvort sem það
er vegna kerfisgalla, mannlegra mistaka eða
hvorutveggja. Það er því ekki gegn hagsmunum
sjúklinga að vinna þessi mál öðruvísi en gert er í dag.
Þvert á móti.
Á þá enginn að bera neina ábyrgð? Jú auðvitað.
Læknisfræðileg ábyrgð á greiningu og meðferð
sjúklinga er og verður áfram í höndum lækna en það
er hins vegar ekki þar með sagt að refsa eigi læknum
fyrir allt sem úrskeiðis fer. Vissulega eru til atvik þar
sem kæruleysi eða handvömm leiðir til skaða en bæði
eru þau atvik fátíð og oftast eru aðrir þættir sem spila
með.
Það er enginn starfsmaður sem ég veit til innan
heilbrigðisgeirans sem mætir í vinnu sína og ætlar
ekki að gera sitt besta og sannarlega er ekki nokkur
maður sem meðvitað skaðar sjúklinga. Samt sem
áður er kerfið uppbyggt til að leita fyrst og fremst að
sökudólgum þegar slysin gerast. Sú leið skilar ekki
árangri.
Nú segir eflaust einhver að þetta verði þá til þess
að menn vísi bara til þess að kerfið sé gallað og
enginn vilji taka á því. Eflaust er einhver hætta á því
en ef vilji er til að breyta núverandi hugsunarhætti þá
verður að taka allan pakkann, þ.e. að fylgja eftir
niðurstöðum rannsókna, finna hvar kerfið er gallað
og gera viðeigandi breytingar.
Læknar eiga að vera í fararbroddi við að gera
kerfið öruggara en til að sú vinna geti farið fram þá
þurfa nauðsynlegar upplýsingar að vera til staðar.
Við þurfum mun betri skráningu á því sem miður fer
en til er í dag. Það sem er kannski enn mikilvægara er
að reyna að taka upp skráningu á því sem miður fer
þó að enginn bíði skaða af. Þetta mætti kalla
„næstum mistök”. Gott dæmi er ef starfsmaður ætlar
að gefa sjúklingi lyf í æð en uppgötvar á síðustu
stundu að um rangt lyf er að ræða. Þarna hefur
enginn orðið fyrir skaða og því verður þetta
væntanlega aldrei mál sem er skoðað og spurning-
unni urn hvers vegna þetta gerðist því ekki svarað.
Þetta eru atvik sem þarf að leita að og finna og með
því reyna að fyrirbyggja að mistökin verði gerð í
framtíðinni. Að sjálfsögðu er þetta ekki auðvelt í
framkvæmd og þarf að leggja mikla vinnu í þetta
ásamt því að breyting verður að verða á hugsunar-
hætti starfsfólks og stjórnenda innan heilbrigðis-
kerfisins. Gleymum því þó ekki að það er til mikils að
vinna ef okkur tekst að gera heilbrigðisstofnanir
öruggari fyrir sjúklinga.
Sigurður E.
Sigurðsson
Höfundur er svæfinga- og
gjörgæslulæknir, formaöur
Læknafélags Akureyrar og
situr í stjórn Læknafélags
íslands.
787 Læknablaðið 2003/89
Læknablaðið 2003/89 787