Læknablaðið - 15.10.2003, Blaðsíða 78
FRÁ SÓTTVARNALÆKNI / DREIFIBRÉF
Dreifibréf Landlæknisembættisins
nr. 4/2003
Tilkynning frá sóttvarnalækni
Bólusetning gegn influenzu
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ráðleggur að inflúensubóluefni á norðurhveli fyrir tímabilið 2003-2004 innihaldi eftirtalda stofna (WHO Weekly
Epidemiological Record, 2003; 78: 60-2 og 2003; 78: 77):
• A/Nýju Caledoniu/20/99 (H1N1) - lík veira
• A/Moskvu/10/99 (H3N2) - lík veira*
• B/Hong Kong/330/2001 - lík veira**
* A/Panama/2007/99 stofn, sem oft er notaður, er A/Moskvu/10/99 - lík veira
** Sá bóluefnisstofn sem nú er notaður inniheldur: B/Shandong/7/97, B/Hong Kong/330/2001 og B/Hong Kong/1434/2002.
Hverja á aö bólusetja ?
• Alla eldri en 60 ára.
• Öll börn og fullorðna sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæm-
isbælandi sjúkdómum.
• Starfsfólk heilbrigðisþjónustu og aðra þá sem daglega annast fólk með aukna áhættu.
Hvatt er til þess að bólusetningar gegn inflúensu hefjist sem fyrst og verði lokið að mestu fyrir byrjun nóvember. Sérstök athygli skal vakin á þvi
að inflúensa getur líkst einkennum HABL (SARS) og getur mismunagreining verið erfið afþeim sökum fari svo að HABL taki sig upp að nýju. HABL
reyndist sums staðar sérstakt vandamál á heilbrigðisstofnunum vorið 2003 og því er sérstaklega mælst til þess að sjúklingar og heilbrigðisstarfs-
menn sem sinna veikburða fólki verði bólusettir við inflúensu.
Frábendingar
Sjá nánar leiðbeiningar um inflúensubólusetningu frá september 2003.
Bólusetning gegn pneumókokkasýkingum
Sóttvarnalæknir vill einnig minna á bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum á 10 ára fresti til handa öllum þeim sem eru eldri en 60 ára og á
fimm ára fresti fyrir einstaklinga sem eru í sérstökum áhættuhópum.
Sóttvarnalæknir
Reykjavík, 15. september 2003
Leiðbeiningar um inflúensubólusetningu
Faraldsfræði
Inflúensa er veirusýking í loftvegum sem kemur upp árlega hérlendis, einkum á veturna, og stendur í tvo til þrjá mánuði. Erlendar rannsóknir
sýna að um 35% barna yngri en tveggja ára og um 20% einstaklinga eldri en 20 ára fá inflúensu á hverju ári (MMWR 2003; 52: 1-36).
Afleiðingar inflúensu
Alvarlegar afleiðingar inflúensusýkingar sjást einkum hjá einstaklingum eldri en 60 ára, ónæmisbældum einstaklingum, börnum í langvinnri
aspirinmeðferð og börnum og fullorðnum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma (þar á meðal asma), langvinna efnaskiftasjúkdóma
(þar á meðal sykursýki) og nýrnasjúkdóma.
Inflúensubóluefni á markaði
Á íslandi eru fjögur bóluefni gegn inflúensu á markaði í dag sem öll innihalda dauðan mótefnavaka:
• Fluarix frá GlaxoSmithKlein
• Fluvirin frá Evans Vaccine
• Influvac frá Solvay Duphar
• Vaxigrip frá Aventis Pasteur MSD
Ofangreind bóluefni eru sambærileg hvað varðar virkni og samsetningu nema varðandi thiomersol innihald þar sem Fluarix og Vaxigrip inni-
halda nánast ekkert af efninu. Þessi tvö bóluefni henta því vel til notkunar hjá ungum börnum.
Virkni inflúensubóluefna
Virkni inflúensubóluefna er 60-90% hjá einstaklingum <65 ára (einnig börnum eldri en sex mánaða) en heldur minni hjá eldri einstaklingum.
Aukaverkanir
Helstu aukaverkanir eru hiti og staðbundin eymsli á stungustað sem algengari eru hjá börnum en fullorðnum. Staðfest ofnæmi fyrir eggjum er
frábending gegn bólusetningu.
Bólusetning
Ráðlagt er að bólusetning hefjist á hverju hausti, venjulega frá mánaðamótum september/október. Börn yngri en níu ára sem ekki hafa verið
bólusett áður þurfa tvær sprautur með eins mánaðar millibili.
Hverja á að bólusetja?
• Alla eldri en 60 ára
• Börn (eldri en sex mánaða) og fullorðna
o með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma (þar á meðal asma)
o sem eru ónæmisbældir
o með langvinna efnaskiftasjúkdóma (þar á meðal sykursýki)
o börn og unglinga sem taka aspirín að staðaldri (vegna hættu á Reye heilkenni)
• Einstaklinga sem sýkt geta aðra sem eru í hættu að fá alvarlega inflúensusýkingu:
o starfsfólk á sjúkrahúsum sem annast sjúklinga
o starfsfólk á elli- og hjúkrunarheimilum
o heimilisfólk þar sem áhættuhópar dvelja
Sóttvarnalæknir / september 2003
814 Læknablaðið 2003/89