Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.06.2013, Blaðsíða 37

Læknablaðið - 15.06.2013, Blaðsíða 37
UMFJÖLLUN O G GREINAR Óður um himbrimann og aðra fugla Um Innsævi, Ijóðabók Ferdinands Jónssonar Það er ekki daglegt brauð að heyra af nýjum ljóðabókum á markaði, en þegar ein ný birtist við sjónarrönd frá bókaforlaginu Veröld og höfundurinn reynist vera læknir, kviknar fyrst fyrir alvöru á perunni hjá Læknablaðinu. Alla jafna eru ljóðabækur knappar, snotrar og mikið í þær lagt. Innsævi slær allt þetta langt út með sín 37 ljóð, bókin er beinlínis fögur hvar sem á hana er litið, og efniviðurinn er lifandi og litríkur, en jafnframt tregafullur. Ferdinand yrkir inn í hefð íslenskra náttúru- skáld, - hann mærir náttúruna og sam- samar sig henni, vorið boðar gott og felur í sér væntingar, haustið felur í sér sorg og trega, og veturinn algjöra harðneskju og dauða. Bragarhátturinn er frjáls en þó meitlaður og bundinn með ljóðstöfum eftir tálguðum línum. Mýktin er alls ráðandi í ljóðmálinu, leikur á sérhljóðum og ósamsettum einföldum orðum. Ljóðheimurinn er uppi á heiðum, Madríd, Þingvellir, Kleifarvatn, Þjórsárbakkar og sjálfur geirfuglinn, alca impennis, sem er „horfinn í sæhúmið", - „fuglinn sem fórst". Það er vísað í aðra texta: apríl harðastur mánaða, núna er ástin nautanna, og mildar líkingar sem minna á málverk: kvíðarökkur, sumartjöld, huldusker, lynginu blæðir bláu og rauðu. Einfaldleikinn er samt alls ráðandi í ytra búnaði en orðin miðla mjög sterkri vitund og stemmningu. Staðsetningin er utan alfaraleiðar, óháð nútímanum og Evrópusam- bandinu, hruni, aflandskrónum og lifibrauði - það er veðrið og árstíminn sem ræður, eftirsjá, söknuður, á kreiki er stöku fugl, og náttúran ríkir ein. Innlönd utan vega hulin þoku lengst inni á heiðinni í grænum mosa við vatnaskil allra átta vakir í tæru vatni tilfinning um þig Fram hefur komið að helsta áhugamál skáldsins sé fuglaskoðun og bókin ber þess vitni, fuglar eru í forgrunni í mörgum ljóðum bókarinnar. Maður sér ekki í anda ljóð um golf eða hlaup eða fótbolta sem myndu ná slíkri dýpt, ekki einu sinni ljóð um bridds gætu miðlað svona heitum tilfinningum. Þessi fókus á fugla gerir ljóðin heiðari og fjaðurmagnaðri en þegar við- fangsefnin eru af efnislegri toga. Fuglar eru sá hluti sköpunarverksins sem er nálægur og sýnilegur mannfólkinu en þó hreint ekki undir herradóm mannsins settur, þeir eru algjörlega á eigin vegum og við horfum alltaf á eftir þeim með aðdáun og allri þeirri óendanlegu frels- isþrá sem í okkur býr. Vonandi á Ferdinand eftir að gleðja lesendur sína með enn fleiri fuglum og enn fleiri ljóðum á næstum árum þótt ljóst sé að geðlæknirinn muni ekki snúa sér alveg að yrkingum. Það er erfitt að gera upp á milli ljóðanna í bókinni en ég held að þetta sé mitt uppáhalds núna: -VS Himbrimi á djúpu vatni fjallsins bláa fjarlægur söngur dimmur fagur sumar nætur hljóðar lofar lífið góða snertir landið hreina Ferdinand Jónsson. LÆKNAblaðið 2013/99 309

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.