Tímarit Máls og menningar - 01.05.1944, Síða 22
12
TIMARIT MALS OG MENNINGAR
Og samt varð sú raunin, er önnin þín úti við beið
og árrisul vorsólin hlýjaði rúður og þil,
að augu þín störðu sem bundin af banvænum seið
í blæðandi kviku þess lífs, sem þú heyrir til.
Þá brann þér í vitund, að jafnvel þín væri þörf,
já, þrátt fyrir allt, í því stríði, sem mannkynið heyr,
þitt líf væri í veði, þín friðsömu, staðbundnu störf
og stúlkan þín litla og drengirnir þínir tveir.
Úr hefðbundnum ranglætisfjötrum mun framtíðin leyst
við fórnir og stríð, meðan blástjörnur renna sín skeið.
Og nú, eins og oftsinnis áður, er trú okkar reist
á arfleiðslu mannsins, sem féll og sigraði um leið.
Því af þeirri rúst, þar sem ríkir nú dauði og tóm,
skal rísa traustari borg en þar áður stóð,
hin gullnustu öx, hin fegursíu og björtustu blóm
skal bera sú mold, er drakk hið úthellta blóð.
Og hvað mun þá úthjarans einangrun torvelda þér
að yrkja þitt stef inn í samhljóm hins nýja lags,
hve barnslega lítill og léttur sem hlutur þinn er,
þú leggur hann fram á altar hins komandi dags.
Því einnig þú verður kallaður, kvíddu ekki því,
þú kyrrláti maður í dal hins afskekkta lands,
er musterið brunna skal byggjast frá grunni á ný,
— þar bíður þín hlutverk hins ókunna vegghleðslumanns.