Tímarit Máls og menningar - 01.05.1944, Blaðsíða 37
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
27
líkum toga spunnin og almúgahreyfingar 19. aldar, en í nýju formi,
markvísari og sjálfstæðari, undir forustu flokks, sem hafði sósíal-
ismann á stefnuskrá sinni. Sjötti hluti jarðarinnar fékk höggvið
sig út úr heimskreppu auðvaldsskipulagsins og gekk ótroðnar slóð-
ir. Um allan heim reyndi alþýðan að leita inn á sömu brautir, en
fékk ekki ratað. Á fimm sjöttu hlutum jarðarinnar gat hin gamla
yfirstétt fest völd sín í sessi, hin sigursælu stórveldi skiptu heimin-
um upp á milli sín á nýjan leik, og að svo búnu bjuggust menn
við, að hægt væri að byrja að nýju þar, sem þráðurinn hafði slitn-
að sumarið 1914. Menn trúðu því, að öryggi og velmegun hinna
horfnu ára frá fyrsta áratugi aldarinnar mundu aftur ríða í garð.
En menn urðu fyrir rniklum vonbrigðum. Árin milli styrjaldanna
urðu meira stjórnleysistímabil í alþjóðlegum efnum og innanlands-
málum einstakra ríkja en dæmi eru til.
Á síðustu mánuðum hinnar fyrri heimsstyrjaldar voru hinar
langþreyttu þjóðir brýndar á því, að þetta væri styrjöldin, sem
skyldi binda endi á allar styrjaldir. Styrjöldin væri háð til þess, að
lýðræðið mætti ríkja í heiminum. Styrjöldin mundi skapa heim,
sem væri hæfur hetjum hennar. 011 þessi aldarfjórðungs gamla
mælgi lætur í eyrum manns nú eins og klám og guðlast í senn. En
því er ekki að leyna, að þessi gömlu stríðsloforð koma oft upp í
huga manns þessa stundina, þegar farið er að hallast svo á vogar-
skálar þessarar styrjaldar, að staðhæfa má með vissu, að hinar
sameinuðu þjóðir vinni sigur, og margar stoðir renni undir það,
að í Evrópu ljúki henni þegar á þessu ári. Það má því búast við
því, að innan skamms muni menn í Evrópu standa andspænis því
viðfangsefni að hefja endurreisnarstarf friðarins. Hverjar eru horf-
ur þessarar friðarstarfsemi? Er nú á þessari stundu hægt að gera
sér nokkrar raunhæfar hugmyndir um hinn nýja heim? Eða verð-
ur sá heimur, sem rís upp úr rústunum, sami gamli syndarinn og
sá, sem við kvöddum haustið 1939?
3
Það er alkunna, að spámennska hefur færzt mjög í vöxt, bæði
heima og erlendis, síðan styrjöldin skall á. Eftir því sem lengra
líður á styrjöldina fjölgar spádómum, draumum, vitrunum og spá-