Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Side 20
Tímarit Máls og menningar
Um þýska nóbelsskáldið Thomas Mann hefur verið komist svo að orði að
ævistarf hans hafi falist í sífelldri leit að frum-formum og frum-reglum lífsins,
leit að hinu tímalausa „skema“ sem mannlífið virðist hafa tilhneigingu til þess
að mótast eftir.2 Þetta viðhorf mætti allt eins nefna leit að hinu varanlega í
tilvist mannsins, leit um leið að þeim þáttum og innviðum mannlífsins sem
kalla mætti ekta og sanna. Hin stöðuga návist spurningarinnar um manninn í
verkum Halldórs Laxness vekur þann grun að ummælin um Thomas Mann
gætu farið hans verkum allt eins vel.
Bókmenntafræðinga sem kannað hafa verk Halldórs Laxness greinir ekki á
um samspil hins sérstæða og hins algilda í verkum hans. Þannig segir Peter
Hallberg: „íslenzkt fiskiþorp eða íslenzkur bóndabær endurspeglar heiminn".3
En um leið og hið sérstæða endurspeglar hið algilda er skáldverkið komið inn á
landareign spurningarinnar um hið varanlega í tilvist mannsins. Því er það
áreiðanlega ekki að óyfirveguðu máli sem þýski bókmenntafræðingurinn Wil-
helm Friese segir: „í verkum Laxness er frá upphafi fjallað um hinar ævafornu
og þó síungu spurningar: hver er maðurinn, hver er tilgangur tilvistar hans.“4
En þegar stórt er spurt verður ekki alltaf mikið um svör, enda er það ekki ætlun
rithöfunda eins og Halldórs Laxness að nota verk sín sem farveg ákveðins
boðskapar í þrengri merkingu þess orðs. Nær væri að líta svo á að þeir ætluðu
skáldskapnum sjálfum sem slíkum að ljúka upp svörum og að þau blundi i
mannlífinu sjálfu. Þess vegna getur séra Jón prímus fundið lífi sínu öruggt skjól
í sköpunarverkinu sjálfu og sagt: „Eg tek það gilt.“5 Að hans skilningi þarf
maðurinn ekki að bíða eftir boðskap utan úr geimnum eins og Godman
Sýngmann gerir, heldur er lausnin fólgin í og búandi í sjálfu sköpunarverkinu,
tilverunni sjálfri, því er tal hans um liljur vallarins eins og viðlag allt verkið út í
gegn. En hins vegar þarf skáldskapinn til þess að opna sköpunarverkið, ljúka
upp hinum leysandi svörum, og því segir séra Jón prímus einnig þetta: „Sá sem
ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni“.6 Og hér minnir hann óneitan-
lega á Ólaf Kárason þótt áratugir skilji þessi verk að. Ólafur segir: „Skáldskap-
urinn er endurlausnari okkar allra“ (II, 199); oftar en einu sinni endurtekur
Ólafur þessa setningu. Skv. þessu viðhorfi hefur tilveran sjálf fólginn í sér
lykilinn að sönnum skilningi á tilveru mannsins.
Halldór Laxness hefur sett fram þá skoðun að heimur skáldsögunnar sé
heill, óháður og sjálfbjarga.7 Skáldsagan lifi sínu eigin lífi, en hún sé ekki
ævintýri, hún auki engu við hinn sögulega, lifaða raunveruleika lífsins. Þess
vegna getur hann líka haldið því fram að skáldsagan sé í eðli sínu og hafi
upphaflega verið eins konar kronika, frásögn af markverðum tíðindum eða
10