Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Blaðsíða 30
Tímarit Máls og menningar
tveim konum, annars vegar hinni ungu og fögru Aglöju sem hann elskar ekki
síður en hún hann. Og hins vegar er svo hin vafasama Nastassja sem hann elskar
ekki en giftist af vorkunn, eins og hann segir. En sú vorkunn er upphaf ógæfu
hans sem endar með dauða þeirra beggja, auk tveggja vina þeirra. Dulcinea
Olafs Kárasonar, Bera, er hin skíra og hreina mynd fegurðarinnar. í vitund
Ólafs verður hún æ óraunverulegri og leysist nánast upp og rennur saman við
kraftbirtingarhljóminn og sólarljósið.
Þvi eru kveðjuorð hennar táknræn er hún segir við Ólaf: „Hugsaðu um mig
þegar þú ert í miklu sólskini“ (II, 272 og 280).
Tengsl Beru við hugmyndina um kvenmynd eilífðarinnar eru greinileg.
Þegar i æskuverki Laxness, Heiman eg fór, sem ritað er 1924 en fyrst gefið út
1952, birtist hugmyndin um kvenmynd eilífðarinnargreinilega, og er hugtakið
sjálft sem um er að ræða auk þess ritað á þýsku, sem gefur þá um leið uppruna
þess til kynna. Þar segir m.a. á þessa leið:
Svala, ég gleymi ekki augum þínum, móðurinni, meynni, eingilmyndinni í
augum þínum! Þú komst líkt og sjálf madonna, og einginn, sem viltist í myrkri
hefur blessað ljósið meir en ég minníng þína. Hafi ég verið til áður en heimurinn
var skapaður, þá hef ég elskað mynd eins og þína, lifandi ímynd desewig weiblichen,
helgikonu, sem heimurinn hefur ekki gefið neitt en Guð alt.20
Hér er konan engan veginn andstæðingur Guðs heldur birtist hún sem
madonna. Hugmyndin um kvenmynd eilífðarinnar er sterk hjá Göthe og kemur
m.a. fram í persónu Gretchen í Fást. En úr verkum Laxness mætti nefna mörg
dæmi um þessa hugmynd. Hér skulu tilfærð tvö, hið fyrra úr Kristnihaldi undir
Jökli og hið síðara úr Biekkukotsannál.
í Kristnihaldi undirjökli segir svo frá hugsunum Umba á einum stað: „Hver
em eg að hafa orðið fyrir þeim gjömíngum að rata á mynd sem Göthe leitaði að
en fann ekki, kvenmynd eilífðarinnar? ... Höfuðkonur veraldar mæla allar
við mig einum munni: María mey með jesúbútinn á hné sér; gullöld grikkja
með þvottakonuhnútinn og Venus úr Villensþorpi óbrotin .. ,“21 o.s.frv. í
Brekkukotsannál segir: „... ég mundi aldrei framar finna Blæ. Sú ein var í
rauninni sorg mín. Ég hafði svikið hina óholdteknu konu; konuna á himnum —
„eilífðina í kvenmannslíki“.“22 í Heimsljósi hugsar Ólafur einnig í samræmi við
þetta. Þar er ímynd konunnar hátt upphafin er Ólafur hugsar með sjálfum sér:
„lifandi form úngrar elskandi konu, það er lykillinn að sjálfri fegurðinni, undir-
ómurinn í skáldskap heimsins“ (I, 214). En Ólafur veit jafnframt, og í þeirri
fullvissu styrkist hann jafnt og þétt, að kvenmynd eilífðarinnar er aðeins til sem
20