Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Page 83
Um trú og vantrú
átrúnaði. Eða: trúðu íslendingar öldum saman á drauga og huldufólk eingöngu
vegna fáfræði og slælegrar tileinkunar á fagnaðarerindinu?
Eg er á því að þessu hafi verið þveröfugt farið: íslendingar trúðu á drauga og
huldufólk meðal annars vegna þess hvað þeir voru vel upplýstir og innlifaðir
trúarsetningum kristninnar.
í seinni tíð er algengt að sjá kristni skilgreinda sem imitatio Christi, breytni
eftir Kristi. Páll segir til dæmis: „Sjálfur tel ég eðlilegast að lita svo á að sá einn
sé réttilega kallaður kristinn maður sem tekur mið af fordæmi Jesú Krists og
skoðar lífið og tilveruna sífellt í ljósi helgisögunnar um hann.“ Þetta finnst mér
hæpin áhersla. Kjarni kristninnar sem og annarra trúarbragða er trú á guð (eða
guði). Og guð kristinna er ekki aðeins Kristur heldur faðirinn og heilagur andi,
semsé heilög þrenning. Því finnst mér nær að segja: sá einn er réttilega kallaður
kristinn maður sem játar og iðkar trú á þennan guð (þar sem fordæmi Krists og
helgisögnin um hann geta síðan skift miklu en þó aldrei öllu máli).
Um ríkidæmi þessarar guðshugmyndar þarf ekki að fjölyrða. En af tak-
mörkunum hennar verður hér drepið á tvö meginatriði sem ég tel víst að hafi
valdið nokkru um þjóðtrú íslendinga á seinni öldum.
Heilög þrenning er jafn rík af karleðli og hún er fátæk af kveneðli. Þar er
ekki öðru til að dreifa en tvíkynja eðli Krists sem er umdeilanlegt og engin
kirkja hefur gert mikið veður útaf. Þetta misgengi, eða vöntun á hinu kvenlega
í guðsmyndinni, kallaði á Maríudýrkun sem kaþólskir ástunda enn í dag. Með
henni hefur þeim samt ekki tekist að leysa vandann: María er og verður utan
guðsmyndarinnar, að meira eða minna leyti skurðgoð sé hún dýrkuð. En þeir
hafa ekki heldur flúið vandann. Er skemmst að minnast þess þegar Píus páfi
hinn tólfti lét árið 1950 bréf út ganga um uppstigningu Maríu; þar sameinaðist
hún syninum sem brúður og guðdóminum sem Soffía (viskan) í hinni him-
nesku brúðardyngju. Með þessu var hin kvenlega frumregla komin eins nálægt
hinni karllegu þrenningu og mögulegt var. Þetta finnst mótmælendum fárán-
legt og skopast jafnvel að því. Þeir virðast sáttir við karleðli guðs síns. Hjá þeim
verður María líka hornreka.
Annað einkenni kristins átrúnaðar er ófrávíkjanlegur aðskilnaður góðs og
ills. Guð er ekki aðeins góður heldur algóður og allt hið illa er handan hans.
Fulltrúi ljóssins á enga samleið með fulltrúa myrkursins. Himnaríki og helvíti
eru tveir aðgreindir heimar. Og í hjörtum manna er hið góða jafn æskilegt og
hið illa er óæskilegt.
Þessi tvíhyggja hefur heldur en ekki reynst kristnum mönnum seigur biti í
hálsi, sem meðal annars má sjá af baksi þeirra með hinn lausbeislaða djöful.
73