Tímarit Máls og menningar - 01.09.1991, Qupperneq 79
„Allur tími líður, hægt,“ svarar röddin aftur.
Dóttir vitavarðarins reynir að dæla sjó upp úr líkinu með því að þrýsta
á velktan brjóstkassann og segir: „Til að finna mammút í túndrunni þarf
pólarskipti.“
„Þá þarf mammút,“ segir röddin.
Sjófuglinn flýgur upp og alda fellur að með þunga.
Vitavörðurinn hefur tygjað sig. Það er kaffilykt í vitanum og skákin
er komin í bið. Fyrir vel skyggnt fólk má sjá að hann þefar af veðrinu um
leið og hann kemur út undir bert loft.
Hestur hans rauðblesóttur stendur bundinn við hestastein. Hann beisl-
ar hestinn og leggur á hnakk. Síðan fer hann ríðandi á fjörunni í land.
Dóttir hans veifar honum en hann veifar ekki aftur.
Hún missir áhuga á líkinu og gengur áfram. Fleiri sjórekin lík liggja
á víð og dreif. Á hverjum morgni fór dóttir vitavarðarins niður í fjöru til
að vita hvort hún fyndi lífsmark með drukknuðum sjómönnum, sem rak
á land á hverri nóttu. Marétin lík sjómannanna lágu með brostin augu,
flækt í neti fiskanna. Hún fór um fjöruna sannfærð um eitthvert takmark.
Þá dag einn rak hann á land.
Vitavörðurinn glottir með sjálfum sér og tekur upp pípu sína. Svo er
hann horfinn erinda sinna.
Dóttir vitavarðarins hefur fundið lifandi mann. Þau horfast í augu
forviða. Netið liggur allt í kring, með hrúðurkörlum, þöngulhausum,
skeljum, bobbingum og fiskum sem höfðu kafnað. Hann er illa leikinn
og flæktur.
Dóttir vitavarðarins vaknar upp með andfælum í rúminu sínu.
Vitaljósið blikkar í sömu andrá og herbergið lýsist upp einsog í
þrumuveðri. Hún heyrir föður sinn tuldra upp úr svefninum: „Netið lá
alltíkring með hrúðurkörlum, þöngulhausum, skeljum, kuðungum, bobb-
ingum og fiskum sem höfðu kafnað. Hann var illa leikinn og . . . þegar
hún vaknaði horfðust þau í augu.“
Maðurinn í netinu í fjörunni starir á stúlkuna og segir:
„Hvað dreymdi þig?“
„Draumar eru kvikmyndir,“ svarar hún.
„Kvikmyndir frelsa engan,“ segir hann.
„Hvenær fáum við annan skilning á draumum?“ spyr hún.
„Þú verður að leysa mig, þú hefur fundið mig.“
TMM 1991:3
77