Tímarit Máls og menningar - 01.03.1998, Page 54
BIRNA BJARNADÓTTIR
kallaður fyrsti nútímamaðurinn, vill skrifa öðruvísi biblíu, bók sem gefur
lesanda tækifæri til að túlka í frelsi hugsunarinnar einhvern sannleika um
sig.23 Hér verður ekki farið nánar út í það atriði, en svo virðist sem einstaka
núlifandi höfundur eigi sér sambærilega ósk, hvort heldur fyrir sig eða aðra
þátttakendur. í samtalsbókinni Guðbergur Bergssoti metsölubók má lesa eft-
irfarandi brot:
Enginn skilur skáldverk. Það er ekki um það að ræða að finna „feg-
urðina“ í því, lykilinn, hina réttu mynd, það sem höfundurinn á við
í raun og veru eða réttan skilning, heldur er skáldskapur og listaverkið
tæki sem lesandinn fær til að túlka eða til að móta og skilgreina.24
Þeir arftakar Ágústínusar í hugsun sem þegar hefur verið minnst á, höfúndar
eins og Kierkegaard og Nietzsche, virðast svara þessu margræða kalli. Af
ástríðu hugsunar spyrja þeir um möguleika handan viðvarandi blekkingar
og regluþrælkunar kenninga. f verkum Kierkegaards má t.d. lesa á stöku stað
um þá smekkleysu sem af getur hlotist, trúi maður án efasemda á möguleika
ástar og ábyrgðar, hvort heldur í mannheimum eða fræðunum um þá.25
Nietzsche virðist taka í sama streng, gangi hann ekki skrefi lengra. Hafi
siðferði og trú engan snertiflöt við raunveruleika manns í kristni (en slík er
sannfæring Nietzsches), verður fátt um fína drætti.26 Líkt og Ágústínus, þrá
þessir höfundar möguleika sköpunar. Kierkegaard bindur á stundum vonir
sínar við fagurfræðina, þessi trúlausu fræði sem skilja alla jafna við fólk
óhamingjusamt.27 Og Nietzsche talar um listræna sköpun í ást á því sem er.
í huga Nietzsches virðist slík ást þó bundin jafn erfiðum skilyrðum og hjá
Kierkegaard: Maður elskar ekki í raun fyrr en þörfin fyrir aðra manneskju
er úr sögunni.28
Hér er stiklað á stóru í tilvistarheimspeki þessara höfunda, en í stuttu máli
getur ein af spurningum verka þeirra hafa gengið aftur í fagurfræði okkar
tíma, sú sem snýr að hugsun um möguleika manns í tilfmningum og hvernig
maður lifir hana. Lífið, segir Guðbergur Bergsson á einum stað, er aðeins ill
nauðsyn fyrir þann sem fæðist. Og skáldskapurinn?
Um skáldskapinn hjá mér gegnir svipuðu máli og lífið: ef mannveran
gæti valið einhvern annan vettvang fyrir skynjanir sínar eða heild en
lífið sem hún lifir,þá mundi hún velja hann og hafna lífinu. [...] Þess
vegna segi ég, að til allrar hamingju fyrir tilfinningar mínar finnst mér
líkt og ég sé lifandi dauður í senn.29
Ég veit ekki hver hamingjan er, önnur en áffamhaldandi hugsun um mögu-
leika tilfinninga. Og slíkur getur fundurinn verið í berstrípaðri þátttöku. Nú
44
TMM 1998:1