Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 25

Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 25
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 24(1) 2015 25 lOFTUr gUTTOrmssOn uppeldisfræði verða að skipa miklu meira rúm í námi kennaraefna en fyrr og vera uppistaða námsefnis skólans … Í öðrum greinum þarf að gæta hagnýtra efnistaka og tengsla við kennslufræði.“ (Túlkun á markmiðum grunnskólans, 1978, bls. 3). Þetta helgaðist að sögn af því að uppeldishlutverkið ætti að vera aðalhlutverk verðandi kennara. Samstarfsnefndin féllst á framlögð plögg sem stefnumótandi umræðugrundvöll. Á þeim grunni var fjallað á nokkrum fundum um æskilega uppbyggingu kennara- námsins. Nefndarmenn voru á einu máli um að byggja kjarnanámið upp að verulegu leyti sem samþætt þemu líkt og fulltrúi uppeldisskorar hafði lagt til. Fulltrúar nem- enda mæltu aftur á móti með meiri sveigjanleika og rýmra valfrelsi þeim til handa. Hugmyndir þeirra gengu „mun lengra í átt til nemendastýringar á náminu þannig að nemendur eða hópar þeirra geti valið þemu eftir áhuga og þörf en að valið sé ekki eingöngu bundið við val á milli fastákveðinna efnisþátta innan fasts og fyrirfram ákveðins tema“ (Guðbjörg Pálsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 1978, bls. 63). Rétt er þó að taka fram að fulltrúar nemenda lögðu misþunga áherslu á þetta atriði. Kennarar töldu valfrelsismöguleika takmarkast af því að KHÍ, stofnun sem veitti starfsréttindi, kæmist ekki hjá því að gera ákveðnar formlegar kröfur sem allir yrðu að hlíta. Ekki voru nefndarmenn heldur á eitt sáttir um hversu náið væri hægt, að svo stöddu, að tengja valgreinarnar þemum kjarnanámsins (Loftur Guttormsson, 1975–1978). Nem- endur álitu mögulegt að breyta stöðu þeirra í grundvallaratriðum, jafnhliða kjarna- þáttunum, en kennarar töldu hyggilegra að hrófla lítið við þeim meðan unnið væri að breytingum á kjarnaþáttum námsins. Aftur á móti var enginn ágreiningur um að gæta þyrfti mun betur kennslu- og uppeldisfræðilegra sjónarmiða í valgreinakennslunni en gert hefði verið. Þótt nokkuð bæri á milli hafði nú skapast allgóð samstaða með nemendum og kennurum í samstarfsnefndinni. Þótti því tímabært að efna til ráðstefnu, áður en skóla lyki, um breytingahugmyndir hennar sem og um skólann sem stofnun, hlutverk hans og starfshætti (Ráðstefna í KHÍ 28.–29. apríl 1978). Skólamálahópur sótti um leyfi til að halda slíka ráðstefnu innan veggja skólans. Var á það fallist af skólaráði og ákveðið að kennsla félli niður föstudaginn 28. apríl svo að þátttaka nemenda og kennara mætti verða sem almennust (ÞÍ. Skólaráðsfundur 19.4. 1978, bls. 184). Á ráðstefnunni gerðu fulltrúar í samstarfsnefndinni grein fyrir þeim nýbreytni- hugmyndum sem höfðu mótast í starfi hennar, bæði varðandi innbyrðis tengsl hinna ýmsu hluta kennaranámsins og efnislega uppistöðu þemans Skóli og samfélag. Þrír framsögumenn, Haukur Viggósson, Loftur Guttormsson og Rúnar Sigþórsson, lögðu út af grófum yfirlitum yfir þetta þema. Voru þessi efni og önnur skólapólitísk málefni rædd í víðu samhengi í minni hópum og á sameiginlegum fundum, m.a. með þátt- töku ýmissa þekktra skólamanna og starfsmanna skólarannsóknardeildar (Ráðstefna í KHÍ 28.–29. apr. 1978). Ekki kom fram andstaða gegn meginsjónarmiðum samstarfs- nefndar en meiningar voru nokkuð deildar um ýmsar forsendur hennar. Að sögn Guðbjargar Pálsdóttur og Rúnars Sigþórssonar (1978, bls. 63) lýsti hluti kennara sig andvígan samantekt nemenda á markmiðum grunnskólans. En ráðstefnan var fjölsótt og að mati aðstandenda hennar tókst hún vel.

x

Uppeldi og menntun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Uppeldi og menntun
https://timarit.is/publication/581

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.