Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Side 27

Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Side 27
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 24(1) 2015 27 lOFTUr gUTTOrmssOn Nemendur voru sóknar- og frumkvæðisaðili í ákafri innanhússumræðu veturinn 1977–1978 en viðbrögð meirihluta kennara einkenndust, einkum framan af, af sjálfs- varnarblandinni tregðu. Með nýbreytnihugmyndum nemenda var líka hróflað við grunnþáttum í hefðbundinni ímynd háskólakennara sem lektorarnir í KHÍ höfðu smám saman reynt að tileinka sér. Fylgi við þær gat kostað kennara endurmat á bæði félagsfestum og persónulegum viðhorfum – ferli sem er í eðli sínu hæggengt. Að hluta má rekja ýfingar þær sem urðu með nemendum og kennurum til þessara aðstæðna en að öðru leyti til þess að sú nýskipan kennsluhátta sem var á dagskrá fól í sér átök um völd og áhrif. Sem „lögmætur“ valdhafi í skólastofunni (í hefðbundnum skilningi) voru kennarar ekki reiðubúnir til þess að veita nemendum svo mikið valfrelsi innan ramma þemanáms sem ýmsir oddvitar hinna síðarnefndu kölluðu á. Við því hefði mátt búast að fyrirliðar nemendaandófsins í KHÍ skynjuðu baráttu sína sem lið í „uppreisn æskunnar“ sem var meginþáttur í 1968-hreyfingunni og birt- ist hér á landi í ýmsum myndum á fyrri helmingi áttunda áratugarins (Gestur Guð- mundsson og Kristín Ólafsdóttir, 1987, bls. 189–222). Þetta kemur þó ekki skýrt fram í boðskap þeirra, ólíkt því sem gerðist í Háskóla Íslands þar sem nemendaandófið hafði á sér mjög róttækan pólitískan blæ (Jón Árni Friðjónsson, 2013, bls. 232–238). Almenna, pólitíska róttækni má vissulega greina á fyrra stigi andófsins í KHÍ hjá nokkrum fyrirliðum nemenda en á seinna stigi þess, frá 1977 að telja, var róttæknin að mestu leyti bundin við hinn uppeldis- og kennslufræðilega boðskap þeirra. Á þessu seinna stigi tengdu fyrirliðarnir baráttu sína í fæstum tilvikum við róttækan pólitískan boðskap enda hafði þá fjarað mjög undan 1968-hreyfingunni hér á landi sem annars staðar. Nýbreytnistarfið, sem hófst af fullum krafti veturinn 1977–1978, fór að mestu leyti fram til hliðar við stjórnunarstofnanir skólans, skólaráð og skólastjórn; þar af leið- andi er markmiða og inntaks þess að litlu getið í opinberum stjórnsýslugögnum. Segja má að samstarfsnefndin, sem skipuð var fulltrúum kennara og nemenda, hafi starfað fremur með vitund skólastjórnar en á ábyrgð hennar. Hversu einróma skólastjórn féllst vorið 1978 á tillögur nefndarinnar er til vitnis um að einmitt vegna hægagangs- ins í starfi hennar hafði kennurum og nemendum gefist ráðrúm til að samræma sjón- armið sín og skapa modus vivendi – bráðabirgðasamkomulag á nýjum grunni. Þessi reynsla varð á næstu misserum aflvaki áframhaldandi breytinga- og þróunarstarfs sem festi smám saman í sessi sjónarmið framsækinnar uppeldisfræði við KHÍ. Mikinn þátt í þessu átti líka að þegar kom fram á níunda áratuginn fjölgaði í kennaraliði KHÍ þeim sem höfðu verið beinir þátttakendur í hinni fjölþættu nýbreytnistarfsemi skóla- rannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 1991, bls. 214–215). Þegar á allt er litið má halda því fram að hin upphaflega stefna stjórn- valda, að gerðar skyldu samhliða endurbætur á almennri grunnmenntun í landinu og almennri kennaramenntun, hafi verið komin á góðan rekspöl kringum 1980. Hvað kennaramenntunina áhrærir er harla ólíklegt að þetta hefði gerst ef ekki hefði komið til andóf og barátta nemenda í KHÍ á síðari helmingi áttunda áratugarins.

x

Uppeldi og menntun

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Uppeldi og menntun
https://timarit.is/publication/581

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.