Uppeldi og menntun - 01.06.2015, Page 41
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 24(1) 2015 41
hAnnA rAgnArsdóTTir
þú segðir okkur sem mest frá sjálfri þér, hvað gengur vel og hvað ekki jafn vel. Við
höldum að samtalið taki um það bil hálfa klukkustund. Við hljóðritum samtalið og
vélritum það svo á eftir. Svo lesum við það og notum upplýsingarnar í rannsókninni.
Þú ræður alveg hvort þú vilt tala við okkur. Þú mátt alveg segja nei þótt pabbi þinn
og mamma taki þátt í rannsókninni. Þú mátt líka hætta seinna þótt þú talir eitthvað
við okkur. Ef þú vilt taka þátt og tala við okkur ertu beðin að skrifa nafnið þitt hér
fyrir neðan.
Viðtölin við börnin fóru fram á heimilum þeirra. Leitast var við að skapa notalegar að-
stæður fyrir börnin. Þau fengu liti og blöð og var m.a. boðið að teikna meðan á viðtali
stóð. Að loknu viðtali fengu börnin litla gjöf sem þakklætisvott. Foreldrar voru heima
en í öðrum herbergjum til að skapa gott næði fyrir börnin til að tjá sig. Í viðtölunum við
börnin var einkum rætt um ættleiðinguna og kjörfjölskyldurnar, skóla og frístundir,
vini og áhugamál og tengsl við upprunalandið.
Enn fremur voru tekin símaviðtöl við umsjónarkennara allra barnanna vor og haust
2012 til að fá upplýsingar um skólagöngu barnanna og námsframvindu. Kennararnir
voru spurðir hvernig börnunum hefði gengið í námi og félagslega og hvernig þeir
teldu að þeim myndi vegna í framtíðinni.
Loks var vorið 2012 tekið rýnihópsviðtal við hóp stúlkna sem höfðu farið saman
til upprunalands síns. Í viðtalinu, sem fram fór á heimili einnar stúlkunnar, voru þær
beðnar að segja frá reynslu sinni af ferðalaginu til upprunalandsins.
Öll viðtölin voru hljóðrituð og afrituð. Til að gæta persónuverndar og trúnaðar
við þátttakendur var öllum nöfnum sleppt í umfjöllun um niðurstöður. Viðtölin voru
lesin margsinnis til að fá sem besta innsýn í þau og dregin út áhugaverð atriði, þau
borin saman og fundin þemu (Flick, 2006; Kvale, 1996). Þar sem um fámennan hóp er
að ræða er greint frá niðurstöðum með nokkuð almennum hætti og eingöngu dregnar
fram helstu niðurstöður. Þetta er gert til að leitast við að tryggja trúnað við þátttak-
endur.
niÐUrstÖÐUr
Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu þemum sem fram komu í viðtölunum við börnin
og kennarana og athygli beint að því sem er sameiginlegt og ólíkt í reynslu barnanna.
Þemun eru eftirfarandi: Ættleiðingin og kjörfjölskyldan; skólinn; útlit og uppruni; frí-
stundastarf, áhugamál og vinátta; og sjálfsmynd, tengsl við upprunaland og fram-
tíðarsýn. Einnig er sérstakur kafli þar sem dregnar eru saman helstu niðurstöður úr
viðtölum við kennarana. Þá er greint frá niðurstöðum hópviðtalsins í sérstökum kafla.
Ættleiðingin og kjörfjölskyldan
Börnin vissu öll að þau voru ættleidd og gátu rætt nokkuð um uppruna sinn. Sum
vissu hvar þau höfðu fundist í upprunalandinu og nokkur höfðu þegar heimsótt þá
staði aftur. Börnin mundu ekki eftir upprunalandinu en kjörforeldrarnir höfðu allir
rætt upprunann við börnin sín, mismikið þó. Sum veltu fyrir sér hvar foreldrar þeirra