Reykjalundur - 01.06.1968, Qupperneq 29
heyrði okkur hafa slíkt um hönd. Eru tvö atvik
mér ríkust í minni, hvað þetta snertir.
Eitt sinn hafði ég fengið að láni mjög ómerki-
lega og illa þýdda franska glæpasögu. En nógu
var hún æsandi. En einhvern bifur hafði ég þó
af því, að ekki mundi pabba líka hún og ætlaði
því að lesa hana á laun. Ég var þá innan við
10 ára aldur. Þegar faðir minn var farinn út til
verka, settist ég því við bókina. Ég valdi mér
stað í auðu rúmi við baðstofudyr. í því voru
engin rúmföt, aðeins gæruskinn í botninum. Rúm-
hríkurnar voru háar og skárust því upp í hnés-
bælurnar, en fæturnir náðu ekki á gólf niður.
Það fór því ekki sérlega vel um mig, en ég
gleymdi bæði stað og stund. Vissi því ekki fvrri
til en faðir minn vatt sér inn, þegar ég var kom-
in fram í miðja bók. Pabbi tók af mér bókina
að vanda, til að athuga, hvaða bókmenntir ég
hefði nú með höndum. Hann blaðaði í henni
alllengi að mér fannst, þar sem ég sat og nagaði
mig í handarbökin. — Nú tekur hann auðvitað
bókina af mér og svo fæ ég snuprur í þokkabót,
-hugsaði ég með mér. En svo reyndist ekki. Fað-
ir minn rétti mér bókina aftur, opna á sama stað
og áður, og mælti með þungri áherzlu: „Það
skaltu vita, barnið mitt, að þeir, sem vilja heita
menntaðir menn, eyða ekki tíma í lestur svona
lagaðra bóka. En þú virðist ætla að fara að sjá
um þína menntun sjálf“. Að svo mæltu gekk
hann á braut. Ég sat eftir á rúmstokknum og orð
hans fóru eldi um sál mína. Þeir, sem vilja heita
menntaðir menn! Verri löðrung hef ég ekki á
ævi minni fengið. Ég sat með opna bókina, en
stafirnir dönsuðu fyrir augum mér. Ekki hafði
ég þá hugmynd um aðra menntun en bókmennt-
un. En einhvern tíma hafði ég heyrt föður minn
skilgreina hugtakið þannig, að það að vera
mennlaður þýddi það að vera manni líkur. Og
á æskuárum var mín heitasta þrá einmitt sú
að komast í tölu skólamenntaðra manna. Nú er
skipt þar um, en það er önnur saga. Nú finnst
mér mest um þá menntun vert, er ég hef nefnt
lífsvit. En hún byggist á því, að maðurinn sé svo
vel gerður, að hann kunni að taka þeim þroska,
sem lífið sjálft veitir, hvort sem hann er lærður
eða leikur. En þetta var nú útúrdúr.
Ég var líka nýbúin að læra kvæðið hans Hall-
gríms: Ungum er það allra bezt. — Það var for-
skrift í skrifbókinni hans Jóns Þórarinssonar.
Og þar varð þetta erindi mér ríkast í minni:
Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra.
En þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjózkast við að læra.
Já, mikið skelfing hlaut það að koma sér illa
að vera latur að læra. Því að ekki var ég orðin
svo þroskuð að skilja það, að vankunnátta gæti
stafað af öðru en leti og kæruleysi. Og með þessu
framhaldi átti ég á hættu að verða svo heimsk,
að menntuðu fólki þætti ég ekki viðmælandi!
Það var hræðileg tilhugsun, enda hvarf mér í
einu vetfangi öll löngun til bókarinnar. Ég lét
hana niður í kistil og skilaði henni við fyrsta
tækifæri. Ég hef aldrei lokið við hana og mundi
ekki gera það, þótt ég ætti kost á því. Eftir þetta
fór ég að reyna af veikum mætti að leggja þann
mælikvarða á bækur, hvort þær myndu við hæfi
„menntaðs“ fólks eða ekki.
í annað skipti vorum við að koma fyrir heyi
í Ytri-húsahlöðunni. Þá mun ég hafa verið 10-
12 ára. Ég studdi sáturnar, en faðir minn hlóð
úr. Ég hafði nýlega kynnzt heldri manns dóttur,
og var hún ofurlítið flámælt. Ég vildi auðvitað
líkjast henni í öllu og fór að temja mér að tala
þannig. Nú varð mér á að segja eitthvað svo
syngjandi flámælt, að það kvað við. Faðir minn
vann öll störf af stökustu snyrtimennsku. Nú
kippti hann reipunum undan sátunni svo snöggt,
að hún steyptist yfir mig og hafði eftir mér orð-
ið og bætti við byrstur: „Hvers konar mál tal-
arðu, barn?“ Ég fann að þarna hlaut að vera
iagleg pólskekkja hjá mér og varð orðvana. Ég
tautaði eitthvað um að hann Brúnn væri að fara
til ógagns úti á túni og tók sprettinn út fyrir hól
til að losna við að svara. En aumingja Brúnn
var alsaklaus.
Fleiri dæmi gæti ég nefnt, en þessi tvö eru mér
svo rik í minni, að ég gleymi þeim aldrei.
REYKJALUNDUR
27