Húnavaka - 01.05.1963, Page 20
18
HÚNAVAKA
— Nei, það kann ég ekki að hugsa. Allt nám þroskar manninn.
Ég veit ekki hvort Gesti hefðu orðið þau ár, sem hann hefur varið
til náms, notadrýgri á annan hátt.
— Þú álítur þá menntun nauðsynlega?
— Já, mitt álit er, að skólaganga sé ungu fólki öllu framar nauð-
syn. Ég sé ákaflega litla möguleika til þess fyrir ungt fólk nú á tím-
um, að njóta sín til fulls án menntunar og skólagöngu.
— Mér er sagt að þú hafir verið hér einbúi vetrarlangt, Eysteinn.
Var það ekki erfitt?
— Nei, ekki var það.
— Leiddist þér?
— Nei, ég vil heldur vera einn en með leiðinlegu fólki. Ég hafði
alltaf nóg að lesa, og svo talaði ég þá bara við sjálfan mig.
— Varstu aldrei var við neinn slæðing í einverunni?
— Nei, lítið var um það. — Sennilega enginn viljað hafa sálu-
félag við mig. Líklegast er ég of jarðbundinn.
— Telur þú þig ekki Vatnsdæling, Eysteinn?
— Jú, vitanlega — en þó eiga Ásarnir skratti mikil ítök í mér.
Það var, skal ég segja þér, ansi mikið þar af ágætu fólki — en það
er nú flest dáið eða burtflutt núna.
Og þá er hér kominn Gestur Eysteinsson lögfræðingur.
— Faðir þinn segir mér að þú sért að hugsa til búskapar hér,
Gestur. Hvað segir þú um það?
— Ekkert. Ég hef ekkert að segja.
— Þú stundaðir langskólanám?
— Mér gekk illa við nám. Ég hugsa að ég hafi lesið allt annað
en ég átti að lesa.
Hefðir þú þá ekki átt að læra eitthvað annað?
— Nei, ég lærði akkurat það sem ég átti að læra.
— Hvað þá um búskapinn?
— Jú, ég hef gaman af þessu. Veit þó ekki hvað ég á margar roll-
ur. Ennþá er hugurinn hálfur í Reykjavík og hálfur hér. En að
þessu hér hef ég unnið markvisst í mörg ár.
Faðir minn heldur að ég geri lítið úr sér, en það er síður en svo.
Honum finnst ég hafa látið í ljósi, að hann væri skyldur sínum bú-
peningi, en það er mitt álit að enginn geti verið góður bóndi án
þess að finna til með sínum búpeningi.
— Og þú sjálfur, býst þú við að hafa þessa eiginleika?