Són - 01.01.2008, Síða 16
HELGI SKÚLI KJARTANSSON16
Og hvað með það? Er ekki eðlilegt að góð skáld fái góðar hug-
myndir, og þá sömu hugmyndirnar þegar svo vill verkast?
Jú, víst getur það verið eðlilegt, vel hugsanlegt að einhver líkindi
með Helgakviðu og Ljóðaljóðunum verði til án nokkurra textatengsla
eða áhrifa, hvorki frá öðru kvæðinu á hitt né frá sameiginlegri fyrir-
mynd. Þá er það kannski einmitt í máli hinnar stórbrotnu og elskandi
valkyrju sem vænta má líkinga við tilfinningaþrunginn ástarkveðskap
Gamla testamentisins. Líkindin eru þó allveruleg og mjög af því tagi
sem oft er bent á til vitnis um áhrif eins texta á annan. Svo að spurn-
inguna um áhrif hljóta þau að vekja.
Það er spurning sem ég tel enga leið að svara með neinni vissu,
heldur verði bara að lifa með óvissunni, taka báða möguleikana með
í hvern reikning. Hvort ég reikna fremur eða síður með áhrifum –
þ.e. hvort ég met líkurnar á þeim yfir eða undir 50% – það kemur
málinu eiginlega ekki við. Ég kann enga aðferð við slíkt mat sem
lesendur greinarinnar þurfi að taka gilda. Og jafnvel þótt lesendur
féllust á að telja annan kostinn mun líklegri en hinn – kannski 60 eða
70% á móti 40 eða 30 – dygði það ekki til að slá honum föstum,
ganga út frá honum framvegis en afskrifa hinn.13 Nei, engu að síður
yrði að miða við báða möguleikana, hugsa hvað eina eftir tveim
mögulegum brautum.
Af spurningunni um áhrif hljóta að kvikna tvær nýjar: Hve
gömul er eiginlega Helgakviða? Og hve snemma höfðu ný-kristnir
Norðurlandabúar kynnst Ljóðaljóðunum að því gagni að hug-
myndir þeirra og orðalag gæti farið að síast inn í þjóðtungu-
kveðskapinn? Líkurnar fyrir textatengslum eru út af fyrir sig rök
fyrir ungum aldri kviðunnar og skjótum kynnum af Ljóðaljóð-
unum. Hins vegar myndu önnur rök fyrir háum aldri Helgakviðu
eða seinum kynnum af Ljóðaljóðunum benda til þess að ekki sé um
áhrif að ræða.
13 Ef við hefðum það að reglu í bókmenntafræðinni að 70% líkur dygðu til að draga
ályktun eða fallast á kenningu, þá væri býsna varhugavert að byggja eina ályktun
á annarri. Ef hægt er að telja 70% líkur til að kenning A standist, og að henni
gefinni 70% líkur á að kenning B sé rétt, þá þýðir það í rauninni að kenning B sé
ekki síður röng en rétt (ekki nema 49% líkur á að hún sé rétt af því að 70% af 70%
eru 49%). Hvað þá ef svo er haldið áfram með kenningu C o.s.frv.