Són - 01.01.2008, Síða 57
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 57
bagsa“.34 En hún er öðruvísi en allir aðrir og á ekki samleið með
neinum, ekki heldur þeim konum sem hún leitar samstöðu með. Hún
finnur sér hvergi stað og það er skýringin á því að hún giftir sig,
skelfingu lostin yfir hjónabandinu og þeirri frelsisskerðingu sem því
fylgir:35
En hamingjan góða, hve hrædd var ég þá,
er hjúskaparböndin mig lögð voru á.
Hún er hins vegar svo heppin að eiginmaðurinn gerir ekki kröfu til
hennar sem eiginkonu, heldur verður „fóstri“ hennar, og hjá honum
finnur hún þann samastað sem hún leitaði að. Hjónabandið er kyn-
laust og Ólöf eignast ekki börn. Í ævikvæðinu koma ljóðin í staðinn,
myndhverfð sem börn, getin og fædd í hugsun. Þannig gerir hún sig
á vissan hátt að móður. Þegar hún hefur sagt frá útliti sínu eins og það
kemur öðrum fyrir sjónir treystir hún sér ekki til að lýsa sér nánar en
segir eins og eftir því sé spurt:36
En svip mínum get ég ei sagt þér frá,
ég setti hann hugsanabörnin mín á.
Á ljóðunum kannski lifir hann,
þar líka þá sérðu minn innra mann.
Útlitið er ekki það sem öllu skiptir, heldur innri maðurinn, hugsanir
hennar, tilfinningar og þrár. Það er saga þeirra sem hún vill segja og
vonast til að lifi áfram í ljóðum hennar, börnunum, en það verður
bara „kannski“. Svo til öll ljóð Ólafar eru sjálfsævisöguleg. Hún veltir
mikið fyrir sér lífi sínu sem hún tengir ævinlega skáldskapnum og
sjálfri sér að skrifa. Í ljóðinu „Ég hef enga vissu“, einnig frá árinu
1900 og birt löngu eftir hennar dag, rímar hún eins og Una sagnirnar
að skrifa og lifa, en bætir við þriðju sögninni: að elska. Líkt og í
ævikvæðinu leitar Ólöf upprunans í fæðingunni, en ljóðið fjallar
einnig um sjálft sig, um skáldkonuna að yrkja það, og kveikja þess er
ævi hennar sjálfrar: 37
34 Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum 1945:62.
35 Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum 1945:63.
36 Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum 1945:61.
37 Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum 1945:59–60. Eins og ævikvæðið hefur þetta kvæði
verið stytt í útgáfunni, klippt aftan af því, með þeim afleiðingum að fyrirsögnin
verður óskiljanleg, kallast ekki á við neitt.