Són - 01.01.2008, Page 63
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 63
þann, er lýtur að heimilisstjórn og barnauppeldi“.59 Æskuvinkonan er
sem sagt skáldkona þótt ekki sé hún kölluð það. Eins og aðrar skáld-
konur fer hún bæði í felur með skáldskap sinn og gerir lítið úr
honum, enda ekkert á því að láta frá sér vísurnar:
„Þú vilt fá stökur, nei hægan, hjá mér er nú ekkert að hafa af því
taginu, og þó eitthvað hrykki upp úr mér, ætti ég síst að trúa þér
fyrir því, sem ert til með að prenta allt saman, mér til angurs og
skollanum og misjöfnu fólki til skemmtunar.“60
Theodora hefur nefnilega fengið hjá henni vísur áður og stolist til að
birta. Það gerði hún í vísnaþættinum „Ofan úr sveitum“ sem birtist í
Skírni árið 1913 með undirfyrirsögninni „Nokkrar stökur kveðnar af
sveitakonum“. Þar segir hún í eftirmála að vísurnar sem hún hafi
þarna „skráð“ séu allar vestfirskar að uppruna en höfunda hafi hún
ekki getið því að bæði geri hún ráð fyrir „að mönnum þyki sem svona
stökur hafi lítið bókmenntalegt gildi“ og einnig að „þær af höf.“ sem
enn séu á lífi myndu kunna sér óþökk eina ef hún nefndi nöfn
þeirra. „Eg býst við, að þeim þyki það meira en nóg dirfska að hafa
sett stökur þeirra á prent, þó eigi fylgi nöfnin með.“61
Það er athyglisvert að Theodora vísar til kvennanna sem „höf.“, og
það með írónískri skammstöfun,62 ekki sem skálda, og afsakar „stökur“
þeirra fyrirfram eins og þegar með ritdómara yfir höfði sér. Á hennar
tíma voru konur nefnilega ekki skáld, þótt þær væru það, heldur í hæsta
lagi hagyrðingar, og skáldskapur þeirra hagmælska. Eins og æskuvin-
konan í þætti Theodoru fóru þær í felur með skáldskap sinn og ef þær
birtu eitthvað af honum komu þær helst ekki fram undir nafni.
Þátturinn er mjög írónískur. Æskuvinkonan er augljóslega Theo-
dora sjálf, enda báðar skáld, og svo undrast vinkonan líka að Theo-
dora skuli geta veitt upp úr henni allt „sem annars er vant að liggja
ólaust fyrir öðrum“.63 Að því kemur líka að hún gefst upp og „snar-
ar“ í Theodoru nokkrum stökum sem hún segist hafa kveðið „í reiði“,
og dregur þar með á vissan hátt úr merkingu þeirra. Tilefnið er að
hún hafði komist yfir bók sem hún ætlaði að geyma sér til sunnudags,
59 Theodora Thoroddsen 1960:121.
60 Theodora Thoroddsen 1960:121.
61 Theodora Thoroddsen 1913:334. Sjá einnig Theodora Thoroddsen 1960:120.
62 Í útgáfu Sigurðar Nordals á þættinum er leyst úr skammstöfuninni og írónían því
þurrkuð út. Sjá Theodora Thoroddsen 1960:120.
63 Theodora Thoroddsen 1960:122.