Són - 01.01.2008, Page 87
Á MÖRKUM LAUSAMÁLS 87
orðahrynjandi (þar sem fjöldi áhersluatkvæða er fastur en fjöldi
áherslulausra breytilegur), og kafla með jambískri hrynjandi, þar sem
bæði fjöldi atkvæða og áhersla skiptir máli. Inn á milli séu grá svæði
þar sem skáldið kemst hvað næst fríljóðum: „the transitional passages
often having no underlying pattern that is at all easily analysable ... it
is in these passages that Eliot comes closest to writing real free
verse.“19 Í stað þess að sleppa bragarháttum alveg sækir hann innblást-
ur til fortíðarinnar og veitir sjálfum sér frelsi til að blanda saman mis-
munandi tegundum af hrynjandi, allt eftir þörfum textans.
Hluti af töfrum Eliots er lipurt málfar og leikur hans að bragnum
með fyrirvaralitlum breytingum í háttum og hrynjandi. Skáldið lætur
hrynjandi tungunnar leiða sig á milli skírskotana til ýmissa bragar-
hátta. Hættirnir eru sjálfir tílvísanir í hefðina,20 en skáldið eigrar um
þá á svipaðan hátt og hann leiðir saman tilvitnanir úr ýmsum áttum.
Þegar endarím kemur fyrir á það á mörgum stöðum að hljóma
„tilviljunarkennt“, eins og þegar mælandi verður allt í einu var við, að
það sem hann segir, rímar. Eliot hefur lýst hlutverki þess sem hann
kallar „auditory imagination“ eða hljóðrænt hugmyndaflug skáldsins
sem „penetrating far below the conscious levels of thought and feel-
ing, invigorating every word“21 en þessi lýsing á vel við hlutverk
hljóðmunstra í ljóðum Eliots sjálfs.22
„Hálfbundið“ mál Eliots er sérstök áskorun fyrir þýðanda. Ríkj-
andi venja á Íslandi er að þýða bundið mál „bragrétt“ að viðbættum
ljóðstöfum (en prósaþýðingar njóta meiri vinsælda í Bandaríkjunum,
a.m.k. hjá fræðimönnum). Þýðandi sem á annað borð ætlar að herma
eftir bragfræðilegu formi verksins neyðist til að ákveða hvenær t.d.
rím „skiptir máli“ þegar hann þýðir. Íslenska ljóðstafahefðin – þar
sem ljóðstafir eru enn „skyldubundnir“ í bundnu máli23 – bætir enn
einni áskoruninni við þær bragfræðilegu ákvarðanir sem þýðandi
verður að taka.
Sverrir leitast við að hafa þýðingarnar á mörkum bundins máls og
lausamáls eins og frumtextinn er. Hér bætist ljóðstafavíddin við hrynj-
andi og endarím sem merki um bundið mál. „Breyturnar“ fara stund-
um saman en geta einnig sýnt tilbrigði hver fyrir sig. Samkvæmt
flokkun Nigels Fabb tilheyrir endarím „expressed form“ (tjáðri mynd)
19 Bäckman (1993:186).
20 Sbr. umfjöllun Grünthal (1993) um finnska ljóðið Balladi eftir Tuomas Anhava.
21 Eliot (1933:118); tilvitnað eftir Bäckman (1993:182).
22 Bäckman (1993:182-183).
23 Sbr. Willson (2008).