Són - 01.01.2008, Page 150
HELGA BIRGISDÓTTIR150
Um form
Ljóð og textar ungu skáldanna virðast ekki síður snúast um sjónræna
eiginleika ljóðsins, og stundum hljóðræna, og skapast þannig tengst
við tónlist, myndlist og fleiri listgreinar. Sum ljóða þeirra virðast jafn-
vel miklu betur til þess fallin að vera lesin upp eða sýnd á striga en
vera lesin í hljóði eða notið í einrúmi.
Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum! eftir Eirík Örn Norðdahl er
ein þeirra bóka þar sem hið sjónræna og hljóðræna virðist stundum
skipta meira máli en tungumálið. Bókin samanstendur af fjölbreyttum
ljóðatilraunum á 200 blaðsíðum. Þarna er að finna hljóðljóð, löng
prósaljóð auk ljóða með allskonar ritvinnsluútfærslum, umbrotstil-
færslum, myndljóð, myndagátuljóð, konkretljóð, google-ljóð að
ógleymdum vísunum í Tímann og vatnið auk annars skáldskapar. Það
mætti jafnvel kalla bókina kennslubók í ljóðagerð, svo margir eru
bragarhættirnir og aðferðirnar sem skáldið notar.
Fyrsti hluti bókarinnar einkennist af framúrstefnulegum orðaleikj-
um en miðkaflinn inniheldur 46 prósaljóð sem segja sögu Guðmund-
ar Ljónshjarta Kjærnested skipstjóra í Þorskastríðinu en gerist engu
að síður í Reykjavík á óræðum tíma. Formtilraunir einkenna svo aftur
hlutann sem Haukur Már Helgason skrifar „miðmála“ að en loka-
hlutinn er tileinkaður Tímanum og vatninu og er endurvinnsla og
umbylting á honum. Eiríkur leikur sér að erlendum þýðingum text-
ans og þýðir þá til baka á íslensku samkvæmt hljómi þeirra en ekki
merkingu, t.d. í ljóðinu „Tíðin ok vattnet“ þar sem meðal annars
segir:80
Ok tíðin er sem ein bíld
sköpuð boða með vattnets
ok mínum pensildrag
Aðferðirnar sem skáldið notar eru nákvæmlega útskýrðar í athuga-
semdum aftarlega í bókinni en þetta tiltekna ljóð er hómófónísk
þýðing á sænskri þýðingu á fyrsta erindi Tímans og vatnsins. „Súblíma-
vatn“ er annað ljóð sem er bein vísun í Tímann og vatnið og er unnið
með þeim hætti að leitarorðin „Tíminn og vatnið“ voru slegin inn í
Google-leitarvélina, á nokkrum tungumálum, og skrifað var upp úr
80 Eiríkur Örn Norðdahl (2007a:182).