Són - 01.01.2008, Síða 154
HELGA BIRGISDÓTTIR154
Sumir yrkja hefðbundin ljóð, aðrir óhefðbundin og sum ljóð eru
stutt en önnur löng. Það er varla hægt að segja að eitt form sé ríkjan-
di frekar en annað þótt ekki sé heldur hægt að halda því fram að árið
2007 sé ár framúrstefnulegra formtilrauna. Við þekkjum öll þessi
form, eða könnumst við þau, en auðvitað spila skáldin sínum spilum
eins og þau lystir og verkin eru mörg hver ákaflega fjölbreytt að efni
og formi og áberandi er eins konar endurvinnsla á hefðinni – bæði
með tilliti til forms og hefðar.
Skáldin, sem kennd hafa verið við módernismann, t.d. Steinunn og
Gerður Kristný, standa sig vel og halda áfram á svipuðum eða sömu
brautum. Ljóð ungu og reiðu skáldanna, Nýhilinganna, Nykurmanna
og félaga þeirra, eru öðruvísi og hrárri. Þau eru dónalegri, óhreinni
og kaldhæðnari – en ekki endilega verri fyrir vikið. Þar er meiri leikur
að formi en hjá þeim sem reyndari eru; eitt skáldið notar meira að
segja „auto-summarize-fídusinn“ á Word-forritinu til að hjálpa sér að
semja ljóð!
Í þessu birtist kannski helsti munurinn á þeim „eldri“ og þeim
„yngri“. Skáld á borð við Þórarin Eldjárn hugsa um hvert orð og
vanda til verks, enda unna þau íslenskri tungu. Þórarinn segir sjálfur
að íslenskt mál skipti hann miklu máli, enda líti hann „fyrst og fremst
á [sig] sem áróðursmeistara fyrir íslenska tungu. Rithöfundur gerir
það fyrst og fremst með því að skrifa á íslensku og sýna að það er
hægt að gera allt á íslensku.“90 Nýhilmaðurinn Viðar Þorsteinsson
talar líka um íslenska tungu og viðurkennir að íslensk ljóðahefð hafi
alltaf „verið nátengd hugmyndinni um íslenska tungu og íslenskt
orðfæri, sögu, tunguna og forneskjulegt orðalag.“ Viðar minnist
módernistanna íslensku og segir þá ekki hafa farið jafn langt í formtil-
raunum og módernistar úti í hinum stóra heimi. Þessu vilji ungu
skáldin breyta – sækja til alþjóðlegra strauma þar sem lýrík
tungumálsins sé ekki endilega í forsæti, enda hafi list miklu víðari
skírskotun en einn málheimur íslenskunnar.91 Einhver mest áberandi
árásin á íslenskuna er örugglega „Stríðið gegn íslenskunni“92 eftir
Ingólf Gíslason sem er sett upp á myndrænan hátt eins og tölvuleikur.
Hjá eldri skáldunum er vissulega til siðs að leika sér að tungumálinu,
en það verður að vera innan vissra marka. Hjá yngri skáldunum er
leikurinn næstum orðinn skyldubundinn og því grófari, því betri.
90 Helgi Snær Sigurðsson (2007).
91 Bergþóra Jónsdóttir (2007).
92 Ingólfur Gíslason (2007:18).