Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Page 93
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
náð sæmilegum tökum á helstu efnisþáttum
á því sviði. Helsti styrkleiki hennar virðist
því einkum ná til inntaks fagsins og sérkenna
þess. En hún telur sig standa fremur illa að
vígi þegar kemur að kennsluaðferðum og
leiðum, einnig vali á gögnum og tækjum
til kennslu. Hún segist t.d. ekki vera fær í
að spyrja og halda uppi samræðum meðal
nemenda um efnið sem hún er að kenna:
„Spjall er nú ekki mikið … Maður þarf að
læra það, ég er ekki flink við það. Það fer út
og suður.“ Samt eru dæmi um athyglisverðar
kennsluaðferðir hjá henni, t.d. það sem hún
kallar „leikrit“ sem eru í raun áhugaverðar
sýnitilraunir með umræðu. Í kennslustund sem
rannsakendur fylgdust með vakti það athygli
að hún fór með heilan nemendahóp með sér
inn í stigahús í fjölbýlishúsi og gerði tilraun
með kraft, orku og hreyfingu. Saga segist
oft sjá brýna þörf á að hjálpa nemendum að
tengja og skilja, tekur dæmi um hitastig og
frostmark, allir nemendur hafi t.d. reynslu af
því þegar vatn frýs, en tengingin við aflestur
af hitamæli sé ótrúlega veik. Hún segir að sig
vanti hugmyndir að aðferðum og hún hafi t.d.
ekki náð tökum á að nýta sér Netið, kallar eftir
stuðningi frá kollegum: „…maður er svona
eyland, þá hefur maður engar hugmyndir
annars staðar frá.“ Samkvæmt flokkun Trausta
Þorsteinssonar á „ósjálfstæð fagmennska“
við þegar fagmanneskjan gerir sig háða ytri
skilyrðum og forskriftum og reynir að uppfylla
þau (bls. 192), en forðast að meta sjálfstætt og
„ákvarða hverjar þarfir nemenda eru og á hvern
hátt þeim skuli mætt“ (bls. 195). Saga tilheyrir
fyrst og fremst þeim flokki. Hún reynir að hafa
á valdi sínu góða þekkingu á faginu sem hún
kennir, lítur á sig sem uppfræðara fremur en
uppalanda og metur mikils sjálfstæði sitt sem
sérfræðings í skólastofunni.
Aðalsteinn telst einnig hafa tiltölulega
góða innihaldslega þekkingu, en afmarkaða
þó. Þegar hann er spurður hvort hann telji
sig hafa sterkan bakgrunn í greinum sínum,
eðlisfræði og stærðfræði, svarar hann: „Já,
svona miðað við aðra þá held ég að ég standi
ágætlega.“ Fagmennska hans tilheyrir sama
flokki og fagmennska Sögu. Hann lítur fyrst
og fremst á það sem hlutverk sitt að miðla
þekkingu og kunnáttu og meta árangurinn með
hefðbundnum aðferðum, síður að hafa áhyggjur
af séraðstæðum hvers nemanda, uppeldislegum
atriðum eða námslegum vandamálum.
Aðalsteinn stendur langt frá skilgreiningu
Trausta á hinni „samvirku fagmennsku“. Hann
segist til dæmis ekki þekkja til skipulags hjá
öðrum kennurum og ekki vera viss um hvort
gerð hafi verið heildstæð skólanámskrá fyrir
eðlisfræði í sínum skóla.
Ólína hafði nýlega lokið kennaranámi þegar
rannsóknin fór fram. Segja má að hún standi
einhvers staðar á milli hinnar „sjálfstæðu
fagmennsku“ og „ósjálfstæðu fagmennsku“.
Hún segist fylgja aðalnámskrá og þægilegt
sé að hafa skrifaða námsefnið sem uppistöðu,
en hún nýti sér samt það frelsi sem hún hafi
til að skipuleggja bæði tíma og efnistök í
náttúruvísindakennslu sinni: „Ég hef mjög
frjálsar hendur hérna í sambandi við hvað ég
geri og hvernig ég geri það, þannig að maður
er líka að taka þátt í að móta svolítið….“
Hún hefur greinilega skýrari hugmyndir um
mögulegar aðferðir og útfærslur í kennslu sinni
en Saga og Aðalsteinn og nauðsyn þess að láta
ekki beina kennslu stjórna ferðinni: „En hún
má aldrei vera stór partur af dæminu. Maður
verður að nálgast hlutina frá sem flestum
ólíkum hliðum.“
Jakob hefur haldgóða inntaksþekkingu á
öllum sviðum náttúruvísinda. Hann leggur
mikið upp úr því að nemendur skilji hvað þeir
eru að gera og segir að samræður og spjall skipti
sérlega miklu máli til að efla skilning nemenda
og hann leggur sig einnig fram um að spjalla
við nemendur sína utan formlegs skólatíma
ef því er að skipta. Hann segist stundum láta
nemendur framkvæma tilraunir sjálfa og skrifa
hefðbundnar skýrslur, en þó segir hann á einum
stað: „Mér finnst stundum nemendatilraunir
sem þau gera sjálf hamla þeim, þau gleyma sér
í að vera að gera eitthvað, mér finnst stundum
að þau viti ekki nákvæmlega hvað þau eru
að gera.“ Á öðrum stað segist hann stundum
leggja á það áherslu við nemendur að þau
Sýn fimm grunnskólakennara á nám og kennslu í náttúruvísindum 91