Skírnir - 01.01.1976, Blaðsíða 264
SKÍRNIR
262 JÓNAS KRISTJÁNSSON
Þetta eru í raun og veru þau dæmi sem helst er mark á takandi í Fóst-
bræðrasögu, en þau eru allt of fá, og auk þess eru handritin ósamhljóða.
Hallberg segir að vísu að allar líkur séu til þess að hlutföllin í F séu upp-
runalegri en hlutföllin i H, en hann færir engin rök fyrir þeirri ályktun.
Og hví nefnir hann ekki M sem er nú yfirleitt talin upprunalegasta handrit
sögunnar, svo langt sem hún nær? Þar eru dæmin fá eins og fyrr er bent á
og tíðnimunur lítill. En jafnvel þótt miðað sé við F sem hefur hæsta tíðni
hitta(sk), þá er sagan í flokki með Hænsa-Þórissögu og stendur á „unglegra"
stigi en Bandamannasaga sem af flestum er talin rituð um eða nokkru
eftir miðja 13. öld (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder).
Vert er að benda á það, að Peter Hallberg tekur ekki tillit til fjórða aðal-
handrits Fóstbræðrasögu, Konungsbókar (R) sem hefur verið rituð á 14. öld
og er varðveitt í góðum eftirritum á pappír. Mér telst svo til að dæmi um
hitta(sk) og finna(sk) séu álíka mörg í R.
f 3. kafla ritgerðarinnar fjallar Hallberg um hinar svonefndu „klausur"
x Fóstbræðrasögu, og sé ég ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum.
Seint mun verða úr því skorið með vissu hvort þær eru eftir sjálfan höfund
sögunnar eða einhvern yngri uppskrifara, og nenni ég ekki að jagast um
það. Peter Hallberg er efst i huga hve klausurnar séu „laust tengdar við
textann umhverfis þær,“ en ég hef hinsvegar lagt áherslu á það hversu þær
séu samofnar sögunni. og hversu erfitt sé að ákvarða hvað sé klausa og
hvað ekki!
„Það er eftirtektarvei't, og varla nein tilviljun," segir Hallberg, „að af
21 orði, sem Jónas tekur til sérstakrar athugunar í kaflanum „Einstök orð
og orðasambönd" ... eru flest hinna sérkennilegustu einmitt i klausunum,
en ekki annars staðar i sögunni." Eg skal játa að ég hafði ekki talið saman
hver þessara „lærdómsorða" koma fyrir í klausunum og hver utan þeirra.
Nú þykir mér „eftirtektarvert, og varla nein tilviljun" að 10 af 21 orði skuli
koma fyrir í sögunni utan klausnanna. Sum þeirra eru líka sérkennileg engu
að síður en hin sem tekin eru úr klausunum, t. d. andvaragestur, gnadd,
hrdskinn, lykna, samvitandi. Á sum þessara orða hafði Sigurður Nordal áður
bent (í óprentuðum háskólafyrirlestri) og talið þau bendingu um að lærður
maður hefði skrifað söguna.
Ég tel það ekkert undrunarefni þótt cursus komi oftar fyrir í klausunum
heldur en sjálfri sögunni. Á þeim er einmitt svokallaður lærdómsstíll, og
cursus er eitt sérkenni hans, eins og Jakob Benediktsson hefur sýnt fram á.
Á hverju eiga menn von? Að klausurnar séu alveg eins og aðrir hlutar sög-
unnar? Þá mundi enginn tala um neinar klausur í Fóstbræðrasögu!
Fóstbræðrasaga verður ekki að eldri þótt menn hafi trúað þvi lengi að
hún væri rituð um 1200. Engum hefði nokkru sinni dottið í hug að þessi
saga væri meðal elstu Islendingasagna, ef Konrad Maurer (og Sigurður Nor-
dal) hefðu ekki þóst finna áhrif frá henni á Helgisögu Ólafs helga. Áður
en ég birti athuganir mínar höfðu ýmsir aðrir bókmenntafræðingar látið
skína í efasemdir um að sagan gæti verið svo gömul. Nefni ég þar til Einar