Skírnir - 01.01.1976, Blaðsíða 268
266
RITDÓMAR
SKÍRNIR
raá segja um bræðratvenndirnar, sem eru svo raikið atriði í Egils sögu,
rætur þeirra mega vel vera í Jómsvíkinga sögu, en það breytir ekki því að
hlutverk þeirra í Egils sögu verður allt annað.
Hitt er svo annað mál að enda þótt bent hafi verið á bóklegar fyrir-
myndir að mörgum atriðum sögunnar, er með því ekki fengið svar við því
hversu mikið af mynd sögunnar af Agli stafi frá arfsögnum, eins og Bjarni
tekur sjálfur fram (bls. 222). Víða kemur þó í ljós að Bjarni dregur hlut
arfsagna mjög í efa, án þess þó að afneita þeim með öllu. Stundum leiðir
þessi afstaða hann út í dálítið óljóst orðalag, eins og t. d. þar sem hann
ræðir um Þórólf Kveldúlfsson. Hann bendir á að Egils saga getur hvergi um
Herlaug bróður Skallagríms, sem nefndur er í Landnámu. Síðan segir hann
(bls. 99) að setja mætti fram þá kenningu að söguhöfundur hafi vitandi vits
búið til annan áður ókunnan bróður í stað Herlaugs og kallað hann Þórólf
eftir Þórólfi Skallagrímssyni. Þessa kenningu telur Bjarni að mætti styðja
með eftirlæti söguhöfundar á bræðratvenndum, svo og því að ýmis atriði
í sögu Þórólfs Kveldúlfssonar eiga sér bókmenntalegar fyrirmyndir. Hins-
vegar kemur ekki skýrt fram að hve miklu leyti Bjarni trúir á þessa kenn-
ingu. Honum er vitaskuld ljóst að kenningin stangast á við frásögn Þórðar-
bókar af landnámi Skallagríms og því sem þar segir um þá frændur. Hann
tekur fram að sé litið á þá frásögn sem trausta heimild, sé ekki hægt að
efast um að Þórólfur Kveldúlfsson hafi verið til utan Egils sögu. Nú telur
Bjarni á öðrum stað (bls. 90) að ekkert mæli því í gegn að Egluhöfundur
hafi notað Landnámugerð sem hafi verið svipuð og kaflinn í Þórðarbók.
Og á enn öðrum stað (bls. 51) telur hann að frásögn Þórðarbókar sé runnin
frá Melabók, eins og menn eru yfirleitt sammála um. Bjarni lætur að vísu
uppi nokkrar efasemdir um uppruna Melabókar (bls. 50), án þess að Ijóst
sé hvað hann á við. Víst er a. m. k. að lýsing Melabókar á landnámi Skalla-
gríms er óháð Egils sögu og að öllum líkindum eldri en hún. Hitt verður
aftur á móti ekki vitað hvort hiin er komin úr Frum-Landnámu, en hafi
hún staðið í Styrmisbók, eins og sennilegast er, eru allar líkur til þess að
höfundur Egils sögu hafi þekkt hana. Þá þurfti hann ekki að búa til neinn
Þórólf Kveldúlfsson, og þá skipti ekki heldur máli hvort arfsagnir um hann
hafa verið lifandi á dögum söguhöfundar. Það má rétt vera sem segir á bls.
89: „Det er máske usikkert om Þórðarbóks ekstra stykke om Kveldúlfr og
hans spnner er enslydende med Landnámabóks oprindelige beretning." Úr
því verður vitaskuld ekki skorið, en það skiptir ekki máli ef Egluhöfundur
hefur þekkt þessa landnámsfrásögn eða aðra efnislega samhljóða. Einmitt
bræðratvenndirnar Kveldúlfssynir og Skallagrímssynir í Þórðarbókarkaflan-
um hefðu getað orðið Egluhöfundi tilefni til þess að gera sér svo títt um
hræðratvenndir sem raun ber vitni. Með þessu er ekkert um það sagt hvort
nokkrar arfsagnir hafa verið til urn Þórólf Kveldúlfsson á dögum Egluhöf-
undar um fram það sem lesa má úr kaflanum í Þórðarbók. Bjarni hefur
sýnt fram á að margt af því sem sagt er um Þórólf Kveldúlfsson á sér bók-
menntalegar rætur, og einmitt það gæti bent til þess að söguhöfundur hafi