Skírnir - 01.01.1976, Blaðsíða 276
274
RITDÓMAR
SKÍRNIR
þyrnir í augum margra þeirra? Eftir er líka að athuga, hvernig stíll og
málsmeðferð Halldórs hefur mótað rithátt yngri höfunda. En þetta mikla
og flókna rannsóknarefni verður líklega að bíða síns tíma.
Hvað sem því líður, gefur erindi Sveins Skorra góða hugmynd um Hall-
dór Laxness og verk hans sem snaran þátt í islenzku menningarlífi um
hálfa öld.
í framlagi sínu, „Innleiðsla mannsins í öndvegi. Um ritgerðir Halldórs
Laxness", tekur Vésteinn Olason að nokkru leyti í sama streng og Sveinn
Skorri. Hann leggur nefnilega mikið upp úr þeim tilgangi skáldsins „að
menna íslenzku þjóðina". í fyrsta lagi mætum við hér hinum róttæka bar-
áttumanni, sósíalistanum Halldóri Laxness, sem berst frá upphaíi gegn
óréttlæti hins borgaralega þjóðfélags og fyrir „innleiðslu mannsins í önd-
vegi“. Vésteinn viðurkennir, að skáldið „hafi löngu siðar misst trúna á það
að kenningarkerfi Karls Marx eða annarra sósíalista geti leyst vanda manns-
ins“; hins vegar „hefur mann-hyggjan, húmanisminn, verið sem rauður
þráður í ritgerðum hans alla stund síðan" (44).
Vésteinn sleppir, auðvitað af ásettu ráði, ýmsum mikilvægum hliðum á
ritgerðum Halldórs. Hann segir til dæmis ekkert um hinar snilldarlegu
mannlýsingar hans, í afmælisgreinum og dánarminningum, né hinar mörgu
frumlegu ritgerðir hans um íslenzkar fornbókmenntir — eitt uppáhaldsefni
skáldsins ekki sízt á seinni árum.
Óskar Halldórsson fjallar í „Kvæðakveri" fróðlega um ljóð Halldórs Lax-
ness, en á þau hafi oft verið litið „sem einhvers konar aukagetu í skáldskap
hans" (61). Það er fengur að því, að Óskar skuli einnig hafa gert kvæðunum
í skáldsögum Halldórs, til dæmis Sjáljstœdu fólki og Heimsljósi, nokkur skil.
Um þessa „aukagetu" hefur hann meðal annars eftirfarandi markvissu orð:
„Stundum gegnir ljóðið í skáldsögum Halldórs sams konar hlutverki og
kveðskapur í fomsögum: Það sem ekki var hægt að segja í óbundinni ræðu,
gátu menn tjáð í ljóði.“ (78)
Önnur afmörkuð hlið skáldskaparins er tekin til meðferðar í erindi Stef-
áns Baldurssonar: ,,‘Uppþornuð sítróna og tvær rauðar jólakúlur’. Fáein
orð um leikrit Halldórs Laxness". (Tilvitnunin í þessari fyrirsögn er úr
sviðslýsingu að fyrsta þættinum í Prjónastofunni Sólin.) Lýsingar og útskýr-
ingar Stefáns eru glöggar og athyglisverðar. En þær rista kannski ekki sér-
lega djúpt, enda hafa gagnrýnendur yfirleitt átt erfitt með að átta sig til
fulls á leikritagerð skáldsins frá seinni árum. Stefán vitnar i spurningar
manna um þessi rit: „Hvert er maðurinn að fara? Hver er meiningin?" (87)
Höfundurinn sjálfur hefur verið mjög frábitinn því að útlista „meininguna"
og látið áhorfendur og gagnrýnendur um það. En það er ef til vill eðlilegt,
að jafn sérstæð, fjarstæðukennd og „ótrúleg" leikrit og Strompleikurinn,
Prjónastofan Sólin og Dúfnaveislan skilji eftir nokkra óvissu hjá okkur,
dálítið ónotalega tilfinningu að hafa kannski ekki fundið púðrið í þeim.
Þjóðfélags- og menningargagnrýnin er augljós, en hún er að vissu leyti
óbein, að minnsta kosti óháð venjulegum pólitískum stefnum. Hún er