Skírnir - 01.01.1982, Side 9
SKÍRNIR
TRÖLLASAGA BÁRÐDÆLA
7
brotin: Allt frá því er hann fékkst við Glám þorði hann „hvergi
at fara einn saman, þegar myrkva tók“. Nú sækist hann eftir
fundi við forynjur á náttarþeli og hafnar öllum ténaði heima-
manna á Sandhaugum. Jafnvel meginhugmynd sögunnar, ógæfa
Grettis, sbr. álög Gláms að hann uppskeri hamingjuleysi af verk-
um sínum, verður hér að öngvu. Þegar alls þessa er gætt er ekk-
ert undarlegt þótt Bárðardalssagan ætti á sínum tíma þátt í efa-
semdum um að Grettla væri ein heild.2
Fyrir meira en öld, þegar fæstir efuðust um sannleiksgildi ís-
lendingasagna, varð ýmsum fræðimönnum ljóst að hér var ekki
um íslenskt sagnaefni að ræða heldur gamla ævintýrasögn eldri
en byggð norrænna manna hér. Heiðurinn af þeirri uppgötvun
átti Guðbrandur Vigfússon sem fann greinilegar hliðstæður við
hana í Bjólfskviðu (Bjkv.), fornensku hetjukvæði sem talið er frá
8. öld, m. ö. o. 500—600 árum eldri samsetningur en Grettla.
Hugði Guðbrandur að þær frásagnir þessara verka, sem hér um
ræðir, mundu báðar af sömu rót og væri Glámssagan einnig grein
af þeim meiði.3 Ábending Guðbrands hleypti af stað skriðu mik-
illi af rannsóknarskrifum, einkum eftir að Hugo Gering vakti at-
hygli á henni með sérstakri grein árið eftir.4 Skriðan hefur
hreyfst öðru hverju síðan og margt borist með henni. Kom fljótt
í Ijós að Bárðardalssagan og Bjkv. voru ekki einar um hituna.
Kjarni sagnarinnar og einstök minni hennar leyndust víðar, ekki
einungis í norrænum fornsögum heldur einnig ævintýrum.
Rannsóknarsöguna þarf ekki að rekja til að varpa ljósi á þau
atriði sem hér verður fjallað um, en geta þarf ýmissa rita sem
gildi hafa fyrir Grettlu sérstaklega og spurningar um samband
hennar við þetta efni. En áður en lengra er haldið verður að
kynna í stystu máli þá atburði Bjkv. sem minna á Bárðardals-
söguna. Hef ég þann útdrátt nokkru nákvæmari en lýsinguna á
frásögnum Grettlu áðan með því að flestir lesendur þessarar
greinar munu eiga auðvelt með að lesa þær í sögunni.
III
Bjólfskviða hefst á stuttu yfirliti um hina elstu Danakonunga,
Skjöld og niðja hans. Hróðgar, sem er þriðji maður frá Skildi,
hefur látið reisa veglega veisluhöll sem nefnist Heorot (hjörtur-